· About 6 minutes read

Gagnaver: Ísland hefur (nánast) allt sem þarf

Það var grein á mbl.is sem hafði eftir manni sem fór með fleipur. Þar segir meðal annars:

Það er flóknara en margir halda fyrir tölvu- og hugbúnaðarfyrirtæki að flytja gagnaver sín til Íslands. Ódýr og hrein orka er ekki það eina sem til þarf. Þetta segir James Hamilton hjá Amazon. Hann heldur því fram að Ísland sé einfaldlega of langt í burtu frá helstu notendum og það bitni á hraða því hver einasta millisekúnda skipti máli.

Auðvitað er það rétt að hver millisekúnda skipti máli, en það er samt frekar slæmt að maður eins og James Hamilton skuli halda þessu fram. Hann er meðvitaðari en aðrir um að það tekur ekki 200ms að komast til Evrópu eða Ameríku frá Íslandi. Það tekur til dæmis 139ms að fá svar frá Los Angeles, 55ms frá London, og 195ms frá Delhi, þegar ég mæli heiman frá mér – en heimilið mitt er ekkert sérstaklega vel staðsett á netinu. Auðvitað geta verið staðir sem eru ögn erfiðari – það tekur til dæmis 209ms að fá svar frá Bismarck í Norður Dakota, og ég fékk svartíma allt frá 158ms upp í 332ms í samskiptum við tölvu í Almaty í Kazakhstan.

Hitt er það að fyrir flest not skiptir svartíminn frekar litlu – mannseyrað nemur til dæmis ekki töf undir 300ms, og það skiptir frekar litlu máli hvort vefsíða er 200 eða 300ms að hlaðast inn. Prófið að fara á vefsíðu Sydney Morning Herald (að jafnaði 384ms heiman frá mér) og segið mér að það hafi ollið ykkur verulegum vandræðum hvað hún var lengi að hlaðast inn. Það sem skiptir mestu máli er að tengingarnar séu nógu stórar til að það aukist ekki verulega svartíminn vegna þess að það er of mikil umferð, og að tryggt sé að það séu nægilega margar varaleiðir ef eitthvað skyldi fara úrskeiðis.

Hvað svartíma varðar þá eru það helst tölvuleikir og háhraðahlutabréfaverslun sem þurfa lága svartíma. Tölvuleikaþjónar eru þá oftast hafðir nálægt notendum, og þeir sem stunda mikið af háhraðaviðskiptum fá oftast að setja sínar tölvur til þess inní tölvuver kauphallanna sjálfra, eða í það minnsta mjög nálægt.

Ísland mun seint verða staðurinn þar sem tölvuleikjaþjónar eru geymdir, en það er margt sem styður það að gagnaver til ýmissa annarra nota verði flutt hingað. Þeir þættir sem skipta máli eru fyrst og fremst orka, tengigeta og lagaumhverfi.

Orkan þarf umfram allt að vera ódýr, en það er mjög gagnlegt ef umhverfið er kalt og helst ekki mjög rakt (það er þó víðast hvar mjög rakt á Íslandi) til að orkuþörfin vegna kælingar sé minni. Það er mjög mikilvægt að raforkuframleiðslan sem og raforkudreifikerfið séu áreiðanleg og það sé sjaldgæft að rafmagnsleysi hrjái kerfið að hluta eða í heild, og að það séu aðgengilegir varaaflsmöguleikar á nokkrum stöðum í kerfinu. Þá er það ágætis stimpill að orkan sé vistvæn (“græn”), þótt það sé í rauninni bara nice to have en ekki úrslitaþáttur fyrir neina businesskalla.

Tengigetan er það sem James Hamilton talar hér um, og þá eru nokkrir þættir ráðandi, en svartími er ekki efstur þar. Fyrst og fremst er það burðargeta og kostnaður við að nálgast burðargetuna. Ísland hefur mjög mikla ónýtta burðargetu í dag í gegnum FarIce, DanIce og Greenland Connect strengina, og það lítur alltaf meira og meira út fyrir að Emerald Express sæstrengurinn verði lagður – en hann myndi margfalda núverandi burðargetu. Það að strengirnir séu margir er líka mikilvægt, því ef einn slitnar verða hinir að geta verið ásættanlegar varaleiðir.

Hitt er annað mál að burðargeta frá Íslandi er dýr, og virðist ætla að verða dýrari fyrir almenning á næstunni, þar sem verið er að reyna að selja aðgang fyrir gagnaver að sæstrengjum ódýrar en endursemja við símafyrirtækin um væntanlega hærra verð fyrir “venjulega” notendur. Þetta er auðvitað fáranlegt, og það sem vantar að gera í sæstrengjamálum á Íslandi er að ríkið, sem stærstur eigandi að FarIce, setji sér eigandastefnu varðandi rekstur og aðgengi að sæstrengjunum, með það fyrir augum að gera aðgengi að burðargetu samkeppnishæft á heimsvísu. Aðrir þættir sem skipta máli í tengigetu myndu vera áreiðanleiki tengipunktana sem sæstrengirnir eru lagðir til og pólitískur stöðugleiki þar. Þetta er minniháttar áhyggjuefni á Íslandi.

Loks kemur lagaumhverfið. Þar liggur megnið af minni vinnu eins og er. Staðreyndin er sú að það er að verða dýrara og flóknara með hverju árinu að reka gagnaver. Það eru allskonar milliríkjasamningar, lagaflækjur og hverslags óþægindi sem geta keyrt upp lagalegan kostnað hýsingaraðila. Hvort sem það eru kvartanir eða kærur vegna ærumeiðandi ummæla sem eru á vefsíðu sem er hýst í tölvu í gangaverinu eða, eins og er að gerast æ oftar, að lögreglan brjótist hreinlega inn í gagnaver og rífi allt úr sambandi án hugsunar í tengslum við einhverskonar rannsókn, þá er ljóst að lagaumhverfið þarf að vera þannig að starfsumhverfi gagnavera sé fyrirsjáanlegt, frjálslynt, og stöðugt. Það þurfa að vera ríkar varnir fyrir milliliði í fjarskiptum, þannig að aðilar sem veita hýsingar- og miðlunarþjónustu verði ekki fyrir skaða vegna afbrota viðskiptavina sinna, og þaðan af síður að milliliðirnir fái á sig einhverskonar eftirlits- eða löggæsluskyldu.

Ísland er í dag með eitt besta lagaumhverfið í heiminum fyrir gagnaversþjónustu, en þó er margt sem mætti bæta. Meiðyrðalöggjöfin á Íslandi er agaleg, það er of auðvelt að fá lögbönn á vefsíður, og fleira og fleira. Flest af þessum vandamálum er auðvelt að laga ef ríkisstjórnin og Alþingi hafa áhuga á því – og sem betur fer er fólk innan ríkisstjórnarinnar og ráðuneytanna sem skilur mikilvægi þess að búa vel að lagaumhverfinu hvað varðar upplýsinga- og tjáningarfrelsi, og þetta er allt í vinnslu.

Í stuttu máli er Hamilton að tala of einfeldingslega um þetta flókna mál með því að líta bara á svartíma, og það er ekki neitt því til fyrirstöðu að stór gagnaver geti risið á Íslandi.