· About 7 minutes read

Fáráðsraunsæi

Vinstrisinnaðir hagfræðingar eru eins og kristnir vísindamenn með botnlangabólgu. Forsendur þeirra trúarbragða sem hagfræðin er eiga ekkert skylt við félagslegan raunveruleika. Allar tilraunir til að samþætta fræðigrein sem nær að fjöldaframleiða veruleikafirringu á stóriðnaðarmælikvarða við þá hugmynd að allir eigi rétt á tryggri afkomu og góðu lífi hafa lyktað af því sem C. Wright Mills kallaði “fáráðsraunhyggja”. Ekki að hægristefnan í hagfræði sé neitt skárri; þar nær veruleikafirringin virkilega að blómstra í skjóli þess sem Tryggvi Þór Herbertsson vill meina að sé misheppnuð greining en ekki misheppnuð spámennska. Einhvernveginn hefur fólki tekist að smætta allan mannlegan raunveruleika niður í einhverskonar kappleik milli einstaklinga og hópa, án þess að nokkur viðleitni sé gerð til að átta sig á því að án samfélags er einstaklingshugtakið merkingarlaust, og án einstaklinga verður ekkert samfélag byggt.

Ein afleiðing þess að við tökum þessari smættun sem sjálfsagðri er að við förum að rugla saman meðferð og útkomu. Þegar verkefni verður til í samfélaginu, hvort sem það er barn sem þarf að mennta, sjúklingur sem þarf að sinna, eða kreppa sem þarf að snúa við, þá er sjálfvirk hegðun að líta til þeirrar stofnunnar sem hefur það hlutverk að leysa verkefnið, og við mælum árangurinn eftir stöðluðum mælistikum. Fyrir vikið hefur okkur tekist, eins og Ivan Illich orðaði það, að rugla skólagöngu saman við menntun, læknisþjónustu saman við heilbrigði, lögreglueftirlit við öryggi, og lífsgæðakapphlaupinu hefur verið ruglað saman við gagnlega vinnu.

Í slíku umhverfi, þegar hagkerfi hrynur, þá taka stofnanirnar sig saman og reyna að leysa vandamálið sem er fyrir hendi á sama hátt og þau leysa öll vandamál. Stofnanaleg sjálfhverfa verður til þess að eina ásættanlega leiðin til að losna út úr fjármálakreppu verður aukning á viðhaldi þeirra kerfa sem til voru fyrir. “Ábyrgar” og “hóflegar” lausnir eru þær sem hægt er að framkalla innan þeirra stofnanna sem til voru fyrir, með tilfæringum, hagræðingum, niðurskurðum eða stefnubreytingum. Á móti eru allar tillögur að lausnum sem reyna að takast beint á við uppruna vandamálsins með því að gera strúktúrslegar og kerfislægar breytingar álitnar “öfgakenndar” og “óraunsæar”. Þannig virkar fáráðsraunsæið.

“Nell,” hélt liðsforinginn áfram, og gaf til kynna með raddblæ sínum að kennslustundin væri á enda. “Munurinn á fávísu og menntuðu fólki er að hinir síðarnefndu þekkja fleiri staðreyndir. Það hefur þó ekkert við það að gera hvort þau séu heimsk eða gáfuð. Munurinn á heimsku og gáfuðu fólki – og þetta er satt óháð því hvort það sé vel menntað eða ekki – er að gáfað fólk kann að meta fíngjörðir. Það verður ekki ruglað þegar aðstæður eru margræðar eða jafnvel mótsagnarkenndar, heldur er það frekar viðbúið þeim og hjá því vakna grunsemdir þegar eitthvað virðist of einfalt.”
[…]
“Hvora leiðina hyggstu fara, Nell?” spurði liðsforinginn, og hljómaði áhugasamur. “Hlýðni eða uppreisn?”
“Hvoruga,” svaraði Nell. “Báðar leiðirnar eru einfeldingslegar – þær eru bara fyrir fólk sem kann ekki að meta margræðni eða mótsagnir.” : – Neal Stephenson, The Diamond Age (Mín þýðing; þetta er eitt uppáhalds brot mitt úr mini uppáhalds bók. Ath að orðið “fíngjörðir” er það skásta sem ég gat fundið upp fyrir “subtlety” – kannski það sé hluti af vandamálinu að það er ekki til neitt orð fyrir “subtlety” í íslensku…)

Margir hafa gert tilraunir til að kasta af sér fáráðsraunsæinu. Því miður eru flestir þeirra þesslegir að þeir eiga ekki fín jakkaföt, tala í gífuryrðum, og eru sæmilega líklegir til að tilbiðja kristalla og halda að tungllendingarnar hafi verið falsaðar. Til þessa hóps teljast bálreiðir feministar, kaffihúsakommúnistar og allt hitt liðið sem enginn vel fóðraður úthverfabúi nennir að veita minnstu athygli, enda hlýtur fólk sem hefur tíma til að hafa svona skoðanir að vera iðjulaust og berja börnin sín, eða hvað? Þrátt fyrir þetta eru þessir aðilar almennt betur upplýstir um eðli heimsins en meðal hagfræðingur, en þeir eiga þeir ekki neina möguleika á að sannfæra aðra, þegar samkeppnin er vel sleiktur jakkalakki með flotta prófgráðu.

