· About 3 minutes read

Lýðræðisfælni

Ég er í Króatíu, þar sem ég sit ráðstefnu á vegum samtakana GONG um kosningafræði. Ég var með fyrsta fyrirlestur ráðstefnunnar og var svo í pallborðsumræðum með Arsen Bauk, stjórnsýsluráðherra Króatíu, og Peđa Grbin, formann stjórnarskrárnefndar króatíska þingsins.

Umræðuefnið sem okkur var fengið var beint lýðræði og þátttökulýðræði. Bæði Bauk og Grbin gagnrýndu mig harðlega fyrir að vera hlynntur beinu lýðræði, og vísu í það sér til stuðnings að konur hafi mjög seint fengið kosningarétt í Sviss vegna þess að karlar vildu ekki leyfa það.

Ég lét það ógert að benda á hversu gölluð þessi söguskoðun er, en benti heldur á það hversu kaldhæðnislegt það væri að karlar í valdastöðum væru að bera það fyrir sig að karlar hafi ekki viljað afsala sér völdum til að réttlæta hvers vegna þeir vildu ekki afsala sér völdum til almennings.

Þegar umræðunni var lokið og við andstæðingarnir búnir að takast í hendur, þá áttaði ég mig á því að þetta var nákvæmlega sama deila og er að gerast inn á Alþingi núna.

Það eru í grunninn tvær ástæður fyrir því að enn er ekki búið að ganga frá nýrri stjórnarskrá: ný gagnsæis- og lýðræðisákvæði, og auðlindaákvæðin.

Auðlindaákvæðið er í sjálfu sér tilefni til langrar umræðu - sem hefur nú fyrir löngu farið fram á Alþingi - en þar er hreinlega verið að þræta um áframhaldandi einokun auðlinda í þágu sérhagsmuna, eða skilgreining þeirra sem almenningur þannig að allir hafi jafnan aðgang að auðlindum (þótt aðgangurinn geti síðan verið takmarkaður og hagrætt með ýmsum hætti)

Gagnrýnin á gagnsæis- og lýðræðisákvæðin er hinsvegar nákvæmlega sama og Bauk og Grbin gagnrýndu við þátttökulýðræði: “Ó nei! Almenningur mun vita hvað við erum að gera og geta gripið inn í ef þeim finnst við vera að klúðra! Svei!”

Alþingi er í þeirri stöðu að vera að setja sjálfu sér reglur. Þetta heitir hagsmunaárekstur.

Það vill þannig til að aðeins Alþingi getur stjórnarskráarlega tekið ákvörðun um þetta mál eins og er, þannig að þeir verða að klára þetta. Hinsvegar má má uppræta þennan hagsmunaárekstur með einföldum hætti: þingið gengur til kosninga um stjórnarskrármálið strax, og lýtur ákvörðunina sem kom fram í þjóðaratkvæðagreiðslunni.

Alþingi þarf að láta af lýðræðisfælni sinni.

Ef þetta gerist ekki, og þessi fáræðisfásinna nær að fella stjórnarskráarfrumvarpið út af þingi með froðu, fávitaskap og þófi nú rétt í lokin, þá verður stjórnarskrárfrumvarpið lagt fram óbreytt strax í upphafi næsta þings, nái Píratar sætum*. Ekki vegna þess að okkur langi sérstaklega að ílengja þetta rugl, heldur vegna þess að niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslunnar var skýr - alveg sama hvort maður sé með eða á móti - og því ber Alþingi að hlýða henni.

[https://pbs.twimg.com/media/BFtiw7bCMAA5Upo.jpg:medium]()