Smári McCarthy

Building social, political and technical infrastucture

Nokkur orð Um ástand Heimsins

Í nýlegum skrifum lagði ég fram nokkrar tölur sem fengu lýsingar á borð við “sláandi”, og margir báðu um ögn dýpri rýni í afleiðingarnar. Þessi pistill er hvorki stuttur né geri ég ráð fyrir því að það sé auðvelt að melta hann – það var svo sannarlega ekki auðvelt að skrifa hann. Vandamálið við söguna sem við erum að upplifa er að það er afskaplega gagnslaust að tala um einstaka þætti sögunnar nema að búið sé að koma öllum saman um ákveðin grunnatriði samhengisins. Markmiðið með þessari langloku er að leggja þessa línu svo að við getum skoðað nánar einstök atriði á komandi dögum, vikum og mánuðum.

Til upprifjunar, þá eru stærstu og mest velmegandi hagkerfi heims að hrynja báðum megin Atlantshafs. Þetta virðist enn sem komið er óumflýjanlegt. Ég óttast það versta þegar markaðir opna á mánudaginn, enda hafa atburðir liðinnar viku sett margt í upplausn sem leit ekki hrikalega út fyrir.

Bandaríkin sluppu naumlega fyrir horn um daginn þökk sé þungbærri niðurskurðaráætlun sem Obama stjórnin náði að gera við Repúblíkana á síðustu stundu sem minnkar ríkisútgjöld verulega og kallar á frekari niðurskurði og mögulega skattahækkunum innan nokkura mánaða. Vegna þessa var lánsþakið hækkað og bandaríska ríkið mun geta staðið í skilum við launagreiðslur, útgjöld, og umfram allt vaxtakostnað næstu mánuði. Þetta er hinsvegar þriðja skiptið á árinu sem þetta gerist, og lánsþakið hefur verið hækkað með síauknum hraða síðan að Roosevelt var við stjórn – að öllu jöfnu var þetta gert samhliða fjárlagagerð, en í stjórnartíð Obama hefur þurft að beita óvenjulegum bókhaldsbrögðum til að koma í veg fyrir að ríkið færi framúr. Hægt er að finna margar orsakir þessa, meðal annars verulegar útgjaldahækkanir alríkisins sem lið í því að afstýra bankahruninu, ótrúlegan kostnað sem fylgir hernaði í Írak, Afganistan og Lýbíu, og svo þrýsting frá Teboðshreyfingunni til að minnka ríkisútgjöld sem hefur orðið til þess að Repúblíkanar streitast við hækkunum á þakinu.

Fréttir frá Evrópu herma að Spánn og Ítalía séu komin í ógöngurnar sem spáð var fyrir um, og spænska þingið undirbýr aðra umferð af niðurskurðum. Ég sá vitnað í Jane Foley, sérfræðing í gjaldeyrismálum hjá Rabobank, nýlega þar sem hún sagði að breska hagkerfið væri heldur engin sjón að sjá, og hef séð fólk á Al Jazeera tala um að þau ættu von á erfiðleikum þar á næstu mánuðum. Svo hætti Barosso að þykjast sjá ekkert illt fjórða ágúst sl., og sagði að allar aðgerðirnar til að bjarga Grikklandi hefðu verið vonlausar og að þetta væri að smitast yfir í “kjarnann” – það er að segja, Þýskaland. Samhliða þessum fréttum hrundi allt sem hrunið gat. Ítalskir markaðir tóku 4% dýfu, sem fékk einn spyril BBC Radio 4 til að spyrja Ítalskan viðmælanda sinn hvort hún saknaði lírunnar, og velflestir markaðir í Evrópu lokuðu sjálfvirkt á öryggisventli eftir milli 2.5-3.5% dýfu. Þegar Bandaríkjamenn vöknuðu tók allt við að fara til fjandans hjá þeim, þegar Nasdaq lokaði á öryggisventli var það búið að lækka um 5.13%. Sum einstök fyrirtæki, sérstaklega í hráefnaframleiðslu- og orkugeiranum, lækkuðu um allt að 35.93%.

Andrew Lilico sagði að allir leiðtogar Evrópu væru í sumarfríi, en þetta væri hinsvegar ágætt því ástandið versnaði til muna í hvert skipti sem þeir opnuðu á sér kjaftinn. Hann benti réttilega á að þessi nautheimska viðleitni við að bjarga ríka fólkinu og bönkunum frá hruni með því að stafla peningunum úr ríkiskassanum upp á bak við bankana væri helsta orsök þess að nú væru ríkin sjálf að verða gjaldþrota.

