· About 11 minutes read

Um fjölmiðlalög og slæmar tilskipanir

Eftirfarandi grein er rúmlega 2000 orð. Samantekt: Fjölmiðlalögin eru slæm, en þau eru háð þáttum sem við ráðum ekki við, og því er tilgangslaust að reyna að standa í vegi þeirra eins og er. Að auki eru þau skárri að ýmsu leyti en núgildandi lög. Andstaða við þau þarf að eiga sér stað annarsstaðar.

Mikið hefur verið rætt um nýju fjölmiðlalögin og þegar þetta er skrifað eru rétt rúmlega 4100 manns sem hafa skrifað undir áskorun til forseta Íslands þar sem farið er fram á að hann synji þeim undirskrift og vísi í þjóðaratkvæðagreiðslu. Þá hefur Guðmundur Franklín skrifað um lögin og lagt fram fullyrðingar sem eru svo flóknar að Elías Jón Guðjónsson fann sig knúinn til að svara, þó á mjög diplómatískan hátt.

Þá hafa fjölmiðlarnir sjálfir hlaupið upp til handa og fóta, sem mér finnst undarlegt að þeir hafi ekki gert fyrr en að lögin voru samþykkt. Þeim gafst rúmt ár til umræðna um þessi lög áður en þeim var ælt út úr pylsuvagninum* í viku sem leið. Það hefur einhvernvegin vantað upp á þá hefð í íslenskum fjölmiðlum að þeir kynni sér málin og fjalli um þau tímanlega og af skynsemi. Þau eru öllu fremur dugleg við að æsa sig og alla aðra upp yfir tittlingaskít þegar þeim vantar að bæta áhorfstölurnar eða auka auglýsingasölu, virðist vera, og þá sjaldan sem kemur eitthvað sem verðskuldar að kallast fréttamennska úr Efstaleitinu, hvað þá úr Skaftahlíðini eða Hádegismóum, þá er það oftar en ekki stór hvellur sem skilur eftir sig ekkert brak.

[* Sem ég mun kalla Alþingi héðan af í ljósi umræðu síðustu viku en ekki síst vegna þessarar frábæru tilvitnunar í þýska evrópuþingmanninn Willi Rothley sem lýsti tilgangi slíkra stofnana vel: “Die Wurstmaschine muss ständig immer irgendetwas produzieren. Ob das sinnvoll ist oder nicht spielt doch überhaupt keine Rolle.”]

Nú hef ég í um eitt og hálft ár verið að reyna að bæta rétt fjölmiðla, bæði á Íslandi og víðar, með ágætis árangri að mínu mati. Ég hef oft undanfarið verið spurður hvers vegna þetta gangi svona illa, og því hef ég litlu getað svarað öðru en að pylsuvélin er hæggeng, það voru engir peningar settir í verkefnið á fjárlögum og það virðist vera einhver tregða á nokkrum stöðum í stjórnkerfinu þó svo að almennt séð er stjórnsýslan á okkar bandi. En ef maður slítur sig upp frá því að kvarta yfir stofnunum og nöldra yfir hæggengni, þá kemur ýmislegt áhugavert í ljós.

Frá því að við fórum af stað hefur ein þingsályktun verið samþykkt á Íslandi í tengslum við okkar vinnu, tvær í Evrópuþinginu, og fyrsta lagabreytingin sem við höfum lagt til er komin í gegn á Íslandi. Þá höfum við tekið þátt í ótal ráðstefnum bæði á Íslandi og víðar, komið á framfæri alvarlegum athugasemdum við ýmiskonar löggjöf á nokkrum stigum, og gert fjöldan allan af upplýsingabeiðnum hér og þar.

Í viðbót við þetta þá hef ég á síðustu vikum gert óformlega samstarfssamninga, sem verða formgerðir á næstu mánuðum, við háskóla, stofnanir og fyrirtæki, um samvinnu við að koma þessum hugmyndum í framkvæmd út um gjörvalla Evrópu.

