· About 2 minutes read

Stjórnarskráin og Orramálið

Þegar upp komst um það sem er án nokkurs vafa eitt stærsta spillingarmál íslandssögunnar fyrir hálfum mánuði síðan leiddi ég nánást um leið hugann að tillögum stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá.

Í Orramálinu kom í ljós að bókhaldskerfi ríkisins kostaði margfallt það sem lagt var upp með, var skilað frá framleiðanda í mjög ófullkomnu ástandi, með mjög verulega öryggisgalla sem gera það að verkum að draga verður allan ríkisfjárhag síðasta áratugs í efa. Úttekt á þessu hafði verið leynt frá Alþingi í næstum áratug, að því er virðist til að vernda hagsmuni ríkisendurskoðanda og fjölskyldu hans.

Það má segja að þetta mál er merkilegt fyrir þær sakir að það undirstrikar þörfina á auknu gagnsæi, ábyrgð, og tryggingar fyrir frjálsu flæði upplýsinga.

Í 15. grein frumvarps stjórnlagaráðs til nýrrar stjórnarskrár er upplýsingafrelsi skilgreint. Þar er sagt að allir megi afla og miðla upplýsingum, og gert er grein fyrir því hvernig upplýsingamiðlun að hálfu ríkisins eigi að fara fram. Nánar er kveðið á um upplýsingaskyldu embættismanna í seinni köflum frumvarpsins. Í 16. greininni er svo sagt að fjölmiðlar, heimildarmenn og afhjúpendur eigi að njóta verndar.

Ýmsar aðrar greinar fjalla á ýmsa vegu um gagnsæi og ábyrgð. Almennt eru tillögur stjórnlagaráðs mjög vilhallar opnara samfélagi, sem mér finnst gott.

Núgildandi stjórnarskrá setur engan ramma fyrir upplýsingaskyldu stjórnvalda, né heldur er gerð sérstök tilraun til að vernda þá sem miðla upplýsingum í samfélaginu. Auðvitað má tryggja vernd afhjúpenda og heimildarmanna með lögum, og það eru bæði upplýsingalög og lög um skyldur opinberra starfsmanna í gildi. Hinsvegar er staðreynd að stjórnarskráarleg vernd hefur mun sterkara gildi og tryggir á vissan hátt að lög séu gerð um þessi málefni og ekki gildisfelld.

Hvort Orramálið hafi getað komið upp, hefðu tillögur stjórnlagaráðs tekið gildi fyrir rúmum áratug, mun enginn geta spáð fyrir. Hinsvegar er það ljóst að gagnsæiskröfurnar eru skýrari þar, og í slíku lagaumhverfi hefðu fyrstu viðbrögð ríkisendurskoðanda tæplega orðið þau að kalla til lögreglu til að rannsaka uppruna lekans, sem átti fullkomnlega rétt á sér.

Þetta er út af fyrir sig ástæða til að svara já við fyrstu spurningunni 20. október.