Ef við köfum ögn dýpra ofan í þetta alltsaman, þá er stór hluti af vandanum bæði í Evrópu og Ameríku ódýrt fjármagn. Þetta hugtak hefur verið mikið notað undanfarin ár en hefur sjaldan verið útskýrt. Salman Khan hefur búið til nokkrar myndbandaseríur til að skýra fyrirbæri á borð við húsnæðisbóluna og Kínversk-Amerísku skuldalykkjuna, og ég mæli mikið með þeim. Í grunnatriðum var framboð á fjármagni mjög hátt, sem þýddi að fólk gat nálgast það með tiltölulega lágum vöxtum og frekar góðum kjörum án mikillar tryggingar eða sönnunar á greiðslugetu. Svo mikið var það í Bandaríkjunum að atvinnulaust fólk sem átti ekkert gat fengið risavaxin lán til að kaupa hús sem voru að hruni komin. Lánasölumenn gengu um og lánuðu eins og þeir gátu, enda fengu þeir söluþóknun en höfðu enga ábyrgð, og lánin voru pökkuð saman í stóra pakka sem voru seld hægri-vinstri á alþjóðamörkuðum. John Byrd og John Fortune lýstu þessu svo dásamlega:

Kínversk-Ameríska skuldalykkjan er áhugavert dæmi um hvernig allt hefur undið upp á sig. Kínverjar vilja halda verðunum sínum lágum til að geta selt meira til vesturlanda. Ef þeir láta markaðinn eiga sig verður til viðskiptaójöfnuður sem hækkar gengið á Yuaninu og gerir kínverskar vörur dýrari, sem minnkar eftirspurnina. Í staðinn ákváðu þeir að festa gengið miðað við dollar, og framfylgja því með því að láta seðlabankann kaupa alla umframdollara sem koma inn í landið í skiptum fyrir nýútgefna Yuan (sem skapar mikla innri verðbólgu innan Kína, sem er hluti af ástæðunni fyrir því að kínverjar hafa upplifað sína eigin framleiðslubólu). Dollarana notar svo seðlabankinn til að kaupa bandarísk ríkisskuldabréf. Eftir því sem þeir kaupa meira, því meira þurfa þeir að kaupa til að halda Yuaninu stöðugu, en ennfremur er hætt við að ef þeir hætta að kaupa ríkisskuldabréf missa þau öll verðgildi sitt.

Um milljón milljarðar af heildarskuld bandaríkjanna (um 1/14 af heildinni) er í eigu Kínverja. Megnið af restinni er í eigu seðlabanka bandaríkjanna. Kínverjar eru búnir að vera að reyna að losa sig úr þessari lykkju síðan 2009, að því er virðist, með því að fleytia Yuaninu hægt og rólega samhliða því að selja bandarísk ríkisskuldabréf í skiptum fyrir önnur, svo sem bresk og japönsk. Þessi lönd hafa svo hlaupið til og keypt bandarísk skuldabréf til að halda jafnvægi á öllu kerfinu, með líka þessum ágæta árangri.

Nú vandast málið. Evrópa hefur verið þétt samofin í skuldum sínum í margar aldir. Niall Fergusson hefur bent á að hlutfall af framleiðslu sem var selt í milliríkjaviðskiptum í byrjun fyrri heimstyrjaldar 1914 var svo hátt, sérstaklega á milli Breta og Þjóðverja, merkilegt nokk, að þau náðu bara jafn háum hæðum í kringum 1995. Þetta er frekar mögnuð staðreynd, þannig að ég endurtek: milliríkjaviðskipti í heiminum, og sérstaklega í Evrópu á 20. öld voru hlutfallslega minni, yfir heildina litið, en þau voru á 19. öld.

Alveg frá því að bankastofnanir víðast í Evrópu fóru að taka við skuldaviðurkenningum frá hvorum öðrum hefur netið þéttst, og flestar dómkirkjur álfunar eru til marks um stórtæk milliríkjaviðskipti með skuldabréf á öldum áður. Fyrir þá sem ekki vita hafa hinar ýmsu kirkjur, sér í lagi sú Kaþólska, staðið í allskyns aðgerðum í gegnum aldirnar til að efla sína eigin fjárhagsstöðu. Dómkirkjan í Malaga var aldrei fullsmíðuð – það vantar annan turninn og þakhvelfinguna – vegna þess að kirkjan ákvað að fjárfesta í stríði sem þau áttu von á því að geta grætt vel á með dómkirkjuféinu, en svo var stríðið tapað. Byggingin stendur eftir til marks um tilraunir kirkjunnar til að græða á dauða og þjáningum annarra, þótt ýmsar fallegar sögur hafa verið skapaðar í kringum ódæðin – sú helsta verandi að fjármagnið fór í að aðstoða breskar nýlendur við að brjótast undan oki nýlenduherranna (því miður er sú saga hrein og bein tímaskekkja).

Ef við horfum á landakortið í dag er það sama uppi á teningnum. Skuldaþríhyrningur milli Þýskalands, Frakklands og Bretlands heldur uppi skuldsettari löndum álfunar, sem grafa sig sífellt dýpra ofan í óleysanlegt vandamál. Nokkrar klassískar lausnir eru á svonalöguðu, og stríð er það helsta. Það sést vel á því að þegar fyrsta tilraunin var gerð til að lána Grikkjum rúmlega 150 milljarða evra til að koma þeim út úr kreppunni var það gert með því skilyrði að það yrði gert að forgangsatriði að borga uppsafnaða vexti annars vegar og svo hinsvegar að borga fyrir nokkra kafbáta og herþotur sem voru í pöntun hjá Þjóðverjum og Frökkum. Í grunninn lánuðu Þjóðverjar og Frakkar Grikkjum pening til að kaupa af sér hergögn.

Stríð eru geysivinsæl vegna þess að þau þétta efnahaginn og styrkja hann. Hergagnaframleiðsla er kostnaðarsöm og krefst mikils vinnuafls; um 2% af vinnandi fólki í Bretlandi fæst við hergagnaframleiðslu á einn eða annan hátt (tölur hergagnaframleiðanda segja 300.000 störf við “hönnun og framleiðslu”, en annarsstaðar sá ég tölur með tekið tillit til undanfara í framleiðslu og þjónustu í kringum iðnaðinn), til dæmis, og er það einn stærsti útflutningsiðnaður þeirra í pundum talið. Það er áður en litið er til rekstraraðila sem tengjast hernaði, svo sem einkaheri og þjónusta við opinbera heri.

Stríð kalla á fórnir frá almenningi sem eykur á þjóðerniskennd og hefur þau jaðaráhrif að fólk kaupir frekar innlendar vörur og gerir ýmislegt annað til að hjálpa til í stríðinu. Það virkar betur að kalla fram stríðsefnahag í löndum þar sem ríkir mikil þjóðerniskennd og samstaða fyrir, til dæmis í bandaríkjunum, og ekki skaðar það ef framleiðsluiðnaðurinn er mestmegnis sjálfbær.

En til að stríða þarf óvin. Vesturlönd hafa haft nóg af skotmörkum gegnum aldirnar, og viti menn, eitt stærsta vaxtarskeið Evrópu var á nýlendutímanum, þar sem Evrópulönd voru meira eða minna í einhverju formi stríðs við öll löndin sem þau gátu fundið. Iðnbyltingin spilar inn í þar en á furðulegan hátt sem er út af fyrir sig efni í grein.

Vandamálið er núna að heimurinn er að verða óvinalaus mjög hratt. Framfarir á sviði mannréttinda hafa gert stríð dýrkeyptari í augum almennings og fólk lítur æ meira til markaðslausna á þrætueplum sínum. Sífellt grimmari óvinir stíga fram og ganga gegn straumnum, og flest skrímslin eru, rétt eins og skrímsli Frankensteins, fyrst og fremst óvinur skapara sinna. Nýleg dæmi um það eru Osama bin Laden, Talibanarnir og Saddam Hussein, sem allir á einhverjum tímapunkti nutu stuðnings bandarískra yfirvalda með beinum eða óbeinum hætti. Talibanarnir komust til valda fyrir tilstilli aðgerða CIA, sem vopnuðu bin Laden og fleiri jihadista til að berjast gegn Rússum. Talibanarnir sjálfir voru nemendur (orðið “taliban” (طالبا) þýðir “nemendur”) í skólum í Pakistan sem voru kostaðir af Saudi Arabísku ríkisstjórninni. Hussein var á svipaðan hátt settur á stól ’73 fyrir tilstilli CIA.

Þannig voru óvinir skapaðir, og nú hafa spjótin beinst að al-Qaddafi. Þegar hann er farinn verður nýr óvinur til. Kæmi mér ekki á óvart ef það væri Súdan eða Suður Súdan eða eitthvað landana á Kákasus, miðað við skjöl sem ég hef séð, sem tengjast olíu- og jarðgasbirgðum, en það er allt of snemmt að segja. Íran er jafn líklegt og áður, og vesturveldin hlökkuðu aðeins yfir möguleikanum á innrás í Sýrland um daginn. Sjáum til.

Stríðin eru þrátt fyrir allt stöku sinnum sjálfsprottin. Þetta ár hefur einkennst af uppreisnum og byltingum. Túnis og Egyptaland hafa haft sínar byltingar, í Sýrlandi geisar borgarastyrjöld – fólkið móti ríkinu, og mótmælaöldur í Yemen, Jórdaníu, Saudi Arabíu, Bahrain, Lebanon, Óman, Marokkó, Vestur Sahara, Írak, Máritaníus og víða um Súdan (bæði norður og suður) verða sífellt öfgakenndari, meðan aðrir mótmæla í hér um bil öllum heimsálfum – frá Bólivíu til Malaysíu, frá Azerbaijan til Zimbabwe. Lýbía er svolítið öðruvísi, en komum að því síðar.

Arabíska vorið. Smellið til að sjá hvað litirnir tákna.

Uppreisnirnar í Túnis og Egyptalandi voru hreinar og beinar uppreisnir fólksins. Túnis gekk mun betur en í Egyptalandi, en þó eru blikur á lofti þar um að allt sé að hverfa til fyrri tíðar. Ríkisstjórnin þar hefur á ný hafið ritskoðun á netinu, sem hefur kallað á mikla gagnrýni, og félagi minn Slim Amamou, sem var skipaður í ráðherrastól eftir byltinguna, hefur sagt af sér í mótmælaskyni. Engu að síður eru Túnisar að undirbúa að endurskrifa stjórnarskrá sína með kosnu stjórnlagaþingi á borð við það sem var ætlað að gera á Íslandi. Fólkið sem ég þekki þar er núna að vinna í því að tryggja að sem flestir óháðir aðilar komist þar inn, en við sjáum hvað setur. Það er vægt til orða tekið að fullyrða að það sé mikið horft til Íslands í þessu, en meira um það síðar.

