· About 10 minutes read

Nokkur atriði um ACTA

Ég sat í gær fund með fulltrúum samtaka sem eru að berjast gegn ACTA, svo sem FFII, Vrijschrift, La Quadrature du Net, Piratpartiet, EDRi, Avaaz, Act Up Paris, Oxfam, Health Action International, og svo þingmönnum í Evrópuþinginu sem eru að vinna gegn upptöku samningsins, frá ALDE, Greens/EFA og S&D.

Það er mikil vinna búin að eiga sér stað undanfarin ár (ég er sjálfur búinn að vera í aðgerðum gegn ACTA síðan haustið 2010, mestmegnis á lokuðum póstlistum og einstaka fundum), og baráttan er sannarlega búin að breytast undanfarið. Fyrir tveimur árum snérist þetta allt um að reyna að finna út hvað nákvæmlega stæði í samningnum og að þrýsta á að hann yrði gerður opinber, ásamt því að gera samanburði á þeim brotum samningsins sem við höfðum séð og ýmsum öðrum fríverslunarsamningum sem voru í gangi, t.d. ESB-Suður Kóreusamningurinn.

Núna snýst dæmið nær alfarið um að koma í veg fyrir að Evrópuþingið samþykki þetta, enda er það næstsíðasti möguleikinn – ef að það bregst þá eru bara aðildarríkin eftir, en flest þeirra eru búin að undirrita nú þegar. Pólland og Tékkland hafa að vísu nú gefið út að þau ætli ekki að framfylgja samningnum, en hvorugt landið hefur enn ákveðið að draga undirskrift sína til baka.

Næstkomandi laugardag, 11. febrúar, verða mótmæli í ótrúlega mörgum borgum út um alla Evrópu. Kannski það hafi einhver áhrif.

Avaaz undirskriftasöfnunin gengur vel. Kjánaglott á mér eftir góðan samráðsfund í Evrópuþinginu í gær.

Ég fékk fjölmargar beiðnir í síðustu viku um að gefa upplýsingar um ACTA samninginn og tengsl hans við PIPA og SOPA. Eftir að hafa svarað ansi mörgum e-mailum og álíka með mestmegnis copy-paste, þá ákvað ég að dömpa því bara hingað.

SOPA var tillaga að bandarískri löggjöf sem var sett fram í neðri deild bandaríkjaþings. PIPA var mestmegnis sambærileg tillaga sett fram í efri deild þingsins. Báðum tillögunum hefur verið lagt til hliðar vegna gríðarlegrar andstöðu, fyrst og fremst á Internetinu.

ACTA er ekki tillaga að löggjöf, heldur fjölþjóðlegur milliríkjasamningur. Hann á efnislega ýmislegt skylt við SOPA og PIPA, en er að mjög mörgu leyti frábrugðinn líka. Meðal aðila að ACTA eru Bandaríkin, Mexíkó, Kanada, Nýja Sjáland, Ástralía, Japan, Suður-Kórea og Evrópusambandið. ACTA hefur nú verið undirritað af öllum þátttökulöndunum nema 5 evrópulöndum (sem er búist við að skrifi undir á næstu dögum) og Mexíkó (þar sem þetta er enn í vinnslu). Að auki þarf Evrópuþing einnig að samþykkja samninginn til að hann öðlist gildi í Evrópu, en búist er við að það gerist ekki fyrr en í Júní.

ACTA var samið í leyni. Að öllu jöfnu eru milliríkjasamningar af þessu tagi umsamdir innan alþjóðastofnanna á borð við WIPO og WTO, en þau voru sniðgengin að þessu sinni. Einhverjir hafa látið sér detta til hugar að það sé vegna þess að þróunarlönd myndu aldrei samþykkja samninginn innan lýðræðislegra alþjóðastofnanna, og aðrir hafa bent á að fulltrúar almennings hefðu æpt upp yfir sig mun fyrr hefði þetta verið þar uppi á borðunum. Nýlega gaf framkvæmdarstjórn Evrópusambandsins út skjal til varnar ACTA, sem heitir “10 Myths about ACTA“, þar sem bent er á að texti ACTA samningsins er öllum aðgengilegur. Það er satt núna, en meðan verið var að skrifa hann var það alls ekki satt, og það var eingöngu vegna þess að hann lak í gríð og erg (fyrst og fremst til kanadíska lögfræðingsins Michael Geist og frönsku samtakana La Quadrature du Net) sem hann var loks birtur opinberlega (það hefði samt auðvitað gerst þegar hann yrði tekinn fyrir í þingunum).

Að öllu jöfnu þegar milliríkjasamningar eru gerðir þá eru ýmsir hagsmunahópar sem koma að umræðunum á ýmsum stigum málsins. Í tilfelli ACTA voru það bara ákveðnir fulltrúar ákveðinna fyrirtækja sem fengu aðgang að ferlinu, og þeir höfðu allir hagsmuni af því að samningurinn yrði sem sterkastur.

