· About 3 minutes read

Nafn Pírata

“Það blóm sem nefnt er rós hefði jafn ljúfan ilm þótt nafnið væri annað,” var eitt sinn ort, svo ég vogi ég mér að varpa því ótignarlega yfir á íslensku. Það er satt: það hvað við köllum hluti á lítið skilið við þá eiginleika sem hlutir bera með sér. Oft eru ástæðurnar fyrir nafninu löngu týndar.

Fyrir viku heyrði ég enn einu sinni lagt til að Píratar skipti um nafn. Konan sem sagði þetta sagðist ekki geta hugsað sér að kynna sér stefnu Pírata, því nafnið væri svo asnalegt. Hún ætlaði sér barasta að dæma bókina af kápunni, og hananú! Ég benti henni tiltölulega ókurteisislega á að fólk sem er ekki tilbúið til að kynna sér málin væri ekki markhópur Pírata, og það væri nóg pláss fyrir þröngsýni í ýmsum öðrum flokkum. Ekki mín diplómatískasta stund, viðurkenni ég, en mér finnst þetta nú bara samt!

Hvers vegna völdum við þá þetta nafn? Svarið: Þetta er nafn alþjóðlegrar hreyfingar.

Stjórnmálahreyfingin Píratar er til í um 60 löndum, frá Kanada til Kazakhstan, og hefur rúmlega 170 kjörna fulltrúa í sex löndum í dag - m.a. Þýskalandi, Svíþjóð og Tékklandi. Hreyfingin var stofnuð í Svíþjóð 2006 sem Piratpartiet, sem tilvísun í hugsmiðjuna Piratbyran, þar sem unnið var að því að gagnrýna bullið og gervivísindin sem komu frá rannsóknarmiðstöðinni Antipiratbyran, sem fjármögnuð var af kvikmyndarisum í Hollywood.

En Píratar hafa þróast töluvert á undanförnum sex árum. Hugmyndafræði Pírata spratt út frá gagnrýni á hugverkaréttarfyrirkomulaginu og síauknum ágangi gegn rétti almennings til einkalífs, þá sérstaklega sem snýr að hlerun fjarskipta og rafrænt eftirlit, en hún stoppaði ekki þar. Eftir því sem kafað er dýpra eykst skilningurinn á því að það er ekki allt með felldu í samfélaginu.

Í dag ganga Píratar út frá hugmyndakerfi sem kalla mætti “félagslega frjálshyggju” eða “markaðsanarkisma” eða eitthvað álíka: stefna sem miðar út frá því að frelsi einstaklingsins skal vera óskert og hámarkað að öllu leyti, en þó í þeim raunsæa skilningi að það er ekki boðlegt að ráðast bara út í endalausar einkavæðingar og þaðan af síður einkavinavæðingar, heldur sé samfélagið stórt kerfi þar sem allir kerfishlutar þjóna tilgangi. Maður kippir ekki stoðunum undan samfélaginu á óábyrgan hátt, en það má alltaf reyna að skipta út stoðunum.

En það er satt. Píratar eru með skrýtið nafn. Ekki “Píratapartýið” eins og við gældum við í fyrstu, né “Pírataflokkurinn” eins og var sagt í Stöð 2, heldur bara “Píratar”. Einfallt og gott. Þetta orð kemur upprunalega úr grísku þar sem það þýðir “reyndur”. Í Latínu er þetta oðrið að sagnorð sem merkir “að reyna”.

Og sama hvað ykkur finnst um nafnið okkar, þá munum við reyna að bæta samfélagið: Við munum reyna að opna á umræðu sem hefur alltaf verið bönnuð. Við munum reyna að leggja fram stefnu sem er ekki mörkuð af popúlískum kennisetningum eða eiginhagsmunastefnu, og við munum í öllu nýta okkur reynslu okkar af því að skoða og skilja kerfi samfélagsins á hátt sem aðrir stjórnmálaflokkar geta ekki.

Stuðningur við Pírata er því ekki stuðningur við fáranlega nafngift, heldur stuðningur við frjálslyndan alþjóðahyggjuflokk með skýra stefnu um upplýsingarétt og aukið gagnsæi.