Egyptaland hefur farið aftur, verulega. Í Apríl voru nokkrir bloggarar, meðal annars Michael Nabil Sanad, dregnir fyrir herdómstól vegna neikvæðra ummæla sinna um herstjórnina. Herstjórnin hefur lofað ýmsu fögru varðandi lýðræðisvæðingu og enn virðist ekkert sem ég hef heyrt benda beint til þess að það verði svikið – herstjórninn tilkynnti 13. júlí að opnað yrði fyrir skráningar í kosningarnar í September en að þær yrðu haldnar í Nóvember. En fólk er samt á nálum, enda hefur herinn lítið gert til að bæta andrúmsloftið, og það er ekki langt síðan fólk fór á Tahrir torg á ný, með það fyrir augum, að sögn konu sem ég þekki þaðan, að “minna herinn á hver ræður”. Það er ágætis umræða um ástandið í Egyptlandi í New York Review of Books.

Tahrir - Frelsunartorgið

Orðið “tahrir” (تحرير) þýðir “breyting”, en er oftast þýtt sem “frelsun”. Frelsunartorgið í Kairó hefur verið miðpunktur margra atburða í ár, en önnur borg sem hefur torg með því nafni er Baghdad. Síðan að Ramadanmánuður gekk í garð hefur hitastigið þar verið í kringum 50°C. Ég get ekki ímyndað mér að fólk sé annað en skapstutt þar þessa stundina, það er alltaf kvalafullt þegar fólk fastar í svona hita, fólk má hvorki borða né drekka meðan sólin er á lofti.

Þegar ég var í Jalalabad á Ramadan 2009 lýsti ég fyrir nokkrum strákum hvernig jörðin hallaði lítillega eftir því sem árið leið og hvernig sólin ætti það til að setjast ekki almennilega á Íslandi á sumrin. Ég spurði hvernig fólk myndi fara að á Ramadan þá. Þeir áttuðu sig á vandamálinu, yptu öxlum og sögðu: “Guð mun hjálpa þeim.” (raunar er rétta svarið að fólk fer eftir sólarupprás og sólsetur í Mekka, og enginn virðist átta sig á fáranleikanum í því að skapari heimsins skuli gera hann þannig að fólk gæti ekki farið að fyrirmælum hans allsstaðar).

Ég er ekkert allt of viss um að neinn, hvorki Allah né nokkur annar, muni koma fólkinu í Írak til bjargar. Bandaríkjamenn hafa tortímt þessu landi, skilið borgirnar eftir í rústi, infrastrúktúrinn í lamasessi, gert arðvæna afnotasamninga á olíunni til bandarískra olíufyrirtækja, komið upp nýrri leppstjórn sem er of vanhæf til að vera nokkur ógn, og nú draga þeir hermennina sína heim og skilja landið eftir í molum. Til að strá salti í sárið skildu þeir eftir sannkristna leigumorðingja frá fyrirtækinu Xe (áður Blackwater) til að sinna ýmsum “öryggisgæsluverkefnum” og þessháttar. Fólkið í Írak er að sjálfsögðu ekkert sátt við þetta. Raed Jarrar lýsti heimsókn sinni til sinnar fæðingarborgar nýlega:

I can’t recognize this city anymore. What a sad sad reality. I can’t recognize streets because of the concrete walls, and I don’t know anymore here anymore. All my friends, family, colleagues, neighbors, and coworkers have fled the country.

The ten words I could think of to describe Baghdad are: Garbage, checkpoints, barb-wires, concrete walls, armored vehicles,  flak jackets, bodyguards, personal security detail (PSD), corruption, and death.

Fólk misnotar orðið “öryggi”, og sérstaklega hugtakið “þjóðaröryggi” mjög gjarnan. Þegar fólk segir “þjóðaröryggi” á það ýmist við öryggi fólksins sem býr innan ríkis, eða öryggi ríkisins sjálfs. Í fullkomnu samfélagi væri þetta væntanlega eitt og hið sama, en eftir því sem samfélagið versnar víkkar bilið milli “þjóðaröryggis” og “þjóðaröryggis”. Í mörgum áðurnefndra landa er bilið orðið nær óbrúanlegt.

Það land sem hefur verið mest inná mínum radar undanfarnar vikur er Sýrland, þar sem geðsjúki forsetinn, Bashar al-Assad, sem er í raun strengjabrúða ríkisstjórnar sinnar, hefur fyrirskipað að öryggissveitir fari inn á svæði þar sem uppreisnarástand ríkir til að tryggja “þjóðaröryggi”. Skriðdrekar fóru inn í borgina Hama á miðvikudaginn og drápu hundraðir manna, en í marga daga þar á undan höfðu hermenn farið um og slátrað fólki.

Hakkarasamfélagið tók raunar eftir því að eitthvað væri í aðsigi föstudeginum fyrir rúmri viku á undan, þegar fréttir bárust af því að Sýrlenska ríkisstjórnin hafði breytt skipulaginu á eldveggnum sínum á aðfaranótt föstudagsins. Sá dagur hjá mörgum, þar á meðal mér, fór í að reyna að afla upplýsinga um með hvaða hætti eldveggnum hafði verið breytt, og orðrómurinn gaf til kynna að öll samskipti við Hama lægju niðri, og ennfremur væri rafmagns- og vatnslaust í Bab Al-Sibaa. Þegar leið á laugardaginn var búið að finna leiðir í kringum mikið af breytingunum þannig að samskipti eru komin á við aðra hluta landsins. Reyndar fór svo sunnudagsmorguninn þar á eftir í að reyna að koma Marokkóskum fréttavef sem flutti frásagnir af mótmælunum þar í landi í var eftir stórfellda netárás sem átti uppruna sinn í Saudi Arabíu, sennilega hjá ríkisstjórninni þar en það er óstaðfest.

