· About 9 minutes read

Kvóti, einokun, og auðlindir

Kvóti er lagaleg takmörkun á nýtingarrétt auðlindar til að endurspegla takmarkanir á auðlindinni. Sem slíkur er hann einokunarréttur sem er haldið uppi af ríkinu – þeir sem eiga kvóta einoka auðlindina, aðrir komast ekki að. Nú vill ríkisstjórnin gera þá heimtingu að þeir sem hafa fengið úthlutaðan svona einokunarrétt greiði fyrir hann og fylgi strangari reglum varðandi nýtinguna. Sama ríkisstjórnin og veitir þennan einokunarrétt.

Ólíkt flestum einokunarrétti þá er einokun í þeim tilgangi að takmarka ágang í takmarkaðar auðlindir réttlætanlegur, þó háð því skilyrði að aðgengi að einokunarrétti sé réttlátur – þ.e., að allir sem óska eftir að fá aðgang að auðlindinni fái það í sanngjörnu mæli, miðað við einhverja réttláta mælikvarða.

Ein leið til að gera þetta, sem hefur ekki verið farin, væri að deila heildarkvótanum með íbúafjöldanum, úthluta hverjum einstaklingi kvótahlut sem því nemur, og gefa þeim rétt til að leigja út sinn hlut. Þessi leið hefur ekki verið farin því það væri pólitískt sjálfsmorð að stinga upp á slíku, og auk þess væri umsýslukostnaðurinn gígantískur, nema við hefðum til dæmis einhverskonar hraðvirkar maskínur af einhverju tagi, sem gætu geymt upplýsingar, birt þær á einfölduðu formi, gert fólki kleift að hirða um sinn hlut, og reiknað út hver fengi hvað. Ef við hefðum slík tæki, við gætum kallað þær “tölvur”, bara svona til að rétt ímynda sér, þá gætu þessar tölvur einfaldað réttláta úthlutun.

Í staðin fyrir þetta var farin sú leið, árið 1991, að gefa bara þeim sem áttu skip hlutdeilt í takt við stærð skipsins. Hugmyndin var sú að þeir sem voru nógu ríkir til að eiga skip ættu að sjálfsögðu að fá að vera ríkari, með því að fá einokunarrétt á nýtingu auðlindarins. Slíkar röksemdafærslur eru tiltölulega algengar hjá ákveðnum hópi fólks, en sá hópur er að flestu leyti óaðgreinanlegur frá þeim sem fengu afhentan umræddan rétt.

Sem betur fer hefur ríkisstjórnin fundið leið út úr þessu sérkennilega máli, sem felst í því að láta fólk greiða fyrir sína hlutdeild í einokunarréttinum. Þetta þýðir að fólk sem fékk einokunarréttinn á silfurfati hér fyrir tuttugu árum þarf skyndilega að bæta við einum útgjaldalið, en um leið þýðir þetta að ríkið getur innheimt fyrir hönd fólksins nokkurskonar leigugjald fyrir þennan rétt, og hugsanlega notað það gjald til að bæta lífskjör fólksins í landinu, ekki síst þeirra sem nú eru á mínum aldri eða innan við þann aldur, og hafa tiltölulega takmarkaða minningu af Íslandi sem hafði ekki ríkisverndaða einokun á aðgengi að fiski – en sá aldurshópur er nú mikið til vel menntaður og atvinnulaus eftir því.

Þegar fólk talar um einokun hugsar það yfirleitt um einokunarverslun eins og var á Íslandi á hluta af valdatíð Dana, eða um stórfyrirtæki eins og Starbucks sem ryður sér leið inn á markað, undirbýður umhverfið sitt og gerir öllum öðrum fyrirtækjum ókleift að starfa. Fólk talar mun sjaldnar um það að eignarréttur í hvaða formi sem er, er í rauninni tegund af einokun.

Fyrir vikið þá er lítið argast út í það þótt örfá símafyrirtæki og nokkrar sjónvarpsstöðvar eigi svo til allan nýtingarrétt á rafsegulrófinu – og þó, eins og Steinn Sigurðarson benti á á Smettiskinnu fyrr í dag, borga símfyrirtækin 265.500 krónur á Megahertz á ári, ásamt 0,30% af bókfærðri veltu (ekki hagnaði), fyrir aðgang að þeirri auðlind.

