· About 5 minutes read

Svæðapólitík og málefnapólitík

Margir kyrja nú um kosti þess að hafa landið sem eitt kjördæmi, oftar en ekki því miður að illa athuguðu máli. Gera menn oftast ráð fyrir því að eini þátturinn sem skipti máli í því samhengi sé vægi einstakra atkvæða gagnvart heildinni, sem er nú oftast hér um bil sá sami, með einhverjum smámun sem er oftast veginn upp með því að tilfærð atkvæði úr stóru kjördæmunum hafa ögn meiri áhrif þegar þau flakka. Ennfremur virðist sem fólk úr Reykjavíkurkjördæmunum kvarti sig aumasta yfir þessu lítilræðis misvægi, meðan raunin er sú að Suðvesturkjördæmi kemur áberandi verst út.

Ég er ekki andfallinn því að landið sé eitt kjördæmi. Það hefur ótal kosti. Það er til dæmis ómögulegt að stunda það sem á ensku kallast “gerrymandering”, þar sem kjördæmamörkin eru færð fram og til baka til að henta pólitískum markmiðum. ReDistricting er frábær flash-tölvuleikur sem útskýrir þá hugmynd. Þá hafa öll atkvæði líka jafnt vægi óháð flakkaranum, og ýmislegt fleira gagnlegt kemur út úr því.

En því fylgja líka ókostir. Til að útskýra þá ætla ég að kynna tvö hugtök: Svæðapólitík og málefnapólitík. Með þessum hugtökum er ekki átt við að svæðapólitík sé ómálefnaleg, eða að málefnapólitík sé ekki svæðisbundin, heldur meira að sumt málefni séu í eðli sínu meira svæðisbundin málefni og að önnur eru meira afstrakt málefni sem eru ögn óháðari landssvæðum. Sjáum til:

Svæðapólitík er það þegar áherslan er á hagsmuni ákveðins landsvæðis. Til dæmis myndi það hvort hringvegurinn fari í gegnum Blönduós eða ekki klárt dæmi um svæðapólitík. Fyrir þá sem búa í Blönduós er þetta mikið hagsmunamál, því hætt er við að töluverðir fjármunir glatist út úr bæjarfélaginu ef vegurinn hættir að ganga þar í gegn. Annað dæmi er bygging stóriðju í Þingeyjarsýslu. Óháð því hvað náttúruverndarsinnunum á malbikinu finnst er þetta mál sem skiptir fólk á Húsavík miklu máli fjárhagslega. Þið fattið mynstrið.

Málefnapólitík er eins og áður segir meira afstrakt – meira að gera með hugmyndir heldur en svæðisleg málefni. Til dæmis er það hvort að notuð sé Íslensk króna hér eða einhver annar gjaldmiðill dæmi um málefnapólitík. Sömuleiðis eru hugverkaréttur, aðskilnaður ríkis og kirkju, og þátttaka í Evrópusambandinu dæmi um málefnapólitík. Öll þessi atriði geta haft áhrif á svæði: Upptaka Evru gæti haft góð áhrif á útflutningsiðnaðinn, þátttaka í Evrópusambandinu myndi gera bændum erfiðara fyrir, og svo framvegis. En þessi atriði hafa ekki jafn mikla beina köllun til tiltekinna landsvæða.

Nú, já.

Þegar verið er að tala um kjördæmaskipan, þá er á mjög lúmskan hátt verið að karpa um hvort svæðapólitík eða málefnapólitík eigi að vera ofan á.

Til dæmis í Bretlandi, þar sem eru 650 einmenningskjördæmi, er alfarið ómögulegt fyrir frambjóðendur aðra en formenn stjórnmálaflokka að ræða um landlæg málefni í kosningabaráttunni sinni – kjósendur vilja vita hvað þeir fá út úr kosningunum í sínu kjördæmi, og því þurfa frambjóðendur alfarið að biðla til svæðisbundinna hagsmuna. Af þessum sökum er ekki nokkur séns að sérmálefnaflokkar nái neinu fylgi í kosningum (til dæmis Friðarflokkurinn, Sjóræningaflokkurinn og Kristinlegi flokkurinn), meðan svæðishagsmunaflokkar (á borð við Plaid Cymru og Democratic Unionist flokkana) geta oft náð góðu fylgi.

Hitt öfgadæmið er þingkosningar til Evrópuþings. Velflest lönd hafa landið sitt sem eitt kjördæmi í þessum kosningum (undantekningarnar eru Bretland, Frakkland, Póland, Belgía og Ítalía, ef mig misminnir ekki). Fyrir vikið er, á Evrópuþinginu, mjög sjaldan litið til svæðisbundinna málefna innan landanna, en gríðarlega mikið af almennri málefnavinnu fer fram. Einu tilfellin þar sem svæðisbundin málefni virðast komast að í Evrópuþinginu er ef þingmennirnir sjálfir hafa tengsl eða hagsmuni á þeim svæðum.

Íslenska kjördæmakerfið er ágætt að því leyti að með því að hafa marga þingmenn í hverju kjördæmi og þó fá kjördæmi, þá næst fram ákveðið jafnvægi milli svæðis- og málefnapólitíkur. Það má ná fram þessum sömu áhrifum öðruvísi.

Til dæmis mætti kjósa þriðjung þingmanna eftir einmenningskjördæmum, þriðjung með landið sem eitt kjördæmi, og þriðjung eftir héröðum. Þá væri strax komið upp áhugavert jafnvægi milli málefna. Hvað svo gerist á þinginu er annað mál – það er svo alveg eftir höfði þingmannana sjálfra, en við komum að því eftir smá. Fyrst vildi ég bara reyna að koma þessari hugsun myndrænt til skila:

kjordaemi_saeti

Ég henti þessari mynd saman á stuttum tíma, þannig að þið afsakið kannski hvað þetta er klunnalega gert – en vonandi skilst þetta.

Þá er hitt. Hvaða möguleika vantar inn á þetta?

Jú. Það vantar möguleikann á “mjög mörg sæti” og “mjög mörg kjördæmi”. Nánar tiltekið vantar möguleikann á “eitt sæti á hvern einstakling á Íslandi.”

Hvernig útleggjast málefna- og svæðispólitík í því dæmi?

Jú, ef við höfum beint lýðræði, þá hefur hver einstaklingur sín málefni, svæðisbundin sem og afstrakt, alveg út af fyrir sig. Þau mynda sér sambönd um kynningu á mikilvægum málefnum eftir smekk, hvort heldur í heimi eða héraði.

Beint lýðræði er ekki endilega það sama og að allir kjósi um allt, alltaf, en ég mun skrifa meira um það síðar. Aðalatriðið er að valdið liggji hjá fólkinu, og að eins litlu valdi er miðlað í hendur fárra og hægt er, og þegar það er gert þá sé það afturkræft. Eingöngu þegar Alþingi er Allra Þing verður hægt að tryggja að það sé beint samhengi milli skoðanna almennings og málefnanna sem eru tekin fyrir á þingi.

En hugsum þetta kjördæmamál aðeins meira en bara á grundvelli atkvæðagildisbrotabrota… hugsum út í kerfislæg áhrif.