Neelie Kroes og Karel De Gucht, úr framkvæmdarstjórn Evrópusambandsins, hafa sagt ítrekað að “ACTA mun ekki breyta lögum ESB”. Þetta er strangt til tekið rétt, en þetta er frekar villandi pólitísk orðræða, þar sem að þegar samningurinn er innleiddur mun ESB hafa alþjóðlega skuldbindingu til að setja í lög ýmislegt sem er tekið fram í ACTA samningnum, og aðildarríkin (sem og Noregur, Ísland og Liechtenstein, sem EES aðilar, þar sem að Copyright Directive og IPRED (Intellectual Property Rights Enforcement Directive) sköpuðu það viðmið að Evrópusambandið hefði löggjafarheimild í hugverkamálum (sem er raunar enn mjög umdeilanlegt atriði miðað við samninganna) og að hugverkaréttarmál hefðu tilvísun í innri markaðinn (sem er álíka umdeilanlegt). Þannig að þótt ACTA breyti ekki lögum beint þá mun það leiða af sér lagabreytingar, meiraðsegja á Íslandi, með tíð og tíma. Þess ber að geta að framkvæmdarstjórnin hefur líka sagt að “ákvæði ACTA eru í samræmi við gildandi lög ESB”, en fjölmargir fræðimenn eru því ósammála.

Stóra vandamálið við ACTA (og þetta gildir líka um SOPA og PIPA, og einnig um nýja viðskiptasamninginn TPP (Trans-Pacific Partnership Agreement), en ég ætla að fókusera á ACTA þar sem það hefur áhrif á okkur og er nær okkur í tíma) er að þar er hlutlausum grunnkerfum stillt upp á móti sérhagsmunum á þeim forsendum að hægt sé að nota þessi grunnkerfi (þ.e., Internetið), til að stunda höfundaréttarbrot.

ACTA býður upp á takmarkanir á tjáningarfrelsi með því að skapa svigrúm fyrir að ritskoðun sé stunduð á grundvelli þess að hugsanlega hafi höfundalagabrot átt sér stað.

ACTA inniheldur ákvæði sem gætu leitt til þess að fartölvur yrði kannaðar eftir höfundavörðu efni á flugvöllum, að netumferð verði vöktuð, og að farmsendingar milli landa séu gerðar upptækar ef að þær fara um lönd þar sem ACTA samningurinn er í gildi. Raunar er núna í gangi vinna í reglugerð í Evrópusambandinu (hjá framkvæmdarstjórninni eins og stendur; búist við að það fari til umræðu í þinginu í sumar) um landamæravöktun í tengslum við hugverkaleyfi, sem mun innleiða mjög svipaðar reglur.

Dæmi: Samheitalyf sem eru framleidd á Indlandi, á leið til Brasilíu, sem hvorugt er aðildarland að ACTA, gætu verið umskipuð í Rotterdam, sem er í aðildarlandi að ACTA, og gerð upptæk þar, ef að efnið er varið með einkaleyfi í Japan.

Dæmi: Í dag bera netþjónustuaðilar enga ábyrgð á upplýsingum sem fara um kerfin þeirra, og þeim ber engin skylda til að fylgjast með umferðinni (sbr lög um rafræn viðskipti og aðra rafræna þjónustu, sem er byggt á e-Commerce Directive frá ESB). Með tilkomu ACTA er þessu snúið við, að netþjónustuaðilar gætu orðið skaðabótaskyldir ef höfundaréttur er brotinn í gegnum þeirra netkerfi)

Samtökin ARTICLE 19, sem berjast fyrir tjáningarfrelsi, skrifuðu: “[ARTICLE 19] finds that ACTA fundamentally flawed from a freedom of expression and information perspective. If enacted, it will greatly endanger the free-flow of information and the free exchange of ideas, particularly on the internet.”

Álit frá lagaþjónustu Evrópuþings um ACTA - ritskoðað í hel. Almenningur átti ekki að fá að vita um hvað þessi samningur er.

Douwe Korff & Ian Brown skrifðu: “Overall, ACTA tilts the balance of IPR protection manifestly unfairly towards one group of beneficiaries of the right to property, IP right holders, and unfairly against others, equally disproportionally interferes with a range of other fundamental rights, and provides for (or allows for) the determination of such rights in procedures that fail to allow for the taking into account of the different, competing interests, but rather, stack all the weight at one end. This makes the entire Agreement, in our opinion, incompatible with fundamental European human rights instruments and -standards.”

Þar sem sérstaklega er miðað að einkaleyfum og viðhaldi þeirra með ACTA, þá skapast vandamál þar sem einkaleyfakerfið er algjörlega komið í rugl. Til dæmis hefur bandaríska fyrirtækið Monsanto nýlega sótt um fjöldan allan af einkaleyfum á fjölmörgum náttúrulegum breytileikum á svínum – sem myndi gera það að verkum að þeir gætu krafið alla sem eiga svín með slíkum erfðabreytileikum um “afnotagjöld”… og þeir sem neita að borga gætu átt sakamál yfir höfði sér.

Almennt er stór breyting við ACTA umfram aðra samninga að framfylgd hugverkaréttinda breytist úr einkamáli í sakamál, sem þýðir að ákæruaðilinn er saksóknari og refsivist er möguleg niðurstaða. Á einhverjum tímapunkti í ACTA samningaviðræðunum voru ákvæði um að það yrði gagnkvæmt framsal á ákærðum aðilum milli aðildarlanda. Þannig að ef þú deilir lagi eftir Ken Ishii með vini þínum gætirðu verið framseldur til Japans og setið í fangelsi þar; þetta er frekar hæpið dæmi, þar sem fólk er kannski ekki alveg svo mikið fífl að jafnaði, en vegna þess að það er enginn lágmarksþröskuldur skilgreindur fyrir sakhæfni þá eru hæpin dæmi sem þessi alveg innan marka samningsins. Ég verð þó að viðurkenna að ég er ekki alveg klár á því hvort það ákvæði sé enn inni í þeirri útgáfu sem er búið að undirrita, enda var þetta með því allra umdeildasta á sínum tíma.

Það að það sé  engin lágmarksþröskuldur fyrir sakhæfni í samningnum þýðir að það væri mögulegt (þótt það sé satt að segja ólíklegt) að einhver fengi skilorðsbundin dóm fyrir að deila einu lagi. Á raunhæfari nótum þá reiknaði Ante Wessels að hugsanleg fjársekt gæti numið um 80 milljón krónum fyrir að deila einum hörðum diski fullum af tónlist, þar sem ýmsir hafa talað um að skaðabótakröfurnar yrðu metnar á grundvelli “glataðra sölutekna”.

** Í stuttu máli:** ACTA samningurinn ógnar tjáningarfrelsi og friðhelgi einkalífsins á netinu með því að gera netveitur að einkalögreglu fyrir hugverkaiðnaðinn, ógnar heilbrigði almennings í fjölmörgum löndum með því að takmarka aðgang að ódýrum samheitalyfjum, ógnar sjálfbærni bænda í fjölmörgum löndum með því að takmarka aðgang að fræjum og öðrum lífverum sem eru undir einkaleyfi til fyrirtækja. ACTA samningurinn setur löggæslu-, eftirlits- og sakarskilyrði sem fara algjörlega fram úr hófi miðað við hvað honum er ætlað að gera – þ.e., hann brýtur gjörsamlega gegn meðalhófsreglunni. Að auki er algjörlega með öllu óljóst að þessar aðgerðir muni gera nokkuð til að stemma stigum við ólöglegri dreifingu á höfundavörðu efni, ólöglegri framleiðslu og sölu á lyfjum og fræjum, og svo framvegis, hreinlega vegna þess að raunkostnaðurinn við að framfylgja þessu yrði svo mikill að hann myndi setja allt hagkerfið á hausinn – fyrir vikið má áætla að heimildunum sem verið er að ræða um munu ekki vera látin jafnt yfir alla ganga, sem gengur gegn jafnræðisreglunni annars vegar, og skapar tortryggnissamfélag og ýtir undir tilvist svartra markaða.

Hvað geta íslendingar gert?

Sendið fyrirspurnir til utanríkisráðherra og til hinna ýmsu stjórnmálaflokka. Nokkrar spurningar sem þið gætuð viljað spyrja eru:

  • Hver er afstaða ráðherra/flokksins til ACTA?
  • Hvað hyggst ríkisstjórnin/flokkurinn gera varðandi hugsanlega innleiðingu á tilskipunum í gegnum EES samninginn sem tengjast útfærslu á ákvæðum ACTA samningsins í ESB?
  • Telur ráðherra/flokkurinn rétt að hugverkabrot verði meðfarin sem sakamál frekar en einkamál, með fangelsisvist og hugsanlegu framsali til þriðja ríkis?
  • Hvaða áhrif mun ACTA samningurinn hafa á afstöðu ráðherra/flokksins varðandi inngöngu í Evrópusambandið?
  • Mun ráðherra/flokkurinn senda bréf til framkvæmdastjórnar ESB/forseta Evrópuþingsins/flokka í Evrópuþinginu og hvetja þá til að hafna ACTA samningnum?

… og eitthvað í þeim dúr. Endilega verið frumleg, ráðamönnum leiðist að fá alltaf nákvæmlega sama copy+pastað.

Áhugavert efni: