· About 3 minutes read

Að sitja við borðið

Open Government Partnership (OGP) er samvinnuverkefni fjölmargra ríkisstjórna um að bæta opna stjórnsýslu. Meðal aðildarríkja eru Moldóva, Tanzanía, Filippseyjar, Danmörk og Bandaríkin. Þetta er ört vaxandi hópur sem setur staðla um opin gögn, opin fjárhag, áreiðanleika, rekjanleika og fleira.

Það má segja að OGP hafi mismunandi tilgang eftir því hvaða land er verið að vinna með. Í sumum löndum, eins og Azerbaijan, er þátttaka landsins frá ríkisstjórnarinnar sjónarhóli ætlaður til að hvítþvo landið, en hefur í rauninni þau áhrif að gefa samtökum í landinu sterkari rödd sem heyrist langt út fyrir landamærin. Í öðrum löndum, til dæmis Brazilíu, er verkefnið að hjálpa ríkinu að læra af öðrum ríkjum meðan það sýnir sína ótrúlegu velgengni.

Þegar þetta er skrifað sit ég á evrópusamráðsfundi Open Government Partnership í Dubrovnik í Króatíu. Hér eru um hundrað þátttakendur frá “civil society organizations” (CSO) - þar á meðal ég, sem er hér á vegum IMMI - og svo annar eins fjöldi frá ríkisstjórnum hinna ýmsu landa. Bretar, Hollendingar, Ungverjar, Eistar, Svíar, og svo framvegis. Það er meiraðsegja einn Norðmaður á svæðinu.

Það er enginn fulltrúi ríkis á fundinum frá Íslandi. Ísland er ekki einusinni aðili að Open Government Partnership. Við erum því ekki að njóta góðs af þekkingu og reynslu ríkja og samtaka út um allt sem eru að kanna gagnsæi lögreglu, eftirfylgni í spillingarmálum, staðla um vernd heimildarmanna, og svo framvegis.

Það væri kannski ekki óeðlilegt að Ísland væri ekki með fulltrúa hér, nema hvað eftir að mér var boðið á þennan fund átti ég nokkur samtöl við ráðuneytin og svo við Króatíska utanríkisráðuneytið. Króatarnir tóku sig til og sendu formlegt boð til Íslenskra stjórnvalda með ósk um að við myndum senda fulltrúa á fundinn sem lið í því að fá Ísland inn í verkefnið. Mér skilst meira að segja að Króatar hafi boðist til að borga, en get ekki staðfest það.

Síðan hrunið varð hefur Íslenska ríkisstjórnin og stjórnarráðið minnkað verulega viðveru sína á allskyns alþjóðlegum fundum. Ég veit um dæmi þess að sérfræðingar í ráðuneytum með stóra og flókna málaflokka sem krefjast mikillar alþjóðlegrar samvinnu á sínum borðum komist ekki nema á einn til tvo samráðsfundi á ári. Þetta er vissulega sparnaður í ríkisrekstri, en þetta þýðir það hreinlega að okkar góða fólk getur ekki verið jafn vel upplýst um sína málaflokka og það ætti að vera.

En það er annað verra: Við erum ekki með fulltrúa við borðið.

Heimspólitíkin er að verða skrýtnari og skrýtnari með hverjum deginum. Í gær, á fundi WIPO (alþjóðahugverkaréttarsamtökunum), var alþjóðasamtökum Pírata (Pirate Parties International) hafnað áheyrnaraðild að samtökunum, á þeim grundvelli að þátttökuríkin óttuðust að Píratar myndu gagnrýna ákvarðanir ríkisstjórnanna í þeirra heimalöndum. Á sama fundi - um klukkutíma síðar - var ákveðið að taka frá heilan dag til að leyfa forstjórum stórra hugverkaréttarfyrirtækja að kynna sín hugðarefni, án þess að sambærilegir dagar væru teknir frá fyrir neytendaverndarsamtök eða annarskyns CSO.

Ísland er fyrir mestan part land byggt af skynsömu fólki, en þrátt fyrir að vera eiginlegt eyland erum við alls ekki eyland í alþjóðlegu samhengi. Ákvarðanir fólks í fyrirbærum eins og WIPO, IGF, OGP, og svo framvegis hafa áhrif á okkur. Það kostar einhvern pening að taka þátt, en mun minna en það kostar okkur að taka ekki þátt.

Ef við eigum ekki sæti við borðið erum við fórnarlömb ákvarðanna annarra. Og ef við tökum okkur ekki sæti við borðið þegar okkur er boðið að taka þátt, þá erum við að henda skynsemi okkar og hugsanlega framtíð okkar út um gluggann.