· About 8 minutes read

Misflokkun upplýsinga og aðgangur almennings

Eftir samtal sem ég átti við Láru Hönnu Einarsdóttur og Jón Þórisson fyrir nokkru um það að sem ræðismaður í St. Pétursborg á sínum tíma hafði Björgólfur Thor Björgólfsson diplómatískt vegabréf, sem er eftir því sem best er vitað enn í gildi, ákvað ég að það væri forvitnilegt að gera upplýsingabeiðni til Utanríkisráðuneytisins til að komast að því hverjir aðrir eru með diplómatískt vegabréf.

Svarið sem ég fékk frá Utanríkisráðuneytinu má sjá hér, en í því er vísað til úrskurðar úrskurðarnefndar um upplýsingamál frá 16. nóvember 2005, þar sem segir:

Þær upplýsingar sem kærandi hefur krafist að fá afhentar leiða af kerfisbundinni skráningu á handhöfum vegabréfa. Umbeðin skrá og vinnsla þeirra upplýsinga sem henni liggur til grundvallar er ekki tiltekið mál í framangreindum skilningi. Af því leiðir að upplýsingalögin gilda ekki um aðgang að henni. Við setningu upplýsingalaga nr. 50/1996 var kveðið svo á í 1. mgr. 2. gr. laganna að þau giltu ekki um aðgang að upplýsingum skv. lögum um skráningu og meðferð persónuupplýsinga.

Þetta er frekar alvarlegt mál, ef svo mætti að orði komast, því samkvæmt þessu eru skrár í forum stjórnvalda ekki skrár nema þær tilheyri máli. Þarna er svo breið takmörkun á aðgangi að gögnum á ferðinni að það fær mann til að velta fyrir sér hvernig skilgreiningin er á málaskrá, og hvernig hún samræmist skilgreiningunni á vinnugögnum, sbr sömu lög.

Nú þegar verið er að taka upplýsingalög fyrir enn og aftur á þinginu væri sniðugt að skoða þetta – ég vissi ekki af þessum úrskurði fyrr en núna og ég er satt að segja pínu feginn að Alþingi samþykkti ekki upplýsingalögin á síðasta þingi. Þó verð ég að segja að það er alveg með ólíkindum að þrátt fyrir að lögin voru orðin nokkuð pússuð og fín eftir frekar umfangsmikla meðferð í Allsherjarnefnd síðast er ég alveg steinhissa á þvíhverslags sorp Forsætisráðherra hefur ákveðið að leggja fram í þetta skiptið. Það er að einhverju leyti búið að blanda athugasemdum nefndarinnar inn í, sýnist mér, en öðrum virðist hafa verið hent. Það er eins og nánast allt það góða sem var gert í Allsherjarnefnd í haust hafi algjörlega farið fram hjá þeim, og niðurstaðan er afleit. Spurning hvort að Allsherjar- og Menntamálanefnd ákveði að taka þetta í gegn af sama krafti…

Það sem vantar í upplýsingalögin er fyrst og fremst þrennt að mínu mati:

  • Það að upplýsingalögin gildi um allar upplýsingar sem ríkið hefur, óháð því hvort að dót heiti mál eða skrá eða gagnagrunnur eða hvað annað. (Auðvitað á að taka tillit til persónuverndar, starfsemis eftirlitsstofnana, þjóðaröryggis og þessháttar – ég kem að því síðar)
  • Það að stjórnvöldum beri jákvæð skylda til að birta lista yfir öll gögn í sínum fórum opinberlega, þar með talið gögn sem falla undir undanþágum sem vinnugögn eða á grundvelli persónuverndar eða hvaðeina.
  • En í þeim tilfellum sem gögn eru óaðgengileg vegna slíkra undanþága ætti að koma fram hver veitti undanþáguna, í krafti hvaða embættis, hvaða undanþága var veitt og hvers vegna. Einnig ætti að koma fram hvenær leyndinni verður aflétt.
  • Að einhvernvegin sé það framfylgt að stjórnvöld svari upplýsingabeiðnum sem gerðar eru innan lögskipaðs tímaramma; ég sé enga leið aðra en að beita einhverskonar refsiákvæðum, sektum eða álíka sé ramminn brotinn, en ég veit ekki hvernig væri hægt að koma svoleiðis á án þess að það sé misnotað. Það er þó víst að “skamm, óþekkur bjúrókrati” er ekki nægilegt – upplýsingabeiðnin að ofan kom ekki nema þremur dögum á eftir áætlun (á mánudegi: það mætti bæta upplýsingalög með því að tala um virka daga frekar en daga, imo, til að vernda stjórnsýsluna fyrir svoleiðis bulli, en þau hefðu lögum samkvæmt átt að svara á föstudaginn síðasta), og svar við beiðninni sem ég gerði þar á undan kom um mánuði eftir að beiðnin var gerð.