Í fyrradag tók ég svo þátt í pallborðsumræðum í evrópuþinginu um IMMI verkefnið og upplýsingafrelsi í Evrópu, ásamt hollenska ALDE þingmanninum Marietje Schaake, eistneska EFA/Græningjanum Indrek Tarend, og þremur fulltrúum hollensku afhjúpendasamtakana Moreel Besef. Þar var markmiðið að reyna að finna út hvað Evrópusambandið gæti gert til að bæta og vernda tjáningarfrelsi og nánar tiltekið hvað þau gætu lært af Íslenska verkefninu. Í kjölfar þessa og hugmyndanna sem ég varpaði fram í umræðunum var í gær myndaður samstarfshópur innan Evrópuþingsins sem heitir The Fifth Freedom Movement, sem snýst um að reyna að fá frjálst flæði upplýsinga skilgreint sem fimmta grundvallarfrelsi sambandsins.

En um klukkutíma áður en pallborðsumræðurnar byrjuðu þá fékk ég óvænt símtal frá konu sem vinnur á skrifstofu Dunju Mijatovic, fulltrúa öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu (ÖSE) um fjölmiðlafrelsi. Hún var að forvitnast hvort að það væri ástæða til að hafa áhyggjur af íslensku fjölmiðlalögunum.

Hún hafði heyrt af undirskriftasöfnuninni og þeirri umræðu sem átti sér stað í fjölmiðlum og vildi vita um afstöðu IMMI og hvað mér fynndist um málið almennt. Ég sagði henni að afstaðan sem við höfðum tekið innan IMMI væri sú að standa ekki í vegi fyrir þessum fjölmiðlalögum. Ástæðan verandi sú að fjölmiðlalögin eru fyrst og fremst útfærsla á Audio-Visual Media Services Directive (AVMSD) (PDF hlekkur), sem tekur við af Television Without Frontiers tilskipuninni svokölluðu og er stimpluð inn sem gildandi í EES, þannig að það er ekki valkvæmt hvort að það sé tekið upp. Nánast allir þættir íslensku fjölmiðlalagana sem eru slæmir eða hættulegir eru beint komnir upp úr þessari tilskipun.

Það hafa verið skrifaðar margar góðar ritgerðir um það hvers vegna AVMSD er slæm tilskipun. Félagi minn hann Peter Molnar hefur sennilega verið einn harðasti gagnrýnandi tilskipunarinnar. Í Law and the Creation of Free Speech Rights –  The Impact of International Regulations in Central and Eastern Europe skrifar hann:

When the Declaration was born, the scope of the directive was already narrower than had originally been proposed by the European Commission. The scope of the draft had been narrowed down to cover only audiovisual media services, instead of covering all audiovisual Internet content. The final text of the directive  incorporated further significant changes in order more narrowly to define the scope of the directive. But the line between content that is covered, or not covered, by the directive is still not clear, and some of the content-based rules apply to both the broadcast and the on-demand services. In this light, the European Commission’s claim that it is introducing lighter-touch regulation of on-demand services amounts to surprisingly misleading communication by one of the most powerful actors of European policy-making.

Hann vísar mjög mikið í þessari grein í Budapestsyfirlýsinguna, sem fjölmargir fræðimenn á sviði fjölmiðlaréttar undirrituðu. Þar segir meðal annars:

The unjustifiable restrictions suggested in the draft proposal of the European Commission would put freedom of speech and freedom of information at risk especially in Central-, and East-European countries where arbitrary use of the state regulatory power is more likely than at least in some  West-European democracies

Þrátt fyrir þessi alvarlegu aðvörunarorð fór tilskipunin í gegn, og hún verður staðfærð allsstaðar á EES svæðinu. Síðan þá hafa Ungverjar sett sína útfærslu á AVMSD í lög, og sú útfærsla varð til þess að hrinda af stað stærstu mótmælunum sem hafa átt sér stað í Ungverjalandi frá því að þau losnuðu undan oki kommúnismans í Október 1989, nokkuð sem þessi sami Peter Molnar átti töluvert ríkan þátt í að framkvæma. Það eru mörg vandamálin í Ungverjalandi um þessar mundir, en fjölmiðlalögin eru áberandi stærsta vandamálið – þau hafa gelt fjölmiðlastéttina og gert almenna umræðu um alvarleg pólitísk málefni að algjörri undantekningu. Ég náði þó að smeygja einni slíkri undantekningu inn í fjölmiðilinn index.hu á dögunum, þar sem ég sagði meðal annars að mér þætti undarlegt að Ungverjaland væri að færast í átt að öfgafullu einræði meðan Norður-Afríka væri að slíta sig frá því.

