· About 4 minutes read

Banastuð hjá löggunni

Það er búið að vera til umræðu allt of lengi að lögreglan á Íslandi vill fá að ganga um með rafstuðsvopn sem skýtur nálum tengdum við leiðara og pumpar rafmagni í fórnarlambið – mjög há spenna, mjög lágur straumur, sem þýðir að í flestum tilfellum missir fólk stjórn á vöðvum sínum, fellur í jörðina, en oftast nær deyr það ekki. Undantekningin er ef það er með ákveðna hjarta- eða lungnasjúkdóma sem gerir fólk viðkvæmt fyrir rafstuði. Algengast er að fólk lendi í hjartaflökti (cardiac arrhythmia) sem getur leitt af sér hjartaáfall eða hjartastopp.

Amnesty International tók saman 150 dauðsföll af völdum Taserskota milli 2001 og 2007 [1]. Nokkur fræg tilvik af dauðsföllum hafa komið upp, til dæmis þegar pólverjinn Robert Dziekański var myrtur af lögreglu á Vancouver flugvelli með fimm taser skotum.

Vopn af þessu tagi eru ólögleg í þýskalandi (undir viðauka 2 WaffG laganna) ef ekki hefur verið staðfest að þau séu hættulaus, en ekkert rafstuðsvopn hefur fengið slíka vottun.

Þegar talað er um rafstuðbyssur er almennt talað um Taser, sem er þó vörumerki. Það er svolítið eins og að gagnrýna koffeindrykki með því að tala um Pepsi. Ekkert beinlínis rangt við það, bara helvíti ónákvæmt. Aðrir framleiðendur en Taser International eru t.d. Nova Technologies og Stun Tech Incorporated.

Ég hef ekkert á móti því að lögreglan fái rafstuðvopn, að undangegnum nokkrum skilyrðum, sem ég skal rökstyðja:

  1. Allir lögreglumenn sem bera rafstuðvopn skulu vera skotin með rafstuðvopni minnst mánaðarlega. Þetta er til þess gert að tryggja að þau skilji hverslags vopnvald þetta er, en einnig til þess að staðfesta að vopnin séu ekki banvæn.
  2. Allir aðrir Íslendingar fái líka að bera rafstuðvopn. Sama regla skal gilda um þá sem kjósa að bera þau, en að öðru leyti er þetta til þess gert að minnka líkurnar á því að lögregla ákveði að nota vopnvald sitt eftir hendingu.
  3. Fyrir hvert rafstuðvopn sem er flutt til landsins séu einnig fluttir inn fimmtíu einangrunarbúningar sem almenningi gefst kostur á að nýta sér í mótmælum. Þetta er til þess gert að ekki séu notuð rafstuðvopn til að koma í veg fyrir friðsamlegar samkomur þar sem fólk nýtir sér  tjáningarfrelsið sitt til að lýsa skoðun sinni á ýmsu sem er að í samfélaginu – til dæmis auknum umsvifum lögreglunnar.

Þetta er mjög einfalt mál. Ekkert samfélag hefur orðið betra við það að hafa meiri valdstjórn að hálfu ríkisins.

Ef lögregla er vopnuð er það gert í því skyni að gefa þeim yfirhöndina gegn óvinum sínum og ríkisins hér innanlands. Umræðan í samfélaginu er þannig að óvinirnir innanlands eru glæpagengi sem ferðast um á mótorhjólum. Ég veit lítið um hvað gerir þessa einstaklinga á mótorhjólum að glæpagengjum, en hefði haldið að ef sannanir væru til staðar mætti handtaka þá einstaklinga sem eru að fremja glæpi og draga þá fyrir rétt. Ef það er erfitt vegna hættu á ofbeldi, þá eru til úrræði – lögreglan hefur nú þegar nóg af vopnum nú þegar til að tryggja að það gangi greiðlega fyrir sig. Samkvæmt því sem ég veit er lögreglan á Íslandi nægilega vopnbúin til að geta geta látið lítið stríð ganga greiðlega fyrir sig.

Þá stendur eftir spurningin: Ef glæpagengin eru ekki raunverulega vandamálið, af hverjum stafar ógnin sem á að vera notuð til að réttlæta frekari vopnvæðingu, og þá sér í lagi vopnvæðingu að staðaldri með vopnum sem eru notuð út um allan heim til að gera lögreglu auðveldara fyrir að misbeita valdi sínu?

Svarið er ekki augljóst. Mótmæli á Íslandi hafa verið mestmegnis friðsamleg, og nær undantekningarlaust þegar þau hafa farið úr böndunum hefur það verið að tilstuðlan lögreglu – Gúttóslagurinn er kannski undantekningin, en þó er ég ekki svo viss. Er vandamálið kannski fullt fólk í slagsmálahugleiðingum? Hvar liggur vandamálið sem lögreglan vill leysa með því að gefa fólki stuð?

Þegar lögreglan útskýrir áhættulíkanið sem þau eru að byggja réttlætinguna á þessari vopnvæðingu á, þá getum við farið að tala saman um hvort hún sé réttlætanleg. Þangað til er hún það ekki, og umræðan er fáranleg. Svo einfalt er það.