· About 10 minutes read

Fimmti vígvöllurinn

“Stofnum ekki til allsherjarstríðs á aðfangadegi alheimsfriðar” - Ókannaða Landið

Fram til byrjun árs 1913 voru tvennskonar vígvellir í heiminum. Landhernaður hefur fylgt mönnum frá því að samfélög komu fyrst fram. Sjóhernaður varð til um það leyti sem samfélög fóru að keppast um siglingaleiðir eða rekast á önnur samfélög á gagnstæðum ströndum.

Það stríðir kannski gegn söguvitund flestra að það hafi verið Búlgaría sem bjó til þriðja vígvöllinn þegar þeir hófu að henda sprengjum niður úr Bleriot XI flugvélum á borgina Adrianople í Ottóman heimsveldinu. Með þeim gjörningi var himininn orðinn að vígvelli, og síðan þá hefur þróunin verið mikil – orustuflugvélar og sprengjuflugvélar; njósnavélar, hljóðfráar þotur og nú nýlega mannlausar fjarstýrðar flugvélar og flugvélar með gervigreind.

Löngu áður en flughernaður varð til áttaði fólk sig á hættunni. Frá árinu 1863 voru reglur um framkvæmd flughernaðar í alþjóðasáttmálum, og tóku þær stakkaskiptum 1899 og svo aftur 1907. Árið 1923 lögðu bandaríkin til verulegar takmarkanir á flughernaði, en þær náðu aldrei fram að ganga. Í sögulegu samhengi virðist það skoplegt að bandaríkin hafi verið fremstir í því að kalla eftir takmörkunum á flughernaði, enda hafa þeir öðrum fremur náð himininn á sitt vald og hafa beitt flughernaði hve harðast.

Eftir seinni heimstyrjöld var ljóst að þriðji vígvöllurinn var kominn til að vera, en stuttu síðar varð til sá fjórði.


Þegar Sóvétríkin sendu Spútnik á loft opnuðu þeir dyrnar fyrir vopnakapphlaup milli kaldastríðsveldanna sem ætti sér stað ofan Kárman-línunnar (í tæpri 100km hæð yfir jörðu). Geimkapphlaupið átti sér að hluta til stað í nafni vísindanna, en eftir því sem lengra líður frá lokum kaldastríðs sjáum við betur og betur hversu mikill hernaður fór raunverulega fram. Sem dæmi “fann” bandaríski flugherinn tvo risavaxna stjörnusjónauka í stíl við Hubble í geymslu nýverið og gaf þá til NASA, sem hefur sjálft varla haft efni á því að viðhalda einu stykki. Svo virðist sem herinn hafi haft nægilegt fjármagn til geimrannsókna til að smíða sjónauka sem hver um sig var betri en Hubble, og svo gleyma tilvist þeirra í nokkra áratugi.

Strax og stjörnustríðsáætlunin kom fram fóru Sameinuðu Þjóðirnar að krefjast þess að mjög strangar reglur yrðu settar á geimhernað. Geimsamningarnir þrír sem nú eru í gildi virðast á yfirborðinu hafa komið í veg fyrir að sporbraut jarðar – og tunglið – séu gerð að vopnabúrum jarðríkja. Hvað leynist undir yfirborðinu er óvitað: svo mörg gervitungl eru á sporbraut núna, og svo mörg þeirra notuð í leynilegum tilgangi, að það er engin leið að segja með vissu hvað fer þar fram. Þótt ólíklegt sé að þetta sé jafn ýkt og í kvikmyndinni Iron Sky, þar sem öll aðildarríki Sameinuðu Þjóðanna (nema Finnar!) reyndust vera með vopnakerfi á sporbraut þegar á hólminn var komið, þá er nokkuð ljóst að einhver vopnakerfi gætu leynst inn á milli veðurtunglanna og fjarskiptahnattanna.

Hitt er annað mál að geimsáttmálarnir virðast vera að virka. Þó svo að hugsanlega séu vopn í geimnum er bersýnilega ekki verið að nota þau, og þá er markmiðinu náð. Það að engin þjóð vilji sýna að þeir eigi vopnabúr á sporbraut tryggir ákveðinn frið á fjórða vígvellinum.


Síðan Ísland gekk í NATO hafa tveir nýjir vígvellir orðið til í hugum herja. Geimurinn hefur í raun verið til frá upphafi alheimsins, en fimmti vígvöllurinn varð til sem aukaverkun af rannsóknarverkefni í fjarskiptum sem bandaríska varnarmálaráðuneytið framkvæmdi í upp úr 1963.

Internetið hefur öðlast hernaðarlegt mikilvægi langt umfram mikilvægi geimsins. Þetta þétt samofna net tölva, síma og annarra raftækja er bakbein heimsviðskipta, samskipta innan og á milli ríkja, og undirstaða fjölmiðlunar og almennra fjarskipta fyrir sístækkandi hluta jarðarbúa. Áætlað er að í gegnum netið séu stunduð 11 trilljón dollara viðskipti á ári, og þá er ekki talið með viðskipti í gegnum rafrænar kauphallir.

Sjá má dæmi um nethernað, eða rafrænan hernað, alveg aftur til upphafsára tölvunnar. Fólk sá fljótt tækifæri til að láta tölvukerfi hegða sér öðruvísi en þeim var ætlað, og hugtök eins og “vírus” og “trojuhestur” voru tekin upp til að lýsa hegðun ákveðinna forrita. Á svipuðum tíma voru rafrænar símstöðvar að ná fótfestu, og ungir símaáhugamenn áttuðu sig á því að hægt væri að ná stjórn á símstöðvum eða ná fram undarlegum áhrifum á símkerfinu með því einu að senda tiltekna tóna í gegnum símtólið. Eftir því sem tölvur og nettengingar urðu algengari kom betur og betur í ljós að hönnuðir netsins höfðu gleymt einu frekar mikilvægu atriði.

Netið var ætlað sem dreift kerfi sem myndi tryggja áframhald ríkisins ef til kjarnorkustyrjaldar kæmi. Áreiðanleiki netsins átti að sjá til þess að þótt einstakir partar netsins skemmdust væri enn hægt að koma skilaboðum til skila: netið getur leitt framhjá skemmdum. En áreiðanleiki kerfisins fólst alfarið í lögun þess – að tengipunktar voru tengdir hver öðrum á marga vegu. Ekkert hafði verið gert til að tryggja að óvinveittir aðilar gætu ekki komið fölskum skilaboðum fyrir, komið í veg fyrir að skilaboð bærust, eða jú bara lesið skilaboðin án þess að nokkur tæki eftir því. Dulkóðun var eftiráhugsun sem átti að smyrja ofan á eftir þörfum.

Þegar svo netið fór að verða algengara meðal almennings vöknuðu upp spurningar hjá fólki á borð við Tim May og Philip Zimmerman, hvort dulkóðun væri ekki bæði eðlilegur fylgifiskur netsins og nauðsynlegt tól til að tryggja tjáningarfrelsi. En sterk dulkóðun byggð á eiginleikum prímtalna var lagalegum takmörkunum háð. Bandarísk yfirvöld höfðu áttað sig á hernaðarlegu mikilvægi sterkrar dulkóðunar og ákváðu að útflutningur á dulmálskerfum skyldi vera sömu takmörkunum háð og útflutningur á kjarnorkuvopnum.

Það var ekki fyrr en 1998 sem þessu útflutningsbanni var lyft, að loknum mörgum stórum dómsmálum. Aflétting bannsins gerði netið tilbúið fyrir raunveruleg viðskipti, og með því sama raunverulegan hernað.


Í Haag-sáttmálanum frá 1907 var kveðið á um að ekki skyldi gera árásir úr lofti á bæi, þorp eða aðrar mannabyggðir. Þetta skilyrði hljómaði skynsamlega en gerði ekkert nema tryggja að samningurinn héldi ekki. Það er mikil óskhyggja fólgin í reglum sem segja að einungis herir og vopn þeirra séu gjaldgeng hernaðarleg skotmörk. Alla tíð hafa borgir og markaðir verið stór hluti af hernaðaráætlunum. Sagt hefur verið að aðferð Mongóla til að tryggja að enginn gæti gert árás aftan á her þeirra meðan hann sveipaði yfir Asíu var að skilja hreinlega engan eftir lifandi fyrir aftan sig. Landvinningar Babýlóníumanna, Fönikkumanna, Egypta, Grikkja og Rómverja voru öll byggð á því að eyðileggja markaði sem þeir komu til, uppræta gjaldmiðla og viðskiptasambönd sem voru til staðar, og skapa ný í þeirra stað.

Ástæðan fyrir því að geimurinn hefur ekki orðið að raunverulegum vígvelli er að hann er ekki nógu verðmætur fyrir neinn - enn sem komið er. Ríki njóta nægilega jafns aðgangs að geiminum, þótt þau séu misvel búin til að nýta aðganginn. Þau þurfa ekki að keppa við hvert annað þar.

Á sömu forsendum sést að netið er óskavígvöllur allra hershöfðingja. Fimmti vígvöllurinn er ofinn úr hrárri þekkingu. Þegar markaður er skemmdur í gegnum netið eru skemmdirnar djúpstæðar og langvarandi. Þegar innviðir eru eyðilagðir gegnum netið er allt að því ómögulegt að auðkenna gerandan. Á netinu er ekki hægt að gera efnislegan greinarmun á hryðjuverkamönnum og ríkisstjórnum, á barnaníðingum og bönkum. Hið hernaðarlega og hið menningarlega falla saman svo þétt að eingöngu upplýsingar ná að smeygja sér á milli þeirra.

Undanfarin ár hafa stjórnvöld víða í heiminum farið að leggja metnað í gerð netvopna af ýmsum toga. Það er misjafnt eftir löndum að hverjum vopnunum er beint. Í sumum löndum virðast óvinir ríkisins vera þegnar þess. Í þýskalandi hefur ríkisstjórnin kostað gerð trojuhests sem hefur verið sett inn á tölvur fólks sem á leið um flugvelli og þegar þau hafa verið stöðvuð af lögreglu. Trojuhesturinn aflar upplýsinga um notkun tölvunar og sendir til eftirlitsaðila.

Þessi trojuhestur, sem kallaður hefur verið “bundestrojan,” er varla einstakur. Þótt ýmis önnur lönd hafi farið þá leið að njósna bara um nettengingar borgara sinna eru margir sem stunda löggæslu sem vilja nánari rýni til að sniðganga dulkóðaðar tengingar, alveg óháð öllum mannréttindum.

En mikilvægari flokkur netvopna hefur verið að koma fram: sérsniðnar veirur á borð við Flame, Stuxnet, og Gauss. Flame var hannaður til að kortleggja innri netkerfi Írans, brjóta sér leið í gegnum hinar ýmsu öryggisráðstafanir og finna veikleika. Stuxnet var þróaður til að nýta marga áður óþekkta veikleika í mörgum mismunandi tegundum kerfa, ásamt upplýsingunum sem Flame safnaði, til að komast inn í Natanz kjarnorkuverið og eyðileggja þar skilvindur sem ætlaðar voru til að hreinsa úran. Ólíkt fyrri tveimur var Gauss var ekki beint gegn Íran, né heldur hefur komið í ljós hver smíðaði veiruna eða hvers vegna. Hún gekk berserksgang í bankakerfi Lebanons og njósnaði um bankareikninga og viðskiptavini þar, að öllum líkindum í þeim tilgangi að reyna að kortleggja peningaflæði Hezbollah.

Þetta sýnir breidd og eðli netvopna ágætlega: njósnaforrit, forrit sem eyðileggur áþreifanlega innviði, og forrit sem eyðileggur óáþreifanleg grunnkerfi.

Í ráðleggingum mínum til breska varnarmálaráðuneytisins um hvað eigi að gera varðandi “netvopn” benti ég þeim á að “netvopn” eiga meira sameiginlegt með njósnurum og skemmdarverkamönnum en með árásarherjum. Það er mjög undarlegt og hugsanlega hreinlega hættulegt hversu margir vilja líta svo á að hér séu herir að mætast. Þetta gerir það að verkum að ríki heimsins eru að einbeita sér að því að túlka hvar línan er dregin þar sem árásir falla undir Law of Armed Conflict.


Á þingfundi NATO í Búkarest í október 2011 var lögð fram skýrsla um netvarnir þar sem lagt var til að undir ákveðnum kringumstæðum væri heimilt að hefja “kínetíska” árás með hefðbundnum vopnum sem andsvar við netárás. Hver skilyrðin eru fyrir slíku andsvari hefur ekki verið gefið út. Samkvæmt kenningunni er það í þeim tilgangi að koma í veg fyrir að einhver gangi nálægt mörkunum og valdi skaða, en uppfylli vísvitandi ekki öll skilyrðin fyrir gagnárás.

Þetta er eitt af mörgum dæmum um alþjóðlegar og yfirþjóðlegar stofnanir og þjóðríki að vígbúa fimmta vígvöllinn. Bandaríkin hafa sitt US Cyber Command, kínverska ríkisstjórnin er að stunda netárásir á bandarísk tæknifyrirtæki á borð við Adobe og Google. NATO stofnaði Cooperative Cyber Defence Center of Excellence í Tallin eftir að Eistland varð fyrir mjög stórtækri netárás, að því er talið er frá Rússlandi. Bæði Indland og Pakistan hafa stofnað “net her”. Hervæðing Internetsins er hafin.

Afleiðingarnar eru alvarlegar. Veikleikar netsins eru nú þegar verulegir, og stafa af óöruggum kerfum og misnotkun á því óöryggi. Kreditkort eru í eðli sínu óöruggt greiðsluform og því verður ekki breytt, og fyrir vikið eru kreditkortasvik staðlaður hluti af glæpastarfsemi á netinu. En skipulagðir glæpir eru hluti af hagkerfinu sem þeir misnota – eins og blóðsugur gerir það þeim ógagn að drepa hýsilinn. Ef hagkerfi netsins myndi hrynja stæðu skipulagðir glæpahópar uppi án tekjustofns. Herir hafa á hinn boginn enga slíka hagsmuni: þeim er sama um afdrif hagkerfisins sem þeir starfa innan, svo fremi sem hernaðarlegum markmiðum er náð og möguleikinn á sköpun nýrra hagkerfa er til staðar.

Það er einfeldingslegt að líta bara á netið sem hagkerfi, en það er á margan hátt auðveldasta greiningin. Sú samþætting við alla þætti daglegs lífs sem netið hefur náð á undanförnum árum gerir það í senn að mikilvægasta vígvellinum til framtíðar litið, en um leið þann brothættasta. Það er ekki hægt að undirstrika nógu oft mikilvægi þess að tryggja að hervæðing netsins eigi sér ekki stað. Enn sem komið er hefur enginn lagt til að netsáttmáli verði gerður á svipaðan hátt og geimsáttmálarnir, en jafnvel þá er ekki víst að það myndi hafa nein áhrif. Meðan Bandaríkin og Ísrael telja sig stafa ógn af Íran og Kína, og Indland og Pakistan steyta hnefum hvor við annan, er vígbúnaður netsins nokkuð tryggður, sama hverjar aukaverkanirnar verða.


En það eru til möguleikar í stöðunni. Vígbúnaður háloftanna gat af sér flugiðnaðinn, sem nú ber tugir milljóna farþega um heiminn í hverjum mánuði. Mikið af þeirri heimsvæðingu á menningu sem hefur orðið í heiminum, og sá aukni skilningur og það bræðralag sem heimsvæðingin ber með sér, eru bein afleiðing af aðgengi almennings að ódýrum flugferðum. Aðgengi að netinu virðist vera jafn byltingarkennd leið, ef ekki byltingarkenndari, til að slá saman mannkynið í sameiginlegan menningararf til að deila friði. Það eitt og sér er nægjanlg ástæða til að leyfa ekki hervæðingu netsins. Við megum ekki við því að stofna til allsherjarstríðs á aðfangadegi þess alheimsfriðar sem netið býður. Við verðum að leyfa netinu að þróast án afskipta frá hernaði, og veita því gott heimili allsstaðar þar sem það sprettur upp.

Íslendingar ættu því að beita sér fyrir netsáttmála í Sameinuðu Þjóðunum sem tekur mið af þessum ógnum og þeim möguleikum sem netið býður. Við ættum að hvetja þjóðir heims til að vígbúast ekki en taka bara upp varnir, og að alvarleg viðurlög verði við netárásum milli landa. Íslendingar hafa ríka hagsmuni af því að tryggja frið á netinu, og hver veit nema þar skapist grundvöllur til að ræða frið á hinum vígvöllunum fjórum – og öllum þeim framtíðarvígvöllum sem kunna að finnast.