Það er sömuleiðis mjög lítið argast út í það að ýmis fyrirtæki og einstaklingar eigi allan nýtingarrétt á hugverkum sem sum hver eru stór og mikilvægur partur af sameiginlegri menningu okkar – það er litið svo á að réttur fólks til að hagnast á því sem það fann upp á vegur þyngra en það að samfélagið fái að njóta góðs af því að hafa hlúið að slíkri sköpunargáfu. Ekki það, mér finnst að skapandi fólk eigi að lifa vel af sinni sköpun – og satt að segja finnst mér þetta einokunarfyrirkomulag ekki vera að gera neitt ofsalega mikið til að tryggja það. En þetta er samt svipað.

Allar auðlindir virðast vera að ganga í gegnum ákveðin ferli í lífi sínu, hvort sem það er fiskur, vatn, land, rafsegulrófið, hugverk, og hvaðeina. Ég er undanfarið búinn að vera að skoða þetta ferli ásamt kollega mínum á Spáni, og er ætlunin að birta grein í haust… en í stuttu máli þá kemur þetta nokkurnvegin svona út:

 1. Óreglaður almenningur. Engin ríkisafskipti eru höfð af auðlindinni, og hún ýmist álitin verðlaus, ótæmandi, eða hreinlega fólk veit ekki af henni.
  • Eitt sinn voru skógar álitnir ótæmandi, og í Bretlandi var “lopping” stundað, sem er fjarlæging ystu trjágreina til að nota í eldivið. Allir gerðu þetta í sínum nærskógum, en þetta hjálpaði skógunum að vaxa ásamt því að allir höfðu nóg til að brenna.
  • Frá uppfinningu útvarps og fram til 1913 voru engar reglur um takmörkun útsendinga, sem þýddi almennt að fólk gat fiktað áfram með tæknina og þróað nýjungar hratt, en um leið þýddi þetta að oft var erfitt fyrir fólk að finna senditíðni sem var ekki full af hávaða.
 2. Leyfisskylding afnota. Ríkið sér vandamál varðandi nýtingu auðlindarins og grípur inn í – ýmist vegna þess að hún er álitin vera í hættu vegna of mikils ágangs, eða vegna þess að deilur um nýtingu hafa komið upp, eða stundum hreinlega til að auka sínar tekjur. Jafnvel þótt auðlindin sé mögulega ótæmandi getur hún verið þess eðlis að það geti ekki margir notað sömu einingu af auðlindinni í senn (til dæmis er nóg af sætum í bíói, en aðeins einn getur notað hvert sæti svo vel sé í senn…), og mismunandi einingar misjafnlega eftirsóttar.
  • Eftir að Titanic sökk var komist að þeirri niðurstöðu að hluti af ástæðunni fyrir því að engin björgun átti sér stað var að allar þær tíðnir sem Titanic sendi sínar hjálparbeiðnir á voru uppfullar af skruðningi og hávaða vegna annarra sendinga. Þá var ákveðið að leyfisskylda útvarpssendingar, taka frá ákveðnar neyðartíðnir, og gera gæðakröfur um útsendingabúnað.
  • Í gegnum árin komust höfðingjar að því að það væri stórkostlegt vandamál fólgið í því að fólk notaði land til landbúnaðar algjörlega án þess að greiða fyrir það, því landið væri jú takmörkuð auðlind. Landskikkar voru lokaðir af og fólk látið greiða fyrir nýtingarrétt á þeim, með tilvísun í það sem líffræðingurinn Gerrett Hardin hefur kallað “The Tragedy of the Commons“. Bændur þurftu því að greiða stóran hluta af sínum tekjum til lénsherra eða óðalsbænda fyrir beitingarrétt, eða minnka umsvif sín, en engin raunbreyting varð á heildarnýtingu auðlindarinnar.