En Ungverjaland er ekki eina vandamálið. Ég fékk nýlega póst frá félaga mínum í Ítalíu, þar sem hann lýsti þungum áhyggjum af nýju útfærslu Ítalska ríkisins á AVMSD. Það er skiljanlegt. Ítalska ríkið reyndi að hamra Legge Alfano í gegn á sínum tíma með litlum árangri, þannig að þau sjá AVMSD sem gullið tækifæri til að ná svipuðum áhrifum fram án þess að þurfa að þvælast inn á stjórnskipunarleg vafaatriði.

Eins og sést þá er vandamálið við AVMSD mjög stórt, og gagnrýnin hefur fyllt fjölmargar blaðsíður. Þá hafa ÖSE, Amnesty International, Alþjóðasamband bókasafnsfræðinga, Miklós Harasti (fyrrum fjölmiðlafrelsisfulltrúi ÖSE), og fleiri birt skýrslur um Ungverska tilfellið sérstaklega: 1, 2, 3, 4, 5, 6

Ég sagði þessari konu sem hringdi frá ÖSE að stærsta vandamálið við fjölmiðlalögin eins og þau voru lögð fram fyrir ári síðan væri svokölluð fjölmiðlastofa, sem ætti að vera eftirlits- og skráningarstofnun sem passaði upp á að fjölmiðlarnir hegðuðu sér vel. Það eru mörg hlutverk sem slík stofnun ætti með réttu að gegna, svo sem að tryggja að fjölmiðlar séu ekki að nota aðrar útsendingartíðnir en þeir mega (sem er hlutverk póst- og fjarskiptastofnunar), tryggja að það ríki einhverskonar jafnrétti kynja í fjölmiðlum (sem er vafasamt hlutverk jafnréttisstofu) og að tryggja að börn séu varin fyrir auglýsingum, klámi og viðbjóði (sem er hlutverk foreldra í dag). En vegna þeirrar andstöðu sem gætti við hugmyndina um fjölmiðlastofu var henni fleygt út í frumvarpinu sem var lagt fyrir á yfirstandandi þingi. Vissulega kom í staðin fjölmiðlanefnd, en ætla má að hún sé álíka tannlaus í reynd og allar aðrar nefndir. Það mætti velta upp áhyggjum yfir því að þarna er verið að nefndarvæða hlutverk sem ætti kannski frekar heima í höndum dómstóla – ef fjölmiðlar brjóta af sér þá eru það dómstólar en ekki framkvæmdarvaldið sem eiga að sjá um að refsa – en þróun í átt að “extrajudicial oversight” er voðalega vinsæl í Evrópu um þessar mundir. Að kvarta yfir þessu atriði væri eins og að kvarta yfir einum hávaðasömum fugli í fuglabjargi. Ég er ekki að segja að við eigum ekki að kvarta yfir þessu – heldur frekar að við eigum að ráðast á rót vandans.

Svo er hitt. Gildandi lög um fjölmiðla eru prentlög frá 1956 og útvarpslög frá 2000. Þó svo að það sé ekki í raun ástæða til að fetta fingur út í útvarpslögin þá eru prentlögin verulega úreld. Jón Kaldal tók þetta ágætlega fyrir í grein á Vísi 2009, þar sem hann sagði meðal annars að “Það er löngu tímabært að Blaðamannafélag Íslands beiti sér fyrir því að prentlögin verði endurskoðuð og færð til nútímans. Til þess að svo verði þarf þó að vera til staðar lágmarksþekking á lagaumhverfi stéttarinnar.” Hvernig væri það?

