· About 7 minutes read

Gróteskufrjálshyggja

Stefán Ólafsson prófessor skrifar á Eyjublogginu sínu í dag frábæran pistil sem vísar í Posner, Reinhart og Rogoff, meðal annarra fræðimanna, til skýringar á því hvernig alheimskreppan kom til og ekki síst að sýna fram á tenginguna milli þess sem hefur verið kallað “frjálshyggja” og þeirrar tilhneygingar að allt fari til fjandans.

Frjálsir markaðir?

Þó svo að greining Stefáns og þeirra sem hann vísar til sé rétt að ýmsu leyti, þá er í raun djúpstæðari vandi á ferðinni sem er sjaldnar talað um. Sá vandi felst í því sem Kevin Carson hefur kallað “gróteskufrjálshyggju” (e. /vulgar libertarianism/), sem lýsir því þegar fólk notar tal um “frjálsa markaði” og “frelsi” almennt til að réttlæta fyrirtækjakapitalisma (e. /corporate capitalism/) og efnahagslegu misrétti. Eins og hann orðar það (mín þýðing):


Hinn fullkomni “frjálsi markaður” [gróteskufrjálshyggjumanna], virðist vera, er einfaldlega núverandi form kapitalisma, mínus reglun og velferðarríkið: ofur-skjaldkirtilslega útgáfan af nítjándualdar ræningjabaróns-kapitalisma, kannski; eða enn betra, samfélag “lagfært” af fólki á borð við Pinochet, Dionysiusinum sem Milton Friedman og Chicago strákarnir léku Aristoteles fyrir.

Gróteskufrjálshyggjumenn afsaka kapitalismann með því að nota hugtakið “frjáls markaður” í tvíræðum skilningi: þeir virðast eiga erfitt með að muna, frá einum tímapunkti til annars, hvort markmið þeirra sé að verja núgildandi kapitalisma eða grunngildi frjáls markaðar. Þannig fáum við fjöldaframleiddu greinina í The Freeman sem segir að hinir ríku geti ekki orðið ríkir á kostnað hinna fátæku, því “þannig virkar frjálsi markaðurinn ekki” - og gera þar með ráð fyrir því að um frjálsan markað sé að ræða. Þegar maður ýtir við þeim viðurkenna þeir fýlulega að við búum ekki við frjálsan markað, og að ríkið sé í raun að hagræða mjög mörgu í þágu hinna ríku. En um leið og þeir komast upp með það fara þeir strax aftur yfir í að vernda auð fyrirtækjanna á grundvelli “frjálsrar markaðar”.

Goðsögn kapitalismans um einfalda auðsöfnun stenst hvorki rökfræðilega skoðun né sagnfræðilegum staðreyndum; með þessu tvennu hefur goðsögnin verið brotin á ólagfæranlegan hátt. Oppenheimer sýndi fram á að einföld auðsöfnun með friðsömum hætti er ómöguleg. Misnotkun markaðarins gæti ekki hafa komið upp í frjálsu samfélagi, í gegnum markaðsmekkanismann einan og sér.

(sjá bókina Studies in Mutualist Political Economy, öll bókin á PDF hér)


Í stuttu máli er Kevin Carson, rétt eins og ég sjálfur, hlynntur frjálsum mörkuðum en á móti kapitalisma - sem er öfugt við þá afstöðu sem Posner er sagður hafa í grein Stefáns. En athugum að Posner er frjálshyggjumaður, og bókin sem Posner skrifaði heitir “A Failure of Capitalism”, ekki “A Failure of Libertarianism”.

Richard A. Posner er áhrifaríkur dómari í 9. rásar áfrýjunardómstólnum í bandaríkjunum, en er auk þess lektor við Chicago háskóla og hefur skrifað um 40 bækur um lögfræði, hagfræði, og allt þar á milli. Þeir vinir mínir sem þekkja hann hafa lýst honum sem einum snjallasta núlifandi manninum, en það er verulega merkileg umsögn frá þessum tilteknu vinum mínum, sem spara oftast stóru orðin. En það sem er merkilegt við þennan mann er sú oft sérkennilega afstaða sem hann hefur tekið í allskyns málum.

