· About 6 minutes read

Upplýsingabeiðni vegna IMF ráðstefnunnar

Ég sendi öðru hverju upplýsingabeiðnir á ríkisstjórnina eða einhverar stofnanir hennar, enda er ég mjög forvitinn um það hvernig samfélaginu sem ég bý í er stjórnað. Fólk virðist oft ekki gera sér grein fyrir því hverslags valdjöfnunartól upplýsingalög eru, en þau eru að mínu mati það merkasta tól sem hefur verið þróað til að tryggja gagnsæi og ábyrgð í lýðræðissamfélagi. Mögulega er þetta mikilvægara tól fyrir lýðræði en kosningar, ég skal ekki segja. En þetta er verulega lítið notað tól, og ríkið virðist ekki kunna að sinna upplýsingabeiðnum hratt og örugglega, sem er skammarlegt.

Hér að neðan eru afrit af samskiptum mínum við Efnahags- og Viðskiptaráðuneytið varðandi útgjöld og fjármögnun ráðstefnunnar “Iceland’s Recovery-Lessons and Challenges” sem var haldinn í Hörpu nýlega. Með þessu er ég engan vegin að gefa í skyn að slíka ráðstefnu eigi ekki að halda – ég er þeirrar skoðunar að ráðstefnur séu líka frekar mikilvægt tól, enda veitist þar samræðugrundvöllur sem skiptir miklu máli fyrir flæði hugmynda og þekkingar. Hinsvegar fannst mér þessi ráðstefna vera heldur tilkomumikil, og í ljósi þess hvernig IMF hefur hagað sér í öðrum löndum í gegnum tíðina langaði mig til að vita hver væri að borga öll þessi ósköp.

On 27/10/2011 10:58, Smári McCarthy wrote:
Góðan dag,

Ég óska eftir upplýsingum um útlagðan kostnað Íslenska ríkisins og
helstu útgjaldaliði við atburðinn “Iceland´s Recovery—Lessons and
Challenges”.

Til vara, séu lokaupplýsingar um útgjöld ekki tilbúin, óska ég eftir
fjárhagsáætlun vegna atburðarins.

Til að forðast undanþágu frá upplýsingaveitingu á grundvelli 5. gr.
laga 501996 óska ég sérstaklega ekki eftir því að innlendir
þjónustuaðilar séu nafngreindir í svari frekar en unnt er.

Kveðja,
Smári McCarthy

Eins og sést er þetta sent 27. október. Samkvæmt lögum hafa stjórnvöld 7 daga til að svara, jafnvel þótt í svarinu séu bara upplýsingar um hvenær nákvæms svars er að vænta. Slíkt svar barst ekki, þannig að ég sendi 10. nóvember ítrekun:

On 10/11/2011 20:52, Smári McCarthy wrote:
Góða kvöldið,

2710 sendi ég neðangreinda upplýsingabeiðni. Hef ég ekki enn fengið
svar við henni, þrátt fyrir að 14 dagar séu liðnir síðan atburðurinn varð.

Skv. 11. gr. laga 501996, þá skal “Stjórnvald […] taka ákvörðun um
hvort það verður við beiðni um aðgang að gögnum svo fljótt sem verða má.
Hafi beiðni ekki verið afgreidd innan sjö daga frá móttöku hennar skal
skýra aðila frá ástæðum tafanna og hvenær ákvörðunar sé að vænta.”

Óska ég hér með eftir skýringum og svörum.

  • Smári
  1. nóvember brást mér skap og ég ákvað að benda þeim á að þau væru í trassi við lög:

On 17/11/2011 13:25, Smári McCarthy wrote:
Góðan dag.

Enn hef ég ekki fengið svar við þessari upplýsingabeiðni þrátt fyrri
að 21 dagur sé liðinn frá því að beiðnin var gerð.

Nú virðist mér sem annað geti ekki verið en að ráðuneytið sé orðið
vísvitandi brotlegt við lög með því að hundsa beiðninni. Óska ég svara
strax, annars verði málið sent á Umboðsmann Alþingis.

  • Smári McCarthy

Um leið og kæruhótunin var send brást fólk við – var það vegna þess að fólk áttaði sig á lagalegri skyldu sinni í ráðuneytinu, eða vegna þess að hræðsluelement var komið í spilið?

On 17/11/2011 15:41, olof.stefansdottir@evr.is wrote:
Tilvísun í mál: EVR11110056

Góðan daginn,

Vísað er til tölupósts dags. 27. október og ítrekun 10. og 17. nóvember
þar sem óskað er upplýsinga um helstu útgjaldaliði vegna ráðstefnunnar
“Iceland´s Recovery—Lessons and Challenges”. Kostnaður ráðuneytisins
liggur ekki endanlega fyrir, en upplýsingar um kostnað eru að berast.
Til upplýsingar skal greint að kostnaður við ráðstefnuna er borinn af
ráðuneytinu, Seðlabanka Íslands og Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

Upplýsingar um kostnað verða sendar um leið og þær liggja fyrir en vænta
má svars fyrir 25. nóvember nk.

Beðist er velvirðingar á töfum á svari.

kveðja,
__________
Ólöf Stefánsdóttir

Hér var greinilega efni fyrsta póstsins frá mér hundsað, þannig að ég svaraði um hæl:

On 17/11/2011 15:48, Smári McCarthy wrote:
Góðan dag,

Takk fyrir þetta svar og hlakka ég til hins 25. nóvember.

Þó tók ég sérstaklega fram í upplýsingabeiðninni á sínum tíma að “til
vara, séu lokaupplýsingar um útgjöld ekki tilbúin, [óski] ég eftir
fjárhagsáætlun vegna atburðarins.”

Væntanlega liggur hún fyrir?

Kveðja,
Smári

Þá var þögn, þangað til í dag:

On 23/11/2011 10:15, olof.stefansdottir@evr.is wrote:
Tilvísun í mál: EVR11110056

Góðan daginn,
Meðfylgjandi eru umbeðnar upplýsingar um kostanð við ráðstefnuna “Iceland´s Recovery—Lessons and Challenges”.

Heildarkostnaður vegna ráðstefnunnar 8.575.858
Kostnaður greiddur af:
Ráðstöfunarfé ríkistjórnarinnar 1.800.000
IMF 4.820.564
Seðlabanki Íslands 1.899.294
Efnahags- og viðskiptaráðuneytið 56.000
Samtals 8.575.858

kveðja,

__________
Ólöf Stefánsdóttir

Þá er komið einhverskonar svar. Þó kemur ekki fram þarna hverjir helstu útgjaldaliðir voru, eins og beðið var um, og svarið kemur rétt tæpum mánuði eftir að beiðnin var gerð.

Það á ekki að taka heilan mánuð að fá upplýsingar frá ríkinu. Það á ekki einusinni að taka viku. Beiðnin mín var skýr og skiljanleg og bað ég bara um upplýsingar sem ættu að liggja fyrir.

En þar hafiði það þó. Ráðstefnan kostaði 8.575.858 kr, og var að mestu leyti greidd af Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, þótt 1.856.000 hafi komið úr skattféi okkar. Nú ætla ég að senda annan póst og fara fram á það að skýrt verði frá því hverjir útgjaldaliðirnir voru.

(Update: Ég fékk svar til baka um að það væri engin sundurliðun til staðar í bókhaldi ráðuneytisins. Hverjum finnst það alvarlegt mál?)

Fyrst þú ert að lesa þetta þá langar mig að segja: Ég sit á sæmilega mörgum og misjöfnum svörum við upplýsingabeiðni sem ég gerði fyrir nokkrum mánuðum og langar til að birta, en hef ekki haft tækifæri til að vinna úr því. Ef einhver hefur áhuga á því að hjálpa við það eða taka það að sér, látið mig vita með tölvupósti. Þar eru áhugaverðar upplýsingar sem væri gott að koma til almennings.