· About 4 minutes read

Ég er ekki öfgamaður lengur

Það getur ekki talist annað en pínlegt þegar maður vaknar við þann vonda draum að vera farinn að teljast hófsamur og jafnvel íhaldssamur. Skoðanir mínar breyttust ekki, heldur breyttist pólitískt landslag á Íslandi.

Einu sinni þótti ég öfgafullur að vera að halda því fram að það þyrfti að endurskoða meiðyrðalöggjöfina á Íslandi. Að það væri kannski eitthvað að því að blaðamenn gætu verið dæmdir til að borga bætur fyrir það eitt að vitna í sögulegar heimildir eða birta viðtöl við fólk. Nú hafa flestir sem fylgjast með fréttum komist að þeirri niðurstöðu að það sé mikilvægt að breyta þessari löggjöf sem allra fyrst, enda er hún misnotuð stöðugt.

Einu sinni þótti ég öfgafullur að vera að halda því fram að frjáls hugbúnaður væri æskilegur, að hann væri ódýrari og betri en séreignarhugbúnaður og við ættum helst ekki að vera að flytja milljónatugi úr landi til aðila sem hafa það að atvinnu að takmarka hvað við getum gert. Nú hafa ríkisstjórnir lagt stuðning við þetta viðhorf, Vinstri Grænir voru að álykta á þennan veg, og ekkert er sjálfsagðara í framhaldsskólum landsins en að notaðar séu frjálsar hugbúnaðarlausnir.

Einu sinni þótti ég öfgafullur að vera að halda því fram að gagnsæi í ríkisrekstri væri æskilegur. En nú eftir þriggja ára baráttu hefur Alþingi stórbætt upplýsingalöggjöfina þannig að almenningur á að geta nálgast gögn í fórum ríkisins með mjög auðveldum hætti, og fjármálaráðherra hefur skipað starfshóp um að opna bókhald ríkisins þannig að almenningur geti rýnt í ríkisbókhaldið. Þó berast mér að vísu fréttir úr Alþingi að þingið þori ekki að halda gagnsæisákvæðinu inní nýju stjórnarskránni.

Sumir tala mikið um normalizeringu: að ef fólk talar um hluti nógu lengi þá fara þeir að lokum að teljast eðlilegir. Oftar en ekki er hugtakið normalizering notað í neikvæðum skilningi: ef fólk horfir á klám finnst fólki klám vera kynlíf (er það satt?). Ef fólk spilar ofbeldisfulla tölvuleiki finnst fólki ofbeldi vera lífið (er það satt?). Ef fólk umgengst vímuefni finnst fólki víma vera raunveruleikinn (er það satt?).

Heimurinn virðist þó hafa normalizerast á hátt sem mér finnst jákvæður: það virðist vera að verða algengara að fólki finnist ég hafa rétt fyrir mér. Nú væri afskaplega auðvelt að detta ofan í hrokafullar fullyrðingar um eigið ágæti, en skoðum frekar stóra samhengið:

Bæði Sjálfstæðisflokkurinn og Vinstri Grænir eru orðnir öfgaflokkar.

Sjálfstæðisflokkurinn náði naumlega núna um helgina að forða sér í orði frá því að vera kristinn öfgaflokkur, í ætt við bandarísku teboðshreyfinguna. Lýsti einn liðsmanna þeirra því yfir í ræðu á landsfundinum að ef lög væru ekki sett eftir kristnum gildum væri möguleiki á því að Sharia lög væru handan við hornið. Ef þetta væri bara spurning um vanskilning á eðli Sharia lagahefðarinnar, en ekki hreinir og beinir fordómar, væri þetta ef til vill skoplegt. En svo ég vitni óbeint í sjónvarpsþættina The Newsroom: Ísland er í jafn mikilli hættu á að falla undir Sharia lög og að falla undir reglur Fight Club.

Öfgakennda ruglið á landsfundi Sjálfstæðismanna var þó ekki bara trúarlegs eðlis. Á alla mögulega vegu hliðraðist þessi gamli íhaldsflokkur svo langt frá allri íhaldssemi og út í hið snargalna að það hálfa væri nóg. Svo það sé á hreinu: það er ekkert íhaldssamt við að vilja eyðileggja velferðarkerfið, sér í lagi í þágu þess að þjónusta hagsmunum auðmanna.

En Vinstri Grænir voru líka duglegir að rugla um helgina. Eitt dæmið um yfirgengilegt rugl kom undir liðnum “kvenfrelsi og fiskveiðar”, sem ég get ekki fyrir mitt litla líf skilið hvernig endaði saman á fyrirsögn. Þar var rætt um það að banna konum að gera það við sinn líkama sem þær vildu í nafni kvenfrelsis. Það er að segja, Vinstri Grænir ákváðu að skerða frelsi fólks á þeirri forsendu að það myndi auka frelsi fólks. Þær öfgar sem komu fram á landsfundi Vinstri Grænna eru sjálfstætt framhald öfgavæðingar sem hefur farið fram þar undanfarin ár, þar sem tilfinningalega mögnuð siðferðisvá er látin ganga rökum framar.

Meðan þessir landsfundir voru í gangi og bulldælurnar látnar ganga bæði hjá hægriöfgamönnum og vinstriöfgamönnum, þá sat ég í litlu húsnæði á Brautarholti ásamt fyrrum MI5 njósnara og hollenskum upplýsingaöryggissérfræðingi, þar sem við ræddum við húsfylli af fólki um þær ógnir sem standa að almenningi í dag vegna aðgerða ríkisstjórna og stórfyrirtækja. Við kenndum fólki að nota sambærilegar dulkóðunaraðferðir við þær sem eru notaðar í hernaði, að fela spor sín á netinu á hátt sem er ekki mögulegt að ritskoða, og tryggja sig gegn ýmsum brotum á friðhelgi einkalífsins sem eru að verða sífellt algengari.

Það er rosalega skrýtið að geta sagt þetta öruggur í þeirri trú að ég sé ekki öfgamaður. Það var kannski sú tíð sem það þótti öfgakennt að reyna að verjast ágang ríkisstjórna og stórfyrirtækja, en sú tíð er liðin.

Ég er ekki öfgamaður lengur.