Inngrip Posners

Vorið 2012 óskaði þessi merki áfrýjunardómari eftir leyfi til að taka sæti dómara á neðra dómsstigi, í dómsmáli milli Apple og Google. John Naughton gerði málinu góð skil í Guardian í júlí sl., en í stuttu máli snérist málið um tiltölulega ómerkilegt einkaleyfi sem Apple á, sem felst í “aflæsingu tækis með bendingu á aflæsingarmynd” (bandarískt einkaleyfi 8.046.721). Rök Apple fyrir einkaleyfabrotinu voru að Google (þ.e., Motorola Mobility, sem er í eigu Google), bjóða upp á í snjallsímum sínum þann möguleika að aflæsa skjá með því að stimpla inn kóða, en Apple hélt því fram að “pot er bending með engri tilfærslu” - þ.e., að punktur sé lína með lengdina núll.

Það er kannski rétt að koma örsnöggt inn á hvernig einkaleyfadómsmál virka að jafnaði:

Til að byrja með kostar að jafnaði milli 5 og 30 milljónir króna, í vinnu, rannsóknum, gjöldum og fleiru, að sækja um einkaleyfi. Megnið af þeim kostnaði kemur til við að tryggja að uppfinningin sé ekki til fyrir.

Til að geta smíðað einfaldan farsíma - svona Nokia 5110 tegundina - þarf aðgang að rúmlega 8000 mismunandi einkaleyfum. Til að geta smíðað nútímalegan snjallsíma þarf aðgang að í það minnsta 10000 einkaleyfum til viðbótar. Hægt er að fá aðgang að einkaleyfum með tvennu móti: að kaupa sér aðgang, eða að býtta aðgang að þínum einkaleyfum við aðila sem á önnur einkaleyfi og þarf aðgang að þínum. Þannig eru flest stóru farsímafyrirtækin með deildan aðgang að flestum þessum einkaleyfum í gegnum býtti, en svo eru greiddar háar fjárhæðir á milli, oft tugir milljóna króna á ári fyrir einstök einkaleyfi.

Meðal einkaleyfadómsmál kostar um 40 milljónir króna. Sé annað fyrirtækið lítið semur það yfirleitt um að gefa frá sér allar uppfinningar sínar gegn því að vera ekki knésett algjörlega. Oft fara lítil fyrirtæki á hausinn út af þessu, og ósjaldan eru þau keypt upp. Séu bæði fyrirtækin stór verður úr hundruða milljóna króna barátta milli risanna, þar sem þeir slengja fram hverju einkaleyfinu á fætur öðru sem hinn aðilinn á að hafa brotið, uns flækjustigið ærir alla. Niðurstaðan í svona málum er oftar en ekki að dómstóllinn dæmir báða aðilana til að greiða hvor öðrum bætur, eða að einhver örfá einkaleyfi eru felld úr gildi.

Þetta er sem sagt snargalið. Snargalið.

Í þessu tiltekna máli, sem Posner lét skipa sig dómara við neðra dómsstig til að geta dæmt í, var í lauslegri talningu minni um 10 mismunandi einkaleyfi fleygt fram og til baka, allt út af deilu um hvort punktur sé lína af lengdinni núll. Posner sat rólegur, hlustaði á lögfræðingana flytja sitt mál, og vísaði svo málinu frá þannig að endurupptaka málsins var ómöguleg. Fullyrti hann þá í dómsorðum sínum að dómsmál af þessu tagi gagnaðist hvorugum aðilanum, sem báðir voru gersamlega rökþrota, og ennfremur væri einkaleyfakerfið galið og væri beinlínis andstætt hagsmunum samfélagsins.

