· About 4 minutes read

Tæknin gefur og tæknin tekur: 1. Aðlögun að brostnu apparati

Á nýja símanum mínum er ég með tvö skjályklaborð. Á öðru þeirra skrifa ég miðlungshratt á ensku, á hinu skrifa ég frekar hægt á íslensku. Það tekur um sex sekúndur að skipta um lyklaborð, en á því enska get ég með smá bellibrögðum náð að framkalla broddstafi, ö og æ – sem sagt, alla íslenska stafi nema þ og ð. Þannig stend ég mig stundum að því að reyna að skrifa heilu setningarnar án þess að nota orð eins og “það”, því það myndi kalla á sex sekúndna skjápot eða ömurlega útskiptingu fyrir th.

Á sama hátt, þegar ég er að tala um einhvern á Smettiskinnu (og ég lýsi því hér með yfir að ég hata fólk sem segir “Fésbók”), þá neyðist ég til að nota nafnið þeirra í nefnifalli til að fá viðeigandi tilvísun. Sumir skrifa nefnifallið í miðri setningu óháð því hvaða falli nafnið ætti að vera í, aðrir skrifa hvaða fall þau höfðu í huga aftan á. Ég eyði afturámóti oftast nær fáranlegum tíma í að reyna að umorða setninguna þannig að nafið geti staðið á náttúrulegan hátt í nefnifalli.

Þetta eru tvö nærtæk dæmi um það hvernig tæknin bregst manni, og þröngvar manni til að hegða sér á hátt sem er manni kannski ekki eðlislæg. Eflaust finnast lausnir á þessum vandamál fyrir rest – það eru fleiri mál en íslenska sem hafa fallbeygingar, svo hið rammameríska fyrirtæki Facebook með sína ameríkumiðuðu heimssýn gerir kannski eitthvað að lokum til að stuða síður málvitund fallorðaþjóða, og kannski einhverntíman eignast ég síma sem leyfir mér að skrifa jöfnum höndum – ef þið afsakið orðaglensið – á bæði ensku og íslensku, rétt eins og ég geri á hefðbundnu fartölvulyklaborði.

Douglas Adams benti á að “tækni” er það nafn sem við gefum hlutum sem virka ekki. Fólk hugsar nánast aldrei um peningaseðla sem tækni, og raunar eru debetkort orðin það áreiðanleg á Íslandi að fólk er nánast hætt að hugsa um þau sem tækni – sem magnar upp pirringinn hjá fólki þegar debetkortin bila, svo ekki sé minnst á þegar maður fer í kæruleysi til lands þar sem enginn tekur við debetkorti án þess að hafa reddað sér gjaldeyri.

(Viðvörun: Það er hraðbanki í göngufjarlægð frá ferjuhöfninni í Tangier, farið bara framhjá hótelinu og beygið til hægri. Ég veit um c.a. fimm hraðbanka í Kabúl, en þeir eru oftar en ekki tómir. Ekki klikka á litla stöffinu!)

Peningaseðlar eru samt tækni, og debetkort sömuleiðis. Svo og rúm, og lampar, götur, og hús. Það að þau skuli að jafnaði virka er ofsalega fallegt, en það er tvennt sem er mikilvægt að hafa í huga: annars vegar það hverjar afleiðingarnar eru þegar tæknin bregst, og hinsvegar hversu mikið tæknin stjórnar manni.

Um þetta tvennt hef ég mikið að segja, og ef tæknin leyfir ætla ég að reyna að skrifa svolítið um þetta fyrirbrigði á næstunni. Þetta er fyrsta greinin í lítilli greinaröð um það hvernig tækni, hönnun og arkitektúr (í breiðustu skilningi þeirra orða) breyta því hvernig við hugsum um hluti.