En svo er hitt, að til að ná fram markmiðunum sem koma fram í 1. gr nýja frumvarpsins, m.a. að auka aðhald að stjórnsýslunni og styrkja traust almennings á stjórnvöldum, þá þurfa stjórnvöld að fara að líta á upplýsingagjöf allt öðrum augum.

Ég er hjartanlega ósammála bandaríska stjórnmálamanninum Jesse Ventura þegar hann segir “I have every right to know what my government is doing, you know why? I pay taxes.” Ástæðan hefur ekkert við skatta að gera, og “skattborgari” hugmyndafræðin er snargalin og hættuleg, ekki síst vegna þess að hún gefur í skyn að þeir sem borgi meiri skatt séu meiri borgarar en aðrir. Þetta snýst meira um það að almenningur hefur rétt á því hvað ríkisstjórnin er að gera vegna þess að þetta er lýðræðisríki. Til að lýðræði virki þarf bæði skýran valdastrúktúr sem almenningur tekur þátt í að ákveða bæði form á og setu í, og svo líka upplýstan almenning. Hafi maður bara skýran valdastrúktúr mun illa upplýst fólk taka ákvarðanir um virkni ríkisins meðan spilling grasserast innan ógagnsærra veggja þess, og hafi maður bara upplýstan almenning munu völdin samt safnast fyrir og leiða af sér spillingu.

Viðhorf stjórnvalda gagnvart upplýsingabeiðnum almennings er að þetta sé svolítið mikið óþolandi. Einhver helvítis skríll að þvælast fyrir og heimta upplýsingar um hvað stjórnsýslan sé að athafna sig? Þeir eiga bara að vinna og borga skatta, ekki skipta sér að þessu. Hverjum í andskotanum kemur það við hverjir hafa fengið sérstök vegabréf sem veita þeim diplómatísk fríðindi í nafni Íslenska ríkisins þegar þau eru að ferðalagi erlendis?

Þessu viðhorfi fylgir sú trú að það sé ágætt að tefja fyrir afgreiðslu svona beiðna, að það sé í lagi að upplýsingarnar séu skráðar bara einhvernvegin eftir því hvernig hentar hverju sinni, að enginn strúktúr skipti nokkru máli, og að það sé bara hið besta mál að sum gögn heyri ekki undir upplýsingalög og að veittar séu undanþágur hægri vinstri á grundvelli allskonar.

Dæmi: Ég bað fyrir nokkrum mánuðum flest ráðuneytin (ætlaði að senda á öll en mér urðu á mistök) um upplýsingar um a) allar nefndir eru starfandi á vegum ráðuneytisins, b) hverjir sætu í þeim nefndum, og c) hvernig þeir voru skipaðir.

