· About 6 minutes read

Rökvillublæti Brynjars

Ég hef undanfarið leitast við að sinna þeirri hlið vinnu minnar sem á sér stað utan landsteinanna, og fyrir vikið verið lítið virkur í íslenskri pólitískri umræðu. Hluti af ástæðunni fyrir því er að mig langaði til að fá smá tilfinningu fyrir því hvernig nýtt þing myndi líta út og hvernig nýja ríkisstjórnin myndi hegða sér, áður en ég færi að gera einhverskonar veður.

Veðrið sem ég finn mig knúinn til að gera núna snýr að Brynjari Nielssyni, sem hefur unnið sér það til frægðar fram yfir öllum öðrum þingmönnum þessa þings að vera algjörlega ófær um að fullyrða nokkuð án þess að það felist í því rökvilla.

Ef við tökum til að mynda nýjustu grein hans á Pressunni, “Af hverju ekki allan hagnaðinn?”, þá leggur hann upp með það afbrigði ad hominem rökfærslu að eigna Jóni Steinnsyni þann smættunareiginleika að vera ungur - þetta er lúmsk leið Brynjars til að gefa til kynna að ekki sé mark takandi á Jóni, sem er greinilega of ungur til að vita nokkuð þrátt fyrir að vera dósent við Columbíuháskóla. Minnst er á Ameríku í einhverskonar níðtilgangi, án þess að undirritaður skilji hvernig það á að virka.

Hafandi svo veikt andstæðing sinn gengur hann fram með þá einfaldlega röngu fullyrðingu að veiðigjaldið gangi út á að taka “næstum allan” hagnað útgerðarinnar inn í ríkissjóð. Þetta er ekki rökvilla, heldur vitfirring: Brynjar slengir fram svona fullyrðingum án tilvísana í neinar staðreyndir, að hluta til vegna þess að staðreyndirnar vinna gegn honum. Aðrir hafa gert því góð skil með hvaða hætti veiðigjaldið tekur af hreinum hagnaði útgerðanna, en þó ekki “næstum allan” hagnaðinn. Spyrja mætti hvað orðið “næstum” merkir í þessu samhengi.

Því næst byrjar Brynjar á skemmtilegu rökvillunum. Hann reynir að búa til rökfærslu sem kölluð er reductio ad absurdum, en mistekst herfilega - enda er sú rökfærslutækni einkar vandmeðfarin. Í stað þess að sannfæra lesandann um að það að taka “næstum allan” hagnaðinn sé jafngilt því að taka “allan” hagnaðinn, nær hann helst að sannfæra lesandann um að hann sé öfgafullur vitleysingur sem telur svart og hvítt einu möguleikana. Þá tekur hann hálu brekkuna fyrir af kostgæfni, og leggur til að allur hagnaður annarra fyrirtækja sé tekinn upp líka. Svo hristir hann hausinn yfir þessu öllu saman og slengir fram þeirri skemmtilegu rökvillu að halda að þar sem hann skilur ekki rök andstæðingsins þá séu rökin ekki til staðar.

Þarna hefur Brynjar á þremur stuttum efnisgreinum náð að gera svo margar rökvillur að það mætti leggja greiningu greinarinnar fyrir sem heimaverkefni í rökfræðinámskeiði á framhaldsskólastigi.

Vandamálið hér er ekki að Brynjar sé órökvís, því ætla má að hann sé það ekki. Reynsla hans og árangur af störfum í sem lögmaður í hæstarétti eru sterk vísbending um að hann geti betur, því ef hann komst í gegnum langt starf sem hæstaréttarlögmaður með svona rökfærslutækni er það áfellisdómur yfir Hæstarétti.

Ég ætla að gefa mér það að hann hljóti að geta betur, hreinlega því mér finnst hinn möguleikinn of hrikalegur til að leggja hugsun við í augnablikinu. Þá neyðist maður til að spyrja, hvers vegna í ósköpunum er hann þá að þessu?

Ef álpappírskollhúfum væri dreift um salinn gæti einhver mögulega lagt það til að Brynjar sé í raun útsendari Katrínar Jakobsdóttur, og hafi þann tilgang að draga úr trúverðugleika hægrimanna, en þeim möguleika ætla ég að hafna.

Þá stendur eftir tvennt: annað hvort heldur hann að fólk trúi þessari vitleysu, eða hann er að reyna að gera sitt besta til að verja óverjandi málstað.

Ég get ekki í fljótu bragði útilokað þann möguleika að Brynjar Nielsson sé slíkur hrokagikkur að hann haldi almenning vera svo fávísan að lepja upp rökleysurnar sínar af einskærri trúgirni, en seinni valkosturinn hljómar líklegari.

Það er nefnilega oft þannig með fólk sem er vant því að sigra á röksemdum að þegar það kemst í aðstæður þar sem það getur ýmist stutt sig við röksemdir eða sigrað, en ekki hvort tveggja, þá kýs það frekar sigurinn. Flokkshollusta, hugmyndafræði