Kapitalismi fyrir hina fátæku…

Það sem Posner var að benda á er það sama og Carson hefur bent á, og fleiri til: í samfélaginu okkar eru ótal kerfi sem gera stórum aðilum kleift að stækka og stækka, og ýta öllum öðrum út af markaði. Inngrip Posners var í rauninni ekki dómur yfir frjálshyggjunni, heldur yfir þeirri tegund kapitalisma sem gengur beinlínis gegn tilvist frjálsra markaða.

Í bókinni Jafningjaiðnaðurinn, eftir þau Nataliu Fernández, Maríu Rodríguez og David de Ugarte (sem ég þýddi, og verður fáanleg á næstu vikum), segir að “hrunið á rætur sínar að rekja til stóriðnaðar, og það er stærsti iðnaður allra - fjármálaiðnaðurinn - sem ýtir hruninu af stað og viðheldur því. […] Á tíunda áratugnum gekk stærsta samruna- og yfirtökubylgja sögunnar yfir, og í öllum tilfellum réttlættu risafyrirtækin yfirtökur sínar með þörfinni á stærri einingum, jákvæðum skalaáhrifum. Það er hins vegar erfitt að trúa því þar sem fyrirtækin voru á sama tíma að skipta upp framleiðsluferlum sínum og að knýja á um fríverslunarsamninga sem gera þeim kleyft að skipta framleiðsluferlinu upp á milli ótal undirverktaka víðsvegar um heiminn. Ef samþjöppun fyrirtækja er nauðsynleg til að ná fram stærðarhagkvæmni, hvers vegna er þá þá verið að hola stórfyrirtækin út og umbreyta þeim í umsjónaraðila með stóru safni nánast sjálfstæðra litlla fyrirtækja um allan heim?”

Þau benda sem sagt á að meðan hinir fátæku þurfa að keppa sín á milli á “frjálsum markaði”, er ríkisvaldið að bjaga reglurnar í þágu stóru aðilanna, og viðhalda óeðlilegu hagkerfi á alla bóga.

… og Kommúnismi fyrir hina ríku

Þegar fyrirtæki á borð við Apple og Google, í krafti stærðar sinnar, takast á í dómstólum um hver fái að eiga einokunarrétt á hverju og hver fái að nota hann, skapast milljónatuga kostnaður, sem er velt yfir á neytendur. Á hagfræðimáli kallast þetta “allratap” (e. deadweight loss), og er helsta einkenni einokunar.

Einkaleyfi eru augljóst form einokunar. Óaugljósari form eru leigumarkaðurinn og núverandi form fasteignaveða, kvótakerfið og ýmis önnur auðlindaumsjónarkerfi, höfundaréttur, og ýmis smáatriði í ýmsum viðskiptasamningum. (Bónuslesning fyrir nörda: Bananar III deilan)

Frjálshyggju mætti sundurliða annars vegar í gróteskufrjálshyggjuna sem Carson talaði um - reglunarlausa samfélagið án velferðarkerfisins, en að öðru leyti nútímalegur gervikapitalismi í anda Thatcher, Pinochet, og Davíðs Oddssonar - og hinsvegar í félagslega frjálshyggju, sem myndi hvetja til afnáms á reglun, velferð, og öðrum kerfum, en þó aldrei fyrr en allar rentur og aðrar bjaganir á markaðnum hefðu verið upprættar úr kerfinu. Fyrra formið mætti kalla eignarhyggju, og seinna formið markaðsanarkisma.

Nánast öll rifrildi sem ég lendi í við fólk sem segist aðhyllast frjálshyggju fara á nákvæmlega sama veg - þann veg sem Kevin Carson lýsti að ofan. Ástæðan er sú að ég er sammála Posner: einokunarréttur er skaðlegur fyrir samfélagið. Þetta er grundvallarskilningur markaðsanarkisma, en þetta viðurkenna gróteskufrjálshyggjumenn - eignahyggjumenn - ekki.

Við þurfum að uppræta einokunarrétt í samfélaginu, hverju nafni sem hann nefnist. Þannig frelsum við markaðinn, gerum öllum kleift að taka þátt, og aðeins þannig stöðvum við þetta heimshrun.