Öryggisráð sameinuðu þjóðanna kom sér ekki saman um að gera nokkurn skapaðan hlut í Sýrlandi. Rússar lögðu til fordæmingu aðgerðanna 31. júlí, en þegar fundað var 2. ágúst neituðu Rússar og Kínverjar þrátt fyrir stuðning Breta, Frakka og Bandaríkjamanna við hugmyndina, á þeim grundvelli að þeir óttuðust að fordæming yrði notuð sem forsenda hernaðarívilnunar. Að vissu leyti er ég sammála þessu mati þeirra, eftir að hafa séð hvernig NATO hefur farið algjörlega fram úr sér í Lýbíu, en engu að síður er ljóst í mínum huga að skriðdrekarnir og fjöldamorðin verða ekki stoppuð með stórum orðum. Tala látinna er rúmlega 300, en þó fær þetta ekki nema yfirlitsumfjöllun í fjölmiðlum.

Líbýska ástandið er allt annars eðlis. Þar virðast áhrifin hafa komið utan frá, ekki innan frá. Lítilleg mótmæli, mestmegnis frá ættbálkum frá Cyrenacíu í austurhluta landsins, kölluðu á frekar hart andsvar Líbýska ríkisins, undir stjórn Baghdadi Mahmudi, aðalritara Lýbíska Þjóðarráðsins. Það er rétt að benda á að Muammar al-Qaddafi hefur ekki haft nein formleg völd í landinu í langan tíma, en hefur heiðurstitil sem hann hefur sjálfur sagt að sé í líkingu við heiðurstitil Bretadrottningar (sem hefur þó formleg völd). Óformlega er al-Qaddafi með mikil völd í gegnum flókið spillinganet sem er erfitt fyrir nokkurn mann að átta sig á sem er ekki sérfróður um Lýbíska ættbálkapólitík. Vinur minn sem hefur verið geymdur í Lýbísku fangelsi um hríð sagði mér að vandamálið við Lýbíu væri fyrst og fremst falið í því ættbálkapólitíkinni sem hefur ýtt ótrúlegri tilraun í beinu lýðræði yfir í það að vera hálfbakað einræðisríki, en það skemmi líka út frá sér hvernig al-Qaddafi hefur kosið að bregðast við ytri ógnum. Þetta er land sem er með hærri lífsgæði en megnið af Balkanskaganum, en, samkvæmt vini mínum gæti landið verið með hærri lífsgæði en Noregur ef ekki væri fyrir spillinguna – nógu ríkt er það nú. Borgarastyrjöldin sem geisar þar núna er því ósennilega tilkomin fyrst og fremst vegna ósætti almennings, heldur frekar vegna ytri áhrifa. Sameinuðu Þjóðirnar, sem eru steingeldar í afstöðu sinni gagnvart Sýrlandi, náðu að komast merkilega hratt að sameiginlegri niðurstöðu um Lýbíu, sem Rússar sjá þó eftir.

Rússneskar fréttir herma að Rússnesk njósnagervitungl hafi ekki séð herþotur á sveimi yfir Lýbíu fyrr en að NATO gerði árás. Sögusagnirnar um að al-Qaddafi væri að varpa sprengjum á þegna sína var því bull, bæði vegna þess að al-Qaddafi (í það minnsta Muammar hinn eldri) hafði engin völd yfir hernum, og vegna þess að þoturnar fóru sennilega ekki af stað fyrr en að NATO fór að skipta sér að.

Þegar ráðist var inn í Kósóvó fyrir mörgum árum var sama uppi á teningnum. Árásarlið NATO sem átti að “tryggja frið” á svæðinu hefur, samkvæmt bæði mínum eigin rannsóknum á tímalínu fjöldamorða og sprengjuárása, og rannsóknum annarra, ýtt undir frekari fjöldamorð. Þó svo að morðahrynan í Kósóvó byrjaði áður en NATO ívilnaðist, þá eftir að fyrsta sprengjan féll úr Bandarískri þotu fóru þær að vera aðaldrifkrafturinn á bak við óhuggulega sláturtíð í sveitinni. En þetta er útúrdúr.

Vitur maður myndi nú spyrja hvers vegna í ósköpunum þessi mótmæli hafa farið af stað og hvernig stendur á því að Arabíska samfélagið hefur staðið upp á þennan svakalega hátt.

Svarið er atvinnuleysi. Í flestum áðurnefndra landa hefur atvinnuleysi verið milli 10-15% í töluverðan tíma. Athygli vekur að löndin hrundu meira eða minna í réttri röð eftir menntunarstigi. Í Túnis er meira eða minna sama menntunarstig og í Finnlandi, bara töluvert minna pólitískt frelsi. Í Egyptalandi eru margir snjöllustu fræðimenn okkar tíma, og sú fullyrðing hefur verið sönn í nokkrar árþúsundir. En á stöðum þar sem þú hefur bráðsnjallt fólk sem þarf að keppa við fátækt og tapa, þar verður fólk reitt. Því minna frelsi sem það sama fólk hefur til að brjótast út úr sinni prísund með pólitískum aðgerðum, því líklegara er að fólk ærist unsum. Chomsky benti á að besta leiðin til að stjórna fólki væri að þrengja pólitíska orðræðu en hámarka ágreining innan þess þrönga sviðs. Þetta virkaði, lengi vel, í miðausturlöndum, en þegar aðþrengda orðræðan dugði ekki lengur til að útskýra hvað gengi á fór allt í háaloft. Hamagangurinn sem hefur átt sér stað á þessu ári er lítið annað en ummyndað hatur á hagrænu ástandi sem er ekki viðunandi lengur.

