· About 7 minutes read

Tæknin gefur og tæknin tekur: 2. Hrunfræði fyrir byrjendur (redux)

Þessa grein skrifaði ég upprunalega í blaðið Krítík, sem náði sér aldrei almennilega á strik þrátt fyrir að hafa verið, að mínu mati, ein bjartasta von fjölmiðlunar á Íslandi síðustu árin. Greinina endirbirti ég hér sem annan kafla í þessari litlu greinarröð um tæknina, aðallega til þess að geta farið að tala síðar um sum hugtökin sem eru kynnt í henni án þess að þurfa að endurtaka mig verulega.

Þegar litið er til síðustu ára hafa þau ein­kennst af umræðum um kerfishrun, hvort sem um er að ræða hagkerfi, stjórnkerfi, eða jafnvel flugsamgöngukerfi. Bak við þetta allt liggja brostnar forsendur og atburðir sem eru taldir ólíklegir, en lítið hefur verið gert í gegnum árin til að meta samfélagslegar afleiðingar þess að for­sendurnar standist ekki eða að ólíklegir atburðir eigi sér stað. „Collapsonomics“ eða hrunfræði, er að sögn eins upphafsmanna stefnunnar, Vinay Gupta, hliðstæð stefna við hag­fræði. „Hagfræði skoðar hvernig hag­kerfi þróast, stækka og minnka. Hrun­fræði skoðar kerfislægar bilanir, svo sem kreppur, náttúruhamfarir, borgaralegar uppreisnir – þá staði þar sem að lífið heldur áfram en markaðirnir ekki.“

Þegar framboð og eftirspurn nægir ekki til að lýsa því hvað á sér stað í hagkerfi, þá byrjar samfélagið að skipta meira máli en peningarnir. „Það er hrunfræði,” segir Gupta. „Þetta er svipað og að rannsaka hvernig flugvélar hrapa, frekar en hvernig þær fljúga.

Vinay Gupta er ráðgjafi sem veitir fyrir­tækjum og stofnunum ráðgjöf um hvernig þau geti búið sig undir það versta, hvort sem það er eldsvoði eða kjarnorkustyrj­öld. Hann segir að hugmyndafræði hrunfræðinnar byggist að stórum hluta á svokölluðum „svörtum fílum.“ Allir þekkja fílinn í herberginu; vanda­málið sem enginn vill tala um. Og allir þekkja svarta svaninn, ólíklega fyrirbærið sem birtist þegar enginn á von á því.

„Svarti fíllinn er merki Hrunfræðistofn­unarinnar“ segir Gupta. „Fólk lýgur að sjálfu sér um hvað muni eiga sér stað. Svartur fíll er augljósa áhættan sem enginn vildi ræða um og allir láta sem þeim sé brugðið þegar það gerist.

Fólk hefur talað um hrun húsnæðismark­aðsins í Bandaríkjunum sem svartan fíl, að margir hafi vitað af yfirvofandi hruni með löngum fyrirvara. Sama má líklega segja um hrun íslensku bankanna, eins og sjá má á skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Ýmsir aðilar fullyrða í við­tölum við rannsóknarnefndina að hafa séð hrunið fyrir og reynt að gera fólki viðvart, en engin raunveruleg viðbrögð voru við þeim athugasemdum – þeim var hreinlega sópað undir teppið. „Kerfi verða brothætt vegna þess að þegar allt gengur í haginn er litið svo á að sterkbyggðir hlutir séu peningasóun,“ segir Gupta.

Vegna þess að heimurinn hefur búið við tiltölulega stöðugt ástand síðan við lok síðari heimsstyrjaldar, höfum við farið að ofmeta öryggistilfinningu okkar. Áratuga þróun í tölfræðilegri úrvinnslu, mynst­ursgreiningu og þróun sjálfvirkra kerfa til að meta markaðsaðstæður, afkomu og auðlindanýtingu hefur gert okkur kleift að kreista sérhverja krónu út úr markaðnum. En þau kreista líka allan styrk úr honum: kerfið verður fullkomið til þess að vinna eftir þeim aðstæðum sem við erum vön, en gjörsamlega ófært um að bregðast við breytingum á þeim aðstæðum. Hlutverk löggjafans og eftirlitsaðilans í þannig umhverfi verður þá að gera allt til að koma í veg fyrir breytingar á ástandinu sem gætu ruggað bátnum.

Í vistfræði kemur svipað fyrirbrigði fyrir þar sem þrýstingur er á lífverur að þróast með tilliti til rangra forsendna. En vist­kerfið hefur alltaf átt sér tromp á hendi: fjölbreytileika. Nýleg grein belgíska hagfræðingsins Bern­ard Lietaer, sem er meðal annars þekktur fyrir að hafa þróað peningakerfi Evrunar (og síðar skrifað tiltölulega svera bók um villu síns vegar í því máli), bendir á hvernig peningakerfi sæta mörgum sömu lögmálum og vistkerfi. Í greininni spyr hann hvort að peningakerfið sjálft geti verið undirrót óstöðugleikans í hagkerf­inu okkar. „Hvers vegna nálgumst við heimskreppnuna 2008 eins og hún væri sú fyrsta? Alþjóðabankinn hefur bent á 96 bankakrísur og 176 peningahrun síðan að Nixon innleiddi fljótandi gengi gjaldmiðla á áttunda áratugnum“ segir Lietaer. Jafnvel fyrir þennan tíma voru kerfislæg hrun tæplega óalgeng. Milli Túlipanaæðis­ins í Hollandi 1637 og byrjun Kreppunnar miklu 1929 urðu í það minnsta 48 stórfelld peningamarkaðshrun á heimsvísu.

„Gæti þetta verið galli í peningakerf­inu sjálfu sem veldur því að stýrikerfi kapitalismans hrynur í sífellu?“ spyr Lietaer. Hann bendir á að í vistkerfum eru tvö andstæð öfl að verki: tilhneig­ing til samhæfingar, þar sem fjölbreyti­leiki minnkar en samhliða því minnkar getan til að bregðast við breytingum á aðstæðum, og tilhneiging til fjölbreytni, þar sem hagkvæmni og nýtni er fórnað til að ná fram mjög öruggu en mjög hæggengu kerfi. „Verkfræði, hagfræði og viðskipti hafa einbeitt sér nær alfarið að því að auka hagkvæmni“ segir Lietaer og bendir á að tilhneigingin til að byggja færri og stærri einingar sé byrjað að valda tölu­verðum skaða. „Til dæmis fyrir nokkrum áratugum þegar raforkukerfin tóku upp á því að bila í norðurhluta Þýskalands og víða í Bandaríkjunum. Þá höfðu þau verið hönnuð til að ná fram hámarks hag­kvæmni“ en einingarnar voru orðnar það stórar að ef eitt raforkuver bilaði þá jókst álagið á hin svo mikið að þau tóku upp á því að hrynja, eitt á fætur öðru.

Samskonar þróun má sjá í samgöngugeir­anum. Í upphafi flugaldar voru loftskip og margar tegundir flugvéla að keppa við ýmiskonar skip, lestar og önnur farartæki við að koma fólki milli staða. Svo þegar kom í ljós að flugvélar væru hagkvæmastar lögðust Atlantshafssiglingar nánast alfarið af og loftskip voru afskrifuð með öllu eftir eitt slys þar sem tæplega helm­ingur farþeganna lést­ þrátt fyrir ótal flugslys síðan þar sem mun fleiri hafa látið lífið. Lestar eru nú ýmist ríkisreknar eða hafa verið einkavæddar og eru reknar sem þriðja­flokks samgöngukerfi fyrir millistéttina og bakpokatúrista. Ef fjölbreytileikinn hefði verið meiri hefðu bankarnir síður hrunið hér eða flugsam­göngur lagst af í Evrópu út af minniháttar eldgosi í Eyjafjallajökli.

„Það er kaldhæðnislegt að hagkerfi okkar er svona brothætt vegna þess að það er svo hagkvæmt. Peningakerfi nútímans er byggt á einræktun einnar gerðar peninga“ segir Lietaer. „Allir gjaldmiðlar heims eru búnir til með sama hætti, sem skuld. Þessi einræktun er lögbundin til að vernda hag­kvæmnina og ríkið tryggir þessa einræktun með því að krefjast þess að skattar séu ein­göngu greiddir með þessari gerð peninga.“

„Við þurfum meiri fjölbreytni“ segir Gupta. „Áhættan er að það verði til ástand sem kallast keðjumögnun hruna. Eitthvað eitt fer úrskeiðis og svo bilar allt annað í kjöl­farið. Matarverð hækkar og félagsnetið nær ekki að bregðast við og þá verður fólk reitt. Ef að ríkisapparatið nær ekki að bregð­ast við reiðinni á réttan hátt í tæka tíð, þá hrynur ríkið líka. Og svo framvegis.“ Hann segir að við þurfum að hugsa hratt um aðferðir til að stöðva keðjumögnunar­áhrif um leið og þau byrja, hvort sem þau eru fjárhagsleg, náttúruleg eða félagsleg.

„Ísland er í einstakri stöðu, hafandi verið það fyrsta sem fór fram af brúninni“ segir Gupta. „Fólk verður að átta sig á því að heimurinn er algjörlega samofinn. Vanda­mál Íslands eru vandamál allra og vanda­mál allra eru vandamál Íslands. Hvort sem það er fátækt, hungursneyð eða spill­ing þá mun þetta skipta máli á einhvern hátt. Við verðum að lifa lífinu út á við.“

Lietaer spyr: „Hversu mörg kerfishrun þurfum við að upplifa áður en við förum að læra af náttúrunni?“ Því flóknari sem kerfin eru sem við byggjum líferni okkar á, því meiri þrýstingur verður á okkur þegar hlutir breytast hratt. Einföld kerfi geta þrifist vel, en við verðum að hætta að hugsa um hagkvæmni og byrja að hugsa um sjálfbærni. Við verðum að vera viðbúin vetrinum, hann kemur alltaf að lokum.“ Þetta vita Íslendingar manna best.