Staðreyndin er þessi: nýju fjölmiðlalögin eru hörmung, en þau eru mun minni hörmung en þau lög sem þau taka við af, og allir verstu þættir fjölmiðlalagana eru þess eðlis að við höfum ekki neitt um þau að segja vegna þess að þau koma úr evrópskri tilskipun. Meðal þess sem er gott í þessu er að loksins er komin vernd fyrir heimildarmenn blaðamanna. Ákvæði um þetta var í fjölmiðlafrumvarpinu sem var lagt fram á síðasta þingi, en vegna IMMI-ályktunarinnar gafst menntamálaráðuneytinu ráðrúm til að styrkja heimildaverndina töluvert, til samræmis við ráðleggingu R(2000)7 frá Evrópuráði, sem er frábært.

Nú spurði hún hvort að mér þætti líklegt að Ólafur Ragnar Grímsson myndi synja lögunum um undirskrift. Ég sagðist óviss. Forsetinn hefur áður verið erfiður við íslenska ríkisstjórn út af mun óþægilegari fjölmiðlalögum, og hefur beitt málskotsákvæðinu grimmt. En þó finnst mér ólíklegt að hann grípi til slíkra ráða í þessu tilfelli; lögin eru flókin.

Það sem ég legg til er eftirfarandi:

  • Fólk sætti sig við það að þessi lög eru bót þó ekki mikil sé, en átti sig á því að þessi tilskipun er skýrt dæmi um hætturnar sem felast í því að vera í EES – við höfum enga stjórn á eigin ríki undir því fyrirkomulagi. Því tel ég að við eigum annað hvort að fara út úr EES, styðja endurskoðun þess samnings, eða fara inn í Evrópusambandið. Þetta síðasta er alls ekki eitthvað sem ég er hlyntur, en raunveruleikinn verður stundum að fá að ryðja skynseminni úr vegi.
  • Hvað sem gerist þá verður einhver, til dæmis blaðamannafélag Íslands, að finna einhverja leið til að kæra AVMSD tilskipunina fyrir evrópudómstólnum (ECJ) með það markmið að sýna að allir slæmu þættir þess brjóti í bága við meðalhófsreglu. Engin önnur leið er til til að afturkalla tilskipun af þessu tagi. Hafi einhver áhuga á slíkum aðgerðum, endilega setjið ykkur í samband við mig og ég skal koma ykkur í samband við fólk sem veit sínu viti í þessum málum. Ég mun ekki sjálfur fara út í slíkt og efast um að IMMI geri það, mestmegnis vegna þess að við höfum nú þegar allt of mikið að gera og allt of lítið fjármagn til að gera það.
  • Stjórnlagaráð ætti að taka upplýsingaréttarákvæði nýrrar stjórnarskrár mjög alvarlega og hugsa um upplýsingarétt út frá eðli upplýsinga frekar en tilgangi tjáningarfrelsis. Þessi munur getur breytt því að úr verði mjög nútímalegar varnir fyrir tjáningarfrelsi sem ganga ekki út frá því að hólfa fólk upp eftir því hvort þeir séu fjölmiðlar eða ekki. Þetta skiptir rosalegu máli, því eins og þeir sem hafa lesið fjölmiðlalögin vita þá er algjörlega óljóst hvort bloggarar eins og ég teljist til útgefenda eða ekki.
  • Við reynum að stöðva útbreiðslu slæmrar lagasetningar, hvort sem hún kemur úr Pylsuvagninum eða die Wurstmaschine. Áttum okkur á því að frelsi okkar er í alvarlegri hættu ef við stöðvum ekki þessa þróun. Það er laumulega vegið að frelsinu, bæði á Íslandi og hér í Brussel. Nútíma stjórnmálamenn eru ballerínur, ekki skriðdrekar.

Að lokum langar mig til að vera sammála Jakobi Bjarnari Grétarssyni, og ósammála Eygló Harðardóttur (sem gerist samt merkilega sjaldan). Það er mjög slæmt að kynjum er misskipt í fjölmiðlum og það þarf að laga. En það er mjög hál brekka að ætla sér að setja tjáningarfrelsinu skorður til að tryggja jafnrétti kynjana. Það hljóta að vera til betri aðferðir.