En það er ekki bara í miðausturlöndum.

Í mótmælunum á Spáni fyrr á þessu ári veifuðu menn fána hinna ýmsu landa – Túnis, Egyptaland, Palestínu og… Íslands. Í Barcelona var aðaltorgið, Plaça de Catalunya, skipt í þrjú tjaldsvæði: Plaça Islandia, Plaça Tahrir og Plaça Palestina. Í Madrid gengu hundruðir þúsunda á Puerta del Sol. Sama gerðist í meira eða minna öllum stærri borgum. Ég átti leið í gegnum Malaga fyrr í sumar til að tala á e-STAS ráðstefnunni, um samspil tækni og pólitíkur. Jafn lítil og þessi ráðstefna var var hún þrælmögnuð fyrir þær sakir að þau náðu að smala saman mikið af ótrúlegasta fólki sem ég þekki til að eiga alvarlegt samtal um ástand heimsins.

Helgina áður var fundur í Malaga. Á fundinum, sem var haldinn í [la Casa Invisible], voru fulltrúar frá öllum “byltingabúðunum”. Ég var kynntur fyrir fólki frá “byltingunni í Sevillu” og “byltingunni í Madrid” og “byltingunni í Valenciu”. Ég sá vandamál á ferðinni. Hér var fólk sem trúði því mjög staðfast að það stæði í byltingu. Þrír mánuðir voru liðnir frá því að mótmælin byrjuðu, og ekkert hafði gerst. Tjaldbúðirnar á öllum torgunum höfðu leystst upp og fólk kvaðst vera farið í sumarfrí; að mótmælin myndu hefjast aftur að hausti. (Raunar voru lítileg mótmæli fyrir tveimur vikum í Madrid, en það hafði ekki verið á dagskrá…)

Kvöldið eftir hélt ég fyrirlestur í Málaga, og svo næsta kvöld í Madrid sambærilegan fyrirlestur. Á fyrirlestrunum tók ég fyrir þrjú umræðuefni: Hvað gerði Ísland rétt, hvað gerði Ísland rangt, og hvað Spánn getur gert betur. Það sem Ísland gerði rétt snérist fyrst og fremst um hina pólitísku vakningu sem átti sér stað á Íslandi í kjölfar hrunsins, það að bankarnir voru þjóðnýttir en skuldirnar gerðar upp að miklu leyti og látnar falla að öðru, það að hinir ábyrgu væru smám saman, löturhægt, að dragast fyrir dóm, þar á meðal Geir Haarde, þrátt fyrir að þetta ferli væri allt annað en fallegt sáttarferli að hætti Argentínumanna. Það sem Íslendingar gerðu rétt var að stofna til stjórnlagaþings (þrátt fyrir að það lækkaði niður í ráð eftir alltsaman), og að skrifa nýja stjórnarskrá. Þetta er kannski ekki besta mögulega stjórnarskráin, en þetta er besta stjórnarskrá sem hefur verið skrifuð, svo einfalt er það.

Það sem Ísland gerði rangt var að draga ekki fleiri fyrir dóm, að vera ekki harðari við sjálfa sig og aðra, að samþykkja umröðun á sætaskipan á Alþingi sem byltingu, og að láta óheflaða einstaklingshyggju og eiginhagsmunavernd ganga fyrir samfélagslegum umbótum. Hver hópur sem fékk það sem hann vildi fór frá borðinu, og eftir stóðu færri og færri þangað til hægt var að hundsa þá sem eftir stóðu.

Um Spán gekk Hörður Torfason nýlega og úthrópaði sjálfan sig sem hinn mikla frelsara Íslensku þjóðarinnar. Hann sagði, að sögn þeirra sem ég hitti, hetjusögur af sjálfum sér; hvernig hann skipulagði byltinguna og hvernig hann boðaði til útifunda í hverri viku, og hvernig allir mættu til að hlusta á hann og hans útvöldu. Hann sagði fólki frá því að þegar að kröfum hans hafði verið mætt, þá hafi hann sagt nóg komið og hætt, og þá hafi allir fylgt eftir. Spánverjarnir trúðu þessu engan vegin. Þeir eru ekki bjánar. Fólk sem hefur alist upp í sama landi og Cervantes, Alberti og Dali kann að meta flækjurnar sem fylgja raunveruleikanum, þrátt fyrir síestur. Þegar ég sagði þeim að fólk hafi mótmælt bæði fyrir og eftir Hörð, og þrátt fyrir Hörð, og að Ísland stæði ekki sem sameinuð heild heldur sem sundraður hópur einstaklinga sem hefði ekki notið góðs af almennilegu harðræði svo öldum skipti, þá skildu þau að það sem þyrfti að gera væri ögn meira en að standa og öskra og vona og biðja og ná engu fram.

