· About 3 minutes read

Ræfilsháttur Alþingis

Nú þegar ár er í sjötugsafmæli íslenska lýðveldisins hafa íslensk stjórnvöld ákveðið að lýðræði hafi ekkert hlutverk í okkar samfélagi.

Af ótta við málþóf og ómálefnalegri framgöngu veiks meirihluta hefur stjórnin, sem nú heldur minnihluta á Alþingi, ákveðið að setja það ferli á hilluna sem þúsundir íslendinga hafa komið að í gengum árin eftir hrun, sem er eiginlegt ígildi þess að sturta vonum og væntingum heillar kynslóðar niður.

Það er ómögulegt að lýsa á fullnægjandi hátt með orðum þeirri fyrirlitningu sem ég hef á þessum hryðjuverknaði. Um er að ræða eitt skýrasta dæmið á síðari árum um það að pólitíska yfirstétt Íslands er svo veikgeðja að jafnvel í þeim tilfellum þar sem íslandi er ekki stýrt af frændhyglum gróteskukapítalistum með beinum hætti eru óbeinu áhrif þeirra svo yfirgripsmikil að það mætti eins sleppa því að mæta þeim andstöðu.

Stjórnarskrárferlið hefur verið ljós í myrkrinu bæði fyrir Íslendinga sem vilja fá lýðræðislegra og mannúðlegra samfélag í miskabætur fyrir það tjón sem þjóðin beið af hruninu og fyrir fólk um allan heim sem hefur fylgst með okkur af eftirvæntingu í von um að sjá hvað lýðræði 21. aldarinnar hefur upp á að bjóða.

Búið er að skapa, í gegnum þátttökulýðræðisferli sem nýtur heimsathygli, eina bestu tillögu að stjórnarskrá sem hefur sést í sögu mannkyns. Þetta ekki fullkomin stjórnarskrá, en hún er sú besta sem hefur sést hingað til. Kæmist hún í gegnum þingið myndi hún breyta eðli mannlegra samfélaga um allan heim til hins betra.

Ef hún bara kæmist í gegnum þingið.

Það var ekkert óskýrt við þjóðaratkvæðagreiðsluna í haust. Það að ætla sér að túlka niðurstöðurnar á annan hátt en þann sem augljósastur er ber vott af veruleikafælni og óheiðarleika. Krafa þjóðfundarins eftir hrunið var heiðarleiki. Nú skulum við vera heiðarleg.

Er heiðarlegt af stjórnarflokkunum að draga íslenskt samfélag í gegnum margra ára ferli og slútta því á síðustu stundu? Nei, það er óheiðarlegt.

Er heiðarlegt af stjórnarandstöðunni að nota stjórnarskrármálið sem pólitískt barefli og láta sem það ríki um það ósætti? Nei, það er óheiðarlegt.

Er heiðarlegt af íslendingum að sitja undir þessari tegund af sirkúspólítik og láta svo sem það sé ekki annað hægt? Nei, það er óheiðarlegt.

Krafan er einföld og augljós.

Mörg mál mega niður falla fyrir kosningar. Mörg mega bíða betri tíma. Mörg mál mega verða að pólítískum bitbeinum, munnræpuvaldandi þrætueplum og þreytandi þvaðri. Mörg mál mega koma upp sem lækka enn frekar traust almennings til Alþingis, fá fleira fólk til að telja að pólítík sé viðbjóður, og sannfæra fleiri um að það séu bara spilltir asnar sem stjórna landinu.

En ekki þetta mál. Þetta mál verður að fá heiðarlega afgreiðslu. Allt annað er ræfilsháttur. Það er nóg komið af ræfilshætti. Nú eigum við nýja stjórnarskrá skilið.