Því er lítið hlustað, þegar þeir segja að það væri viturlegt að aðskilja viðskipta- og fjárfestingabanka, að það væri sniðugt að gera allt eignarhald á fyrirtækjum gagnsætt, að það myndi gera peningakerfið stöðugara ef peningarnir væru ekki gefnir út sem lán sem bera vexti (sá sem getur útskýrt hvernig það leiðir ekki óhjákvæmilega af sér óheftan vöxt þar til kerfið springur fær Ponzi bréf í verðlaun).

Minna er hlustað, þegar þeir sömu segja að það væri á ódýran hátt hægt að auka fæðuöryggi Íslands og minnka innflutning á matvælum með því að nýta afgangshita frá jarðvarmaorkuverum í gróðurhús. Eða þegar þeir sömu segja að það mætti draga verulega úr rekstrarkostnaði ríkisins með notkun á frjálsum hugbúnaði, eða með því að auka á beint lýðræði. Eða að það megi fjórfalda uppskeru á ýmsum matjurtum með notkun á lífrænum áburði.

Svo liggja þeir bara undir árásum sem þora að fara fram með eitthvað sem gæti virkilega breytt samfélaginu til hins betra, til dæmis stytting vinnudagsins (2-4 klukkustundir á dag eru meira en nóg samkvæmt ýmsum rannsóknum; Gorz gerði góða grein fyrir þessari þróun og er eðlilegur upphafspunktur…) eða upptaka á grunnframfærslukerfi (sem myndi spara tugir milljóna í rekstri á atvinnuleysistryggingasjóði, LÍN, tryggingastofnun ríkisins og fleira, minnka skriffinskuna og stofnanaþvargið, ýta undir framþróun skapandi greina umfram þungaiðnað, og minnka tekjubilið milli ríkra og fátækra).

Einhver veruleikafirrti einstaklingurinn kallaði svona hugsun “krakkhagfræði”, þrátt fyrir að sá hinn sami telur sig vera talsmann þess að smækka ríkisvaldið og viðhalda því eingöngu í þeim tilgangi að viðhalda einokun á auðlindum og verðmætum með valdi, því ekki vilji hann kosta framfylgd eignarréttarins úr eigin vasa. Ætli fáráðsraunhyggjumenn hafi kynnt sér umframbyrði eignarréttarins?

Vandamálið við þetta hægri-rugl og vinstri-bull er að í öllum tilfellum sniðgengur það almenna skynsemi. Ég er einstaklingsmiðaður félagshyggjumaður. Hægra megin við Davíð og vinstra megin við Steingrím. Betri en þeir báðir, eins og velflestir, því ég sé að lausnir á vandamálum samfélagsins verða ekki dregnar fram með stofnannavæddu veruleikafirrtu hagfræðikenningarunki. En uss, ekki segja neinum.

Það væri hrikalegt ef það spyrðist út að allt sveitta hippapakkið sem steitir hnefa á Facebook hefði rétt fyrir sér, og að stofnanir eins og Alþingi væru stofnanalega þroskaheftar, jafn ófærar um að taka skynsamar ákvarðanir eins og saursletta á þjóðveginum. Ef það myndi spyrjast út gæti það haft í för með sér réttlæti og allskyns þannig horbjóð, sem úthverfabúarnir vilja ekki sjá og hagfræðingarnir kunna ekki að reikna.

En svo maður tali nú af pínulítilli alvöru rétt í lokin: væri það svo slæmt ef að allir hagfræðingar væru skikkaðir til að læra prósentureikning og lesa Leviathan í gegn (án þess að hlæja)? Væri svo slæmt ef stjórnmálamenn væru látnir telja upp þær grundvallarforsendur sem þeir gefa sér um eðli samfélagsins, svona rétt eins og aðra hagsmunaskráningu? Væri slæmt ef blaðamenn myndu vera gagnrýnir á stofnanalega hugsun, og að bjúrókratar þyrftu að færa rök fyrir máli sínu?

Æji, ég veit ekki hvort við séum orðin nógu þroskuð til að takast á við slíkan veruleika. Kannski ég haldi mig bara við hippastælana þar til að þið hin eruð tilbúin fyrir flóknari veruleika.

Höfundur er krakkhagfræðingur