Það síðasta sem ég sagði þeim er það sem ég hef sagt öllum sem hafa viljað hlusta, og er það sem leiðir okkur aftur að fjárhagsvandanum sem þessi umræða byrjaði í.

Mannlegt samfélag hefur tvennan tilgang. Að tryggja að fólk lifi af, og að gera fólki kleift að njóta lífsins. Allt umfram afkomu er munaður, allt minna en afkoma er ávísun á dauða. Aðgreining afkomu og munaðar er flókinn og samhengisháður og gerir lítið gagn í hversdagslegri umræðu, en er ágætt að halda til haga.

Afkoma byggist á innviðum. Infrastrúktúr, sem kallaður er, er afstætt hugtak, en nær í samfélagslegu samhengi nokkurnvegin yfir þær tegundir tækni sem gera okkur kleift að lifa af. Húsaskjól og fatnaður, matur, vatn, heilbrigði og öryggi. Þetta er allt tengt öðrum innviðum svo sem rafmagni, hitaveitu, búskap, þekkingariðnaði og vopnaframleiðslu. Þessum innviðum stjórna ríkisstjórnir, ýmist beint eða í gegnum lagaramma og reglugerðir. Ríkið, sem fyrirbæri, er hugsað til að vernda almenning, en vegna þess hvernig það sinnir því hlutverki lítur það á það sem veigameira hlutverk að vernda eigin tilvist. Þetta samræmist hugmyndinni um aðskilnað milli “þjóðaröryggis” og “þjóðaröryggis”.

Í flestum löndum vernda ríkin sinn yfirráðarétt yfir innviðum með lögum. Í sumum löndum, svo sem Spáni, eru lög sem gefa ríkinu rétt til að vernda innviðina sína með vopnvaldi ef þurfa þykir, í þágu “þjóðaröryggis” – þið vitið hvora tegundina. Almennt gildir að byltingar takast ekki nema að byltingarmenn ná að koma völdum yfir infrastrúktúrinn, halda honum, og reka hann betur en þeir sem á undan komu. Mistakist eitthvert þessara atriða er byltingin að engu orðin, ýmist þegar í stað eða yfir næsta árið.

Ég kom inn á það í fyrri skrifum að Breska ríkisstjórnin væri, með “stóra samfélaginu”, að biðjast undan rekstri á ýmsum grunnkerfum. Þessi grunnkerfi eru innviði – infrastrúktur. Þetta er tæknin sem heldur okkur á lífi. Markaðurinn hefur aldrei getað rekið innviði, vegna þess að fólk lítur á það sem svo að kerfi sem halda þeim á lífi eru ekki kerfi sem eiga að ganga kaupum og sölum á þannig hátt að það geti ógnað lífi þeirra. Lítið á Orkuveitu Reykjavíkur, lítið á Hitaveitu Suðurnesja, lítið á Landsvirkjun. Þessi fyrirbæri voru stofnuð til að sjá okkur, almenningi, fyrir rafmagni, vatni og hita. Svo voru þau einkavinavædd eða sett í gróðalíkan, og skyndilega hætti það að skipta máli að koma rafmagni, vatni og hita til almennings svo fremi sem það kæmist allt vel til hinna ýmsu stóru aðila sem vildu fá, og að það væri nóg af dýrum en áhugaverðum verkefnum í gangi, svo sem ræktun risarækja. Eitthvað hefur þetta allt kostað okkur, og heiminn.

Fátæktin sem ég talaði um í fyrri grein er ekki efnisleg fátækt heldur bara hagfræðileg fátækt. Þegar þessi orð eru skrifuð voru fréttir að berast í hús að Standard & Poors hafi verið að enda við að lækka lánshæfnismat á langtímaskuldbindingum fyrir Bandaríska ríkið í AA+ úr AAA. Þetta hefur aldrei gerst áður. Ekki nokkurntíman. Fólk verður að skilja hvað þetta þýðir í pólitísku samhengi. Á síðustu þremur dögum hefur hagkerfi heimsins skroppið saman um c.a. 11% í heild. Svo ég vitni í félaga minn sem vinnur í bankageiranum: “Í dag drekka þeir, á morgun selja þeir.”

Ríkið eins og við höfum þekkt það, sem hugmynd og sem fyrirbæri, er úr sér gengið. En hvað á að koma þess í stað?

Undanfarna dag hef ég verið í þorpi fyrir miðju Írlandi. Hér búa um þúsund manns; þetta er þriðjungi smærra þorp en Vestmannaeyjabær, þar sem ég bjó lengi vel. En þetta er furðulegara þorp en Vestmannaeyjar (ég segi það satt!). Hér elda þorpsbúar saman á föstudögum. Hér heilsast menn á götum úti. Hér eru þrír barir, tvær kjörbúðir, slátrari, pósthús, apótek, en líka lífræn matvörubúð, kebabbúlla, bókabúð, heimspekifélag (þar sem ég gisti), rithöfundaklúbbur og samyrkjubú. Hér í bænum er vöruskemma þaðan sem fólk getur tekið sér mat eftir þörfum, séu þeir félagar í sovétinu. Þeir tala aldrei um það sem sovét.

Þorpið sjálft hefur ströng skilyrði fyrir nýbyggingar um orkunýtni. Húsin þurfa að vera nægilega vel einangruð til að þurfa ekki húshitun að jafnaði, og eru tengd inn á sjálfvirkt nemanet til að allir þorpsbúar geti fylgst með orkunotkuninni sinni og heildarástandi þorpsins. Húshitun er gerð með fjarhitaveitu sem er rekin af stærsta sólarorkubúi Írlands, en hefur öfluga sjálfvirka viðarkolaorkustöð sem varaafl. Þeir sem byggja í þorpinu kaupa þrefallt það land sem þau fá úthlutað, en þriðjungur fer undir bújörð sem íbúar geta ýmist ræktað sjálfir eða leigt út, og síðasti þriðjungurinn er undir almenningsskóglendi sem stendur til að rækta upp. Allar ákvarðanir í þorpinu eru teknar með einróma samstöðu. Þeir tala aldrei um það sem beint lýðræði.

Það sem þessu þorpi vantar er tækni á borð við það sem vinur minn, Marcin Jakubowski, hefur verið að þróa síðustu fimm árin, en til að það geti orðið að veruleika þarf að klára að reisa fjölverksmiðjuna í austurhluta þorpsins, sem mun hýsa ýmiskonar smáfyrirtæki í framleiðsluiðnaði, sem og sameiginlegan tækjabúnað til afnota fyrir samfélagið, rétt eins og í Fab Lab smiðju. Markmiðið er að gera fólki kleift, tæknilega, að komast af án samfélagsins utan þorpsins, að eins miklu leyti og hægt er; umræður eru uppi um að stofna sjálfstæðan mjúkan gjaldmiðil, þótt Evran verði áfram harði gjaldmiðillin á svæðinu. Þeir tala aldrei um það sem kapitalisma.

Hrun stóra samfélagsins kallar á alveg nýja samfélagsgerð. Uppskriftin sem fólkið hér í Cloughjordan virðist hafa rambað niður á er furðugóð á marga vegu en samt mjög ópússuð og margt í samfélagsskipaninu hérna þarfnast gjörgæslu (sem er hluti af ástæðunni fyrir því ég var dreginn hingað), en það þarf líka að líta til stærri myndarinnar. Þjóðfundarlíkanið Íslenska gæti meira en vel verið leiðin að meiri árangri í langtímaskipulagningu, enda er það í ætt við kerfið sem hefur verið notað til skipulagningar á Lýbíu í áratugi (Jamāhīriyya), meðan skammtímaskipulagning á stórum skala þarf eitthvað meira í líkingu við kerfið sem ég lagði til 2008, nokkrum mánuðum fyrir hrun, og hefur síðan verið útfært á ýmsa vegu af ýmsum aðilum, meðal annars Gunnari Grímssyni og Róberti Viðari Bjarnasyni í gegnum Íbúar SES, og í af Pudo með Liquid Democracy. Í grunninn: hugbúnaður sem hjálpar fólki sem er langt frá hvor öðru, bæði landfræðilega og hugmyndafræðilega, að komast að niðurstöðu um málefni sem varða þá alla.

En hugbúnaður skapar ekki samfélög, ekkert frekar en sólarorkurafstöðvar eða fundarhöld. Samfélög eru sköpuð með manngæsku, og kjarninn í því sem ég hef verið að reifa hér á undan kemur niður á það hvernig völd hafa náð að trompa manngæsku og hvernig fólk er að reyna að snúa dæminu við, hver í sínu horni.

Ég hef ef til vill beinblínt of mikið á miðausturlönd og norður Afríku, enda er hugur minn þar (og líkami minn verður sennilega þar í lok ársins), en allt sem gildir þar gildir allsstaðar þessa daganna. Ég hef setið hér í hálfgerðri sjálfsvorkun síðustu daga, sem er drifin áfram af algjörri óvissu með framtíðina. Fréttirnar sem ég fæ eru af brennandi bílum og strætó í Tottenham og sjálfskipuðum Sharia-löggum í öðrum úthverfum London, af hatursfullum morðum í Afganistan og áframhaldandi hörmungum í Sómalíu. Ég veit um fleira sem fréttist ekki jafn mikið, og ég sé samhengi sem ég óttast.

Á ensku nota menn orðið “apocalypse” til að merkja “heimsendi”, en orðið er raunar komið úr grísku og þýðir “án grímu”, oftast túlkað sem “gríman fellur”. Hugmyndin er sú að sá tími komi að hulunni verði svipt af því sem heimurinn er, að allt sem var falið muni verða ljóst. Það er vitað mál að sá tími verður ekki þægilegur á nokkurn hátt, og hann mun kosta mannlegt samfélag allt sem það hefur, en þó er ég haldinn staðfastri – mögulega barnslegri – trú að þetta sé allt það besta sem getur gerst, að til lengri tíma litið verði þetta til góðs, að við munum líta til baka eftir nokkra áratugi og segja, “vá, manstu hvað það var ótrúlegt þegar heimurinn endaði?”

Endalok heimsins eins og við þekkjum hann eru ekki endalok heimsins. Við munum vakna næsta dag, og þá þurfum við að vera búin að ákveða hvernig við viljum að samfélagið okkar virki.