 3. Óleyfisskyldur tímabundinn nýtingarréttur. Þar sem markaðurinn sem keppist um tiltekna auðlind er orðinn sæmilega þroskaður og lagaramminn utan um nýtinguna vel þróaður ákveður ríkið að taka hluta auðlindarinnar og leigja aðilum í markaðsráðandi stöðu aðgang til takmarkaðs tíma með mun færri leyfisskilyrðum, eða jafnvel án leyfisskilyrðingar fyrir þær einingar sem hann hefur.
  • Árið 1710 ákvað Anne bretadrottning að innleiða lög sem gáfu höfundum bóka 14 ára einokunarrétt á endurprentun á þeim, með það aðallega fyrir augum að brjóta þá einokunarstöðu sem Stationers Company hafði komið sér í, en ekki síður til að hvetja fólk til bókaútgáfu með því að auka líkurnar á fjárhagslegum ávinningi, vitandi að það væri gott fyrir menntun að fleiri bækur væru skrifaðar.
  • Eftir að sjónvarps- og útvarpsútsendingar urðu algengar boðleiðir fyrir fjölmiðlun vildu fjölmiðlafyrirtækin fá tryggingu fyrir því að þeim yrði ekki ýtt yfir á aðrar tíðnir í skyndingu, sem gæti valdið því að áhorfendur eða hlustendur týndu þeim. Gripið var til þess ráðs mjög víða að selja á uppboðum tíðnihluta, sem fyrirtækin höfðu þá heildstæð yfirráð yfir til ákveðið margra ára, oftast nær með forgangsrétt á endurnýjun.
 4. Eignarréttur. Óleyfisskyldur nýtingarréttur er gerður ótímabundinn og veittur lagalegur réttur til að krefjast bóta ef ríkið endurheimtir aðganginn að auðlindinni.
  • Höfundarréttur stökkbreyttist í gegnum árin og gildir nú víðast hvar út ævi höfundar verksins, og sjötíu ár til viðbótar þar eftir. Ekki hefur verið sýnt fram á hagfræðilega nauðsyn þess að hann vari svona lengi, og þessi lengd er tæknilega séð óendanleg, þar sem sjötíu ár er ansi langur tími, og við vitum það vel að þegar kemur að því að höfundarrétturinn á Mikka Mús er að fara að falla úr gildi mun hann sennilega vera framlengdur. Hugtakið “forever minus one day” hefur verið notað í þessu samhengi. Sjá myndbandið að neðan.
  • Einu sinni voru stórir almenningar á Íslandi, þar sem fólk mátti ganga um, tjalda, tína ber, veiða, og allskyns. Nú er sérhver fermeter lands á Íslandi í eigu einhvers – oftast nær ríkisins, sem fyrir flesta parta gerir ekkert í því að fólk tjaldi eða tíni ber, en málið yrði ögn flóknara ef einhver ákveði að byggja hús. Þessi breyting hefur verið réttlætt sem vernd, þar sem að það er jú, eins og allir vita, rosalegur skortur á landi á Íslandi til afnota. Rétt eins og í Wyoming, eða Síberíu.

Þótt einokunarréttur sé ekki alltaf óréttlætanlegur þá þurfum við að spyrja okkur “hver græðir?” í hvert skipti sem einhver einokunarréttur er lagður til, og ennfremur: “hver tapar?” Hversu mikinn skaða valda óréttlátar takmarkanir á auðlindum á hverju ári, ef skoðaður er tækifæriskostnaður þeirra sem vilja færa sig inn í geirann, eða fórnarkostnað þeirra sem vilja stækka við sig þar. Hversu mikinn skaða veldur það, ef auðlind er svo stýrð að engin nýsköpun getur átt sér stað, og aðeins gömul öfl fá að sitja þar við?

Þegar spurningin er spurð á þennan veginn hljótum við að sjá að tilfærsla fiskikvóta úr eignarrétti yfir í leyfisskyldan afnotarétt er klárlega það sem ætti að gerast, og um leið og því er lokið ættum við, sem samfélag, að setjast niður og skoða hvort það sé ekki fleira sem mætti færa til um flokka.