· About 4 minutes read

Enginn er kjáni í einrúmi

Edward R. Murrow sagði í sinni frægu RTNDA ræðu 1958 að “sú staðreynd að rödd þín sé mögnuð að því marki að hún nái frá einum enda landsins yfir á hinn veitir þér ekki neina meiri visku eða skilning en þú hafðir þegar rödd þín náði aðeins frá einum enda á barnum yfir á hinn.”

Í gær sagði einhver við mig að þessi kosningabarátta væri “fyrsta Facebook kosningabaráttan.” Hún er spiluð á allt annan hátt en hingað til hefur verið gert, af öllum aðilum. Hefðbundnar auglýsingar í hefðbundnum miðlum hafa nánast engin áhrif á fylgi flokka, sem sveiflast til eins og strá í stormi. Hinsvegar eru til flokkar - kannski ekki síst minn flokkur, Píratar - sem hafa náð feiknarlegum árangri með því að tala hreint og beint við fólk og halda uppi málefnalegri umræðu á samfélagsmiðlum.

En samfélagsmiðlarnir gegna líka öðru og dimmara hlutverki. Eitt sinn var það þannig að þegar fólk tjáði sig við vini sína var tjáningin hverful. Minningin stóð ef til vill eftir meðal vinanna en enginn utan hópsins gat nálgast þá umræðu. Sú tíð er liðin. Nú er sístækkandi hluti mannlegrar tjáningar skrásett í gagnagrunna og kortlögð af leitarvélum til frambúðar, og öll sú vernd sem hið hverfula veitti er horfin. Í dag, þegar einhver segir eitthvað kjánalegt, þá verður þess minnst í áraraðir. Þegar einhver talar í bræði er það skrásett. Æ fleiri tjáningar, góðar, slæmar, heimskulegar, djúpstæðar, asnalegar og stórkostlegar, verða eftir í samfélagslega minni okkar - Internetinu - um ókomna tíð.

Samfélagið okkar hefur ekki enn lært að lifa við þannig raunveruleika. Við höfum ekki aðlagast þeirri hugmynd að friðhelgi einkalífsins nær ekki lengur til skoðanna okkar. Á suman hátt er þetta gott: kjánaskapur ef til vill upprætist hraðar, heimskuleg ummæli verða fordæmd harðar, og vitund samfélagsins þroskast betur. En á margan hátt er þetta slæmt. Þegar engar skoðanir eru leyndar er skoðanakúgun mun auðveldari.

Ég ætla ekki að segja að það sé mannréttindi að sýna á sér fávitaskap, eða að það sé í lagi að tala um ofbeldi eins og það sé ekkert tiltökumál, eða að fólk eigi að passa sig á því að viðra sumar skoðanir bara í einrúmi. Ég ætla að segja svolítið annað:

Nú er að fullorðnast heil kynslóð fólks sem hefur lifað allt sitt líf á opinberum vettvangi. Rödd þess hefur náð frá einum enda heimsins yfir á hinn frá því að það fór að hafa getu til að tjá sig. Í því felst að allur mannlegur breiskleiki, hvort sem hann er gamall eða nýr, hefur fangast. Í þessum nýja heimi, þar sem fjórtán ára krakkar smella myndum af sér á samfélagsmiðla þar sem þeir eru í sínum fyrsta sleik, eða fullorðið fólk ákveður að láta í ljós pirring sinn í óvönduðu máli eftir einum of marga bjóra, er ekki til neitt sem heitir hrein forsaga.

Nú er gamla kynslóð stjórnmálanna umsetin af ungu fólki með skuggalega fortíð sína málaða upp um allt net. Þessi gamla kynslóð tilheyrir enn þeim heimi þar sem enginn sagði neitt opinberlega nema eftir rétt námskeið og réttan framgang í gegnum flokkakerfið. Þau tilheyra þeim heimi þar sem litlu ljótu leyndarmálin eru falin, og ógeðslegustu skoðanirnar heyrast ekki nema þegar menn tala af sér.

Þegar unga fólkið stillir sér upp með Pírötum og kallar eftir nýrri stjórnmálahegðun, meira gagnsæi, færri tjáningarhöftum og betri aðgang að ákvörðunartökuferlinu, eru þau ekki að því vegna þess að þau langar til að geta sagt hvað sem er án ábyrgðar. Þau eru að því vegna þess að sá heimur sem þau búa í ætlast til þess að þau séu ofurmannleg, geri aldrei mistök, og sætti sig við það að til sé ósnertanlegt fólk sem þrátt fyrir sinn mikla hroka og sína mörgu vankanta telja sig hæf til að draga línur, skapa reglur, og njörva niður samfélagið allt.

Það getur enginn gengist við því að vera ofurmannlegur.

Nei! Ég er mannlegur. Ég geri mistök. Ég vil bæta mig. Ég vil bæta samfélagið mitt. Ég er Pírati.

Þetta er stríðsópið, sjáiði til. Við búum ekki yfir endalausri visku, við vitum ekki alltaf rétta svarið. Við vitum að það er margt sem mætti betur fara, en við vitum að við getum látið það fara betur ef við vinnum saman. Þrátt fyrir alla okkar ágalla og kannski einmitt vegna þeirra er tími til kominn að ágallar hins gamla upplýsist, og að hinar hliðar samfélagsins verða jafn opnar fyrir kortlagningu leitarvélanna og líf okkar hefur verið.

Við gerum einfalda heimtingu: Gagnsæi, lýðræði, sjálfsákvörðunarréttur. Allt annað þurfum við að ræða, jafnvel þótt fólk æsi sig stundum.