· About 3 minutes read

5% Reglan

http://www.ruv.is/files/imagecache/frmynd-stok-460x272/myndir/thjodarpuls_net_1.jpg

RÚV flutti fréttir af því nýlega að tíunda hvert atkvæði dytti niður dautt miðað við nýjustu skoðanakönnun Gallup um fylgi stjórnmálaflokka. Voru rökin þau að stuðningur við Pírata, Samstöðu, Dögun og Hægri Græna væri ónæg til að ná inn manni, en samtals væri þetta 9.4% heildarinnar. Þetta er bæði rétt og rangt. Ég ætla að horfa fram hjá þeim afleita fréttaflutningi hjá RÚV að beinlínis gefa í skyn að stuðningur við ný framboð sé sóun á atkvæðum. Svona viðhorf endurspegla bara fáráðshátt og því er varla svarandi. Nei, ég ætla að einbeita mér að því að RÚV er hér að reikna vitlaust, og ætti að skammast sín fyrir að hafa ekki tölurnar sínar réttar.

Vegna hinnar svokölluðu 5% reglu getur enginn flokkur fengið sæti á þingi öðruvísi en að ná í það minnsta 5% fylgis. Raunverulegt fylgi sem er nauðsynlegt fyrir hvert sæti er 1.58%, en það sést með því að reikna 10063. Því sést að enginn flokkur getur komist á þing með færri en þrjá þingmenn. Ef 5% reglan væri ekki við lýði fengu Píratar einn þingmann miðað við nýjustu Gallup könnun, Hægri Grænir einn, og Dögun fengi einn. En þetta þýðir fleira en það.

Ef við göngum út frá því að þessi 9.4% atkvæða til litlu flokkanna dyttu niður, þá endurreiknast sætistalan eftir fjölda greiddra atkvæða. Afleiðingin verður að hvert sæti fæst af 1.44% fylgis. Þá hlýst eitt sæti fyrir hver 1.44% fylgis sem flokkur hefur, og ef flokkur hefur umframfylgi sem nær upp fyrir margfeldi af 1.44% dettur það fylgi jafn mikið niður dautt eins og fylgi til litlu flokkanna.

Þetta þýðir að 2.67% atkvæðanna til stóru flokkanna yrðu gagnslaus líka – þau atkvæði sem ná ekki upp fyrir sætistölumörkin. Auðvitað jafnast þetta svo út á ýmsa vegu, en niðurstaðan er sú að það er 12.07% atkvæða sem “fara til spillis” samkvæmt þessum rökum, miðað við nýjustu tölur Gallup. Ef þessi 2.67% fólks sem myndu í rauninni vera að kasta sínum atkvæðum á glæ með því að styðja stóru flokkanna myndu dreifa þeim til litlu framboðanna gæti nokkuð áhugavert gerst: stuðningur við litlu framboðin myndi aukast nægilega til þess að hægt væri að reikna allt dæmið upp á nýtt og finna nýtt ónothæft umframfylgi fyrir stóru flokkana.

Væri þetta svo endurtekið einu sinni í mánuði fram að kosningum kæmust “litlu framboðin” öll inn með þrjá menn hvert, og stóru framboðin yrðu að skipta bróðurlega með sér þeim 51 þingsætum sem eftir standa*.

Vandamálið við kosningakerfið okkar er að það virðir val almennings frekar illa. Ótrúlegur fjöldi atkvæða “fer til spillis” vegna þess að settar eru fáranlegar reglur á borð við 5% regluna, og ótrúlegur fjöldi atkvæða “fer til spillis” vegna þess að fólk fær ekki að lýsa afstöðu sinni með meiri nákvæmni en að krossa við einn tiltekinn lista.

Það væri töluvert betra að geta númerað listana, þannig að fyrsta val fengi 1, annað val 2, og svo framvegis, og svo færi atkvæðið manns bara þangað sem það væri mesta gagnið af því. Annar valkostur væri að gefa hverju framboði einkunn á bilinu 0 til 10, og hvert framboð hlyti sæti í hlutfalli við meðaleinkunn.

Ótal leiðir eru í boði. Flestar eru skynsamar. Ein er afleit. 5% reglan verður að fara. Í millitíðinni hvet ég alla þá sem telja að atkvæðið sitt nýtist stórum flokkum illa til að kynna sér Pírata.

  • Stærðfræðinördar ATH: Hér er ég að svindla smá. Í raunveruleikanum reiknast niðurstöður kosninga eftir ákveðinni líkindaformúlu sem er ægilega falleg, en í henni skipta prósentur engu máli, heldur bara hreinn fjöldi atkvæða. Til að þurfa ekki að gefa mér einhverjar forsendur um fjölda atkvæða í kosningunum nota ég prósenturnar þrátt fyrir að það sé ekki alveg fullkomnlega nákvæmt - en grunn hugmyndin gengur samt alveg upp!