· About 5 minutes read

Trúfrelsi er óþarfi

Þetta kann að hljóma undarlega, en gefið þessari pælingu séns. Ég áttaði mig á þessu þegar ég sá póst frá Daða Ingólfssyni á Facebook:

Á að vera ákvæði um trúarbrögð í stjórnarskránni að frátöldu því að hverjum og einum sé frjálst að stunda þau trúarbrögð sem honum / henni hugnast?

Það var eitthvað við orðalagið á þessu sem fékk mig til að hugsa aðeins út fyrir þann kassa sem við erum vön í þessum efnum. Maður hefur alist upp við þá hugmynd að trúfrelsi sé mikilvægt og að allir hafi rétt til að trúa því sem þeim sýnist, alveg sama hversu galið öðrum þykir það. Því er ég sammála – en þó er ég ekki lengur á því að það þurfi að taka það sérstaklega fram. Ég svaraði skilaboðum Daða þannig:

Það er fullkomnlega nægjanlegt að segja að hver maður hafi rétt á því að hafa skoðanir, láta þær í ljós, og bindast félagssamtökum við aðra eins og honum hentar. Það að fólk hafi þá skoðun að til sé einhver æðri vera, og viðkomandi framkvæmi ýmsa gjörninga til heiður þeirri veru, og að margt slíkt fólk komi saman til að gera gjörninga í sameiningu er bara sértilfelli af þessari upptalningu og algjörlega óþarfi að taka það fram.

Auðvitað ættu kirkjustofnanir og trúfélög ekki að vera metin ofar öðrum félagasamtökum.

  1. grein mannrétindasáttmála Sameinuðu Þjóðanna tryggir öllum rétt til hugsana og tjáningar. Enska útgáfan fyrst ég finn ekki íslensku – mín áhersla:

Everyone has the right to freedom of opinion and expression; this right includes freedom to hold opinions without interference and to seek, receive and impart information and ideas through any media and regardless of frontiers.

Þar með er meira en hálfur sigurinn unninn. Fólk má hafa skoðanir um æðri verur, og það má tjá sig um þær. Lítum nú á 20. grein:

  • (1) Everyone has the right to freedom of peaceful assembly and association.
  • (2) No one may be compelled to belong to an association.

Restin er komin þar með – fólk má ekki einungis hafa skoðanir á guðum og slíku og tjá sig um það, heldur má það hitta vini sína sem eru sömu skoðunar og framkvæma alla þá gjörninga sem þeim hentar.

Þetta er auðvitað mannréttindasáttmáli Sameinuðu Þjóðanna, sem Ísland er aðili að, en þó eru ákvæði þess ekki bundin í lög á Íslandi.

Á Íslandi gildir hinsvegar mannréttindasáttmáli Evrópu, sem var leiddur inn í stjórnlög hér 1995 þegar mannréttindakaflanum fræga var bætt við. Ég gagnrýni þann samning mikið þessa daganna fyrir að vera pakkfullur af undantekningum, en þetta leiðir til þess að hann er bæði efnislega veikburða og óþarflega flókinn. Til dæmis eru undantekningar á tjáningarfrelsi slíkar að hefta má tjáningarfrelsi fólks um hvað það sem getur ógnað “þjóðaröryggi” – en þessi undantekning hefur verið notað ítrekað í gegnum tíðina til að stöðva lögmæta pólitíska orðræðu.

En aftur að trúfrelsinu:

Einhverjir myndu eflaust halda því fram að trúfrelsi snúist um fleira en bara skoðun, tjáningu og samkomu. Það kann vel að vera, þó svo að ég trúi því ekki, ef ég má komast þannig að orði. Hitt er annað mál að gagnvart stjórnkerfi landsins þá er hefur trúfélag ekki nein önnur einkenni; öll þau dulúðlegu einkenni sem kirkjur og þessháttar kunna að búa yfir eru algjörlega ríkisvaldinu óviðkomandi.

Til dæmis hefur ekki tíðkast að veittur sé réttur í mannréttindaákvæðum stjórnarskrár til að framkvæma kraftaverk. Það er litið svo á að nægilega stór hluti mannkyns búi ekki yfir slíkum hæfileikum til að ekki sé vert að taka þá til greina, og að þeir sem búa yfir slíkum hæfileikum ættu sjálfir að geta verndað sinn rétt til slíks, eða öðrum kosti verið negldir við tré, en eftir því hvern þú spyrð stóð það alla tíð til…

Allt þetta kemur niður á það að stjórnarskrá á ekki að ná yfir öll tilfelli á hárnákvæman hátt, því ef það er reynt mun eitthvað til falla sem tilfellaupptalningin nær ekki til. Þess heldur á stjórnarskrá að telja upp í sem breiðustu og almennustu hugtökum hvernig ríkisvaldið skuli skipulagt, takmarkað og deilt, og það ber að forðast óþarfa flækju, tvítekningar og, eftir fremsta megni, að mistúlkun geti átt sér stað.

Það að sleppa trúfrelsi út er fullkomnlega raunsæ aðferð til að einfalda stjórnarskrá og forðast tvítekningar. Það væri þó eðlilegt að hafa ábendingu þess efnis í greinargerð að fólk megi vegna samspils annarra ákvæða fallast á kné til heiðurs hverjum þeim álfakletti, guði eða spaghettískrímsli sem því sýnist.