Frá sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti fékk ég fyrsta svarið, sem náði yfir þær nefndir sem hafa verið skipaðar í ráðherratíð Jóns Bjarnasonar, ásamt raunar þeim upplýsingum að ráðuneytið heldur utan um nefndirnar sínar á vefsíðu sinni. Umhverfisráðuneytið svaraði með því sama, sem og iðnaðarráðuneytiðforsætisráðuneytið (að vísu eftir smá póstskipti við starfsmann þar) og efnahags- og viðskiptaráðuneytið, en frá fjármálaráðuneytinu fékk ég eftirfarandi svar:

Ráðuneytið hefur ekki tekið saman yfirlit um nefndir þess, líkt og óskað er eftir í neðangreindum tölvupósti frá 15. september. Með vísan til 3. gr. upplýsingalaga, nr. 50/1996, þar sem segir að stjórnvöldum sé „ekki skylt að útbúa ný skjöl eða önnur gögn …“ verður því ekki unnt að veita þessar upplýsingar.

Rétt er að benda á svar við fyrirspurn Birgis Ármannssonar alþingismanns frá því í nóvember 2010, en þar koma fram upplýsingar um nýjar nefndir, ráð, verkefnisstjórnir og hópa á vegum ríkisstjórnarinnar frá 1. febrúar 2009. Á heimasíðu ráðuneytisins er jafnframt að finna upplýsingar um lögbundar nefndir, ráð og stjórnir þess.

Nú er ég soddan nörd. Ég er gaur sem lifir og hrærist í upplýsingum… og ég á ótrúlega bágt með að skilja af hverju ekkert af þessum ráðuneytum er með þessi gögn á einhverju meðbrúkanlegu stöðluðu formi, og af hverju til eru ráðuneyti sem virðast ekki vita hvaða nefndir eru starfandi fyrir þau. Maður hefði nú haldið að það væri algjört lágmark að vita hvaða nefndir eru í gangi. Þau standa sig misvel, ráðuneytin, og sum eru bara alveg að standa sig prýðilega miðað við allt, en samt lyktar margt við það hvernig upplýsingarnar eru framsettar af því að stjórnsýslan sé starfandi á grundvelli 18. aldar hugmynda um hvernig eigi að skipuleggja ríki, en ekki 21. aldar hugmyndir um hvernig eigi að skipuleggja lýðræðisríki.

Betra viðhorf til upplýsinga væri þetta:

  • Ríkið er til fyrir tilstilli vilja almennings. Almenningur skipar stjórn þess, og stjórnin starfar í þágu almennings.
  • Allar upplýsingar sem ríkið hefur undir höndum varða því við almenning. Í einhverjum tilfellum getur verið mikilvægt að almenningur hafi ekki aðgang að gögnunum almennt, því þær upplýsingar geti leitt til vandræða fyrir ákveðna einstaklinga, veikt stöðu rannsókna á glæpum, eða gefið öðrum löndum færi á að skaða okkur, en almenningur á rétt á því að vita hvaða upplýsingar það eru.
  • Almennt ættu allar upplýsingar að vera birtar opinberlega af fyrra bragði á formi sem er ekki aðeins auðvelt að lesa (eins og PDF skjöl), heldur einnig auðvelt að vinna með á kerfisbundinn hátt (eins og CSV, JSON eða XML skjöl).
  • Með því að gefa almenningi allar upplýsingar sem til eru, alltaf, af fyrra bragði án þess að sérstakar beiðnir þurfi að koma, þá sér almenningur að stjórnsýslan er að gera það sem er rétt miðað við fyrirliggjandi upplýsingar og minnkar álagið á stjórnsýsluna við að fást við beiðnir frá þrjósku liði eins og mér…

Þar sem þessi gögn liggja í gagnagrunni en ekki málaskrá, og “utan gildissviðs upplýsingalaga falla áfram persónuupplýsingar sem færðar hafa verið kerfisbundið í rafræna skrá”, þá fellur þetta undir persónuverndarlög. Það er lagatæknilega skiljanlegt, en virkar á mig sem hugsunarvilla. Þessi gögn ættu að vera opinber, enda eru aðilar sem eru handhafar diplómatískra vegabréfa og þjónustuvegabréfa væntanlega með þau á grundvelli einhverrar þjónustu við ríkið, og ríkið, það erum við.