· About 6 minutes read · copyright Creative Commons ljósmyndir rant scarcity

Rangfærslur og rugl

Einn vinur minn benti mér á þessa grein eftir Kristján Logason, ljósmyndara, sem er pakkfull af rangfærslum. Ég ætlaði ekki upprunalega að fara í gegnum hana alla, heldur týna nokkrar rangfærslur út – en þegar ég hafði tekið út þær helstu var ekki mikið eftir af greininni… ojæja.

“Hví eru ríkustu netviðskiptamenn heims, sem engum vitanlega eru að skapa neitt listrænt, að spandera svona miklum peningum í að markaðsetja þennan óskapnað.”

Forsprakkar Creative Commons eru lögfræðingar og tölvunarfræðingar sem starfa sem prófessorar við virta háskóla svo sem Harvard og MIT – höfuðpaurinn á bak við það var Lawrence Lessig. “Markaðssetningarfólkið” er fyrst og fremst fólk eins og ég sem finnst þetta góð hugmynd. Flestir “netviðskiptamenn” hafa lítið sýnt þessu áhuga.

“Það líður vart sú vika að ég heyri ekki af einhverjum námskeiðum á norðurlöndunum í notkun Creative Commons.”

Hér virðist hann Kristján frétta af fleiri námskeiðum en ég, og þó er ég í norræna samráðshópnum fyrir verkefnið. Það var eitt slíkt námskeið í Göteborg í Október sl, en ekkert af ráði síðan þá. Raunar er sænski hópurinn sæmilega duglegur að vera með fyrirlestra hér og þar, en þó langt frá því að vera vikulegur atburður. Í næstu viku verður hinsvegar Cloudberry atburður hér á Íslandi, þar sem forystufólk Creative Commons á norðurlöndunum kemur til að eiga samráðsfundi.

“Erfiðara er að halda einhverjum rétti og því meiri rétti sem þú vilt halda því einfaldara verður lífið með því að hreint og beint merkja myndirnar þínar með C merkinu og nafni.”

Rangt. Samkvæmt Berne sáttmálanum og arftaka hans, TRIPS sáttmálanum, eru öll verk varin með höfundarétti í sinni sterkustu mynd sjálfvirkt; það þarf ekki að setja © né nafn né nokkuð annað á verk til að það sé varið.

“Fyrir núlifandi ljósmyndara er Creative Commons því arfa slæmt. Sértu dauður ljósmyndari og höfundaréttur þinn hvort eð er farinn þá horfir málið svolítið öðruvísi við.”

Ef að verk er farið úr höfundarétti, þá geturðu ekki sett Creative Commons leyfi á það, því Creative Commons er óframfylgjanlegt nema með höfundaréttarlögum.

“Við verðum hins vegar að skoða vel hvað úr safni þeirra við getum lagt út á netið og hvað ekki og því þurfum við að kunna skil á höfundaréttarlögum sem og á CC reglum svo við gerum okkur sjálf ekki skaðabótaskyld vegna vankunnáttu.”

Þetta er rétt, en þetta tengist Creative Commons ekki á nokkurn hátt, nema þó því að ef einhver þessarra myndrétthafa hefur gefið CC-leyfi á verkin sín, þá fer það ekki lengur á milli mála hvort það megi setja þau á netið – það má. Hvaða takmarkanir það lútir síðan fer eftir því hvaða CC leyfi er notað. Höfundaréttarmál varðandi birtingu á netinu verða fyrst flókin þegar rétthafar eru óaðgengilegir, óupplýstir um rétt sinn, eða ósveigjanlegir – ef það þarf að semja við 100 mismunandi aðila, hvern og einn sérstaklega, þá verður dæmið hreinlega of dýrt fyrir flest söfn.

“Með því að nota Creative Commons og einnig the commons svæðið á Flickr er hægt að auðvelda borgurunum að ná sér í slíkar myndir, enda þær í almanna eigu hvort eð er.”

Rangt. Þær eru ekki í almannaeigu ef þær eru undir Creative Commons leyfi; CC er höfundarréttarleyfi þar sem eigandi myndar gefur öðrum leyfi til að nota efnið á tiltekna vegu. Hann gæti ekki sagt til um hvað fólk mætti og mætti ekki gera ef hann væri ekki eigandi. Eina sem er í almenningseigu (public domain) er það sem er fallið úr höfundarrétti og það sem höfundar hafa gefið út yfirlýsingu á að sé í public domain (sem er raunar ekki hægt skv íslenskum höfundaréttarlögum, en tíðkast mjög í Bandaríkjunum og víðar)

“[…] sum söfn sem hafa gengið til liðs við commons svæðið á flickr hafa ekki skilið að fullu út á hvað það gengur. Þau merkja myndir sínar með CC en setja þær út í lágri upplausn og svo í texta fyrir neðan að allur réttur sé áskilin og vilji menn kópíur eða notkun myndanna þá verði að hafa samband.”

Þetta er því miður rétt, og þetta er ástæðan fyrir því að námskeiðin eru haldin. En satt að segja þyrfti hvort eð er að halda námskeið um höfundarétt, hvernig hann virkar og hvernig hann virkar ekki… CC námskeiðin taka raunar á því, og útskýra líka samningarétt – enda eru CC leyfin bara leið til að nota staðlaða samninga til réttindaveitu gagnvart höfundarétti.

“[…] menn eiga í vandræðum með að koma í gegn lögum á Bandaríska og Breska þinginu sem gefur þeim leyfi til að nota allar ómerktar myndir sem þeir finna á hvern þann máta sem þeim sýnist, líka til auglýsinga.”

Ég hef aldrei heyrt um þetta, en er ekki hissa á að þetta þyki erfitt, enda eru í það minnsta þrír alþjóðasamningar sem hreinlega banna þetta, svo ekki sé talað um að hagsmunaaðilarnir eru að berjast fyrir *sterkari* höfundarétti, ekki veikari.

“þeim tilmælum var beint til manna að vera ekki að merkja myndir sínar heldur setja einvörðungu CC fyrir neðan myndina og það helst CC sem leifði alla notkun fyrir hvern sem er”

Þeim tilmælum var aldrei beint formlega til fólks frá Creative Commons að mér vitandi – hinsvegar hefur verið margoft bent fallega á að það er algjör óþarfi að skemma fallegar myndir með merkingum þegar Berne og TRIPS gerir það mjög skýrt að slíkt sé óþarfi og hefur ekki aukið lagalegt vægi. Það kemur CC heldur ekki við. Hinsvegar, þegar CC var að byrja notaði fólk “íhaldssömu” leyfin mest, t.d. CC-BY-NC-ND, en eftir því sem fólk lærði betur á þetta fór það sjálft að nota meira “liberal” leyfi – nú er CC-BY-SA algengasta leyfið.

“Á allri þessari vitleysu græða aðeins tveir til þrír aðilar”

Bíddu ha? Ég veit ekki betur en að stór hluti mannkyns sé að græða á tilvist Wikipedia, sem er undir Creative Commons leyfi (og verður að vera undir slíku leyfi, annars mætti enginn breyta greinum sem aðrir skrifuðu, né heldur mætti birta síðuna opinberlega án leyfis allra höfunda…). Þá hef ég grætt persónulega á því að gefa út efni undir Creative Commons leyfi, svo ekki sé minnst á allt fólkið sem hefur það að atvinnu sinni að gefa út efni undir CC leyfum – ágætis dæmi um það er Trent Reznor (Nine Inch Nails gefur allt sitt undir CC).

“Þannig hefur ungum ljósmyndurum verið kennt að skjóta sig í fótinn án þess að vita af því.”

Er ekki frekar vandamálið að markaðurinn fyrir ljósmyndir hefur snarminnkað eftir að myndavélar urðu ódýrar, einfaldar og aðgengilegar?

Ég hef fulla samúð með ljósmyndurum, þau vinna falleg verk og hafa í gegnum tíðina náð að fanga margar merkustu söguheimildir heimsins – að vísu á form sem glatar gæðum svo hratt að þegar þær eru fallnar úr höfundarétti eru þær oftar en ekki löngu orðnar ónothæfar með öllu. Hinsvegar gildir það sama um ljósmyndara eins og aðra, að ef þeirra viðskiptalíkan fyrir framtíðina er að viðhalda skorti, þá er ekki útlit fyrir að þau muni geta viðhaldið sínum viðskiptaháttum lengi enn. Til að halda áfram að starfa sem ljósmyndari hugsa ég að nauðsyn sé að bjóða upp á eitthvað sem er ekki á færi hvers sem er að bjóða; óaðgengilegara myndefni, meira skapandi myndir, óvenjuleg sjónarhorn, einstaka atburði og fleira í þeim dúr. Það að kvarta undan Creative Commons mun ekki leysa það vandamál að ljósmyndir eru ekki lengur skortvara. Fyrir hverja mynd sem fagmaður tekur og reynir að selja dýrum dómi eru þúsund myndir sem áhugamenn taka og dreifa undir frjálsum leyfum, í þágu alls mannkyns, sem eru oftar en ekki jafn góðar eða betri.