· About 3 minutes read

Áhugaleysi fjölmiðla er ógn við lýðræðið

Nú líður óðum að kosningum til stjórnlagaþings – kosningu á þeim einstaklingum sem koma til með að rita nýja stjórnarskrá og þannig legga grunninn að framtíð þess samfélags sem við byggjum. Kynning á efni þessara kosninga og þeim hópi fólks sem almenningi býðst að velja sér fulltrúa úr er því síst minna mikilvæg en sú sem á sér stað fyrir Alþingiskosningar. Þrátt fyrir það virðist áhugi fjölmiðla á þessu máli vera takmarkaður og þeir flestir sinnt upplýsingaskyldu sinni um það í engu.

Ríkisútvarpið, sem hefur lögbundinni skyldu að gegna gagnvart almenningi, málar það upp sem hlutleysi að bjóða frambjóðendum að kaupa sér aðgang að miðlinum í formi auglýsinga en neita að standa fyrir almennri kynningu. Flestir aðrir fjölmiðlar hafa tekið sömu eða svipaða nálgun. Kjósendur hafa því fengið afar takmarkað tækifæri til þess að gera sér grein fyrir umfangi kosninganna og mikilvægi þeirra eða málefnum frambjóðenda.

Fjársterkum aðilum og þeim sem greiðan aðgang hafa að auði var frá upphafi veitt verulegt forskot á aðra frambjóðendur með því leyfi sem í lögum var bundið, að auglýsingakostnaður megi nema tveimur milljónum króna. Ef allir frambjóðendur myndu nýta sér þann rétt til fulls væri rúmlega milljarði króna veitt í auglýsingar. Stjórnvöld, RÚV og aðrir fjölmiðlar hafa sýnt algjört úrræðaleysi gagnvart málefnum stjórnlagaþingsins. Skortur á almennri kynningu á frambjóðendum til þingsins hefur gert forskot hinna fjársterku frambjóðenda miklum mun meira en annars yrði.

Án nauðsynlegrar kynningar á öllum frambjóðendum verður ferlið ekki lýðræðislegt og útkoman því ekki sá lýðræðislegi grundvöllur samfélagsins sem hún annars gæti orðið. Ef fjölmiðlar bæta ekki ráð sitt, og þá sérstaklega ríkisfjölmiðillinn, „útvarp allra landsmanna,” er líklegra að útkoman verði meira í ætt við þær aðstæður sem lágu til grundvallar kerfishruninu sem varð hér fyrir stystu.

Að endingu er það samt þannig að valdið er okkar, fólksins í landinu, og í sameiningu búum við yfir ólýsanlegum krafti sem getur fært fjöll, svo fremi sem við stöndum saman. Við getum enn séð til þess að ferlið verði bætt og stjórnlagaþingið verði sú samkunda sem við getum treyst til þess að leggja samfélaginu nýjan, styrkan grundvöll; að niðurstaða þess verði valdur þeirra breytinga sem lýðræðið þarfnast svo sárlega. Leggjumst á eitt og krefjumst umfjöllunar um þennan merka atburð og þeirrar lýðræðislegu umræðu sem við eigum rétt á.

Smári McCarthy, 3568
Jórunn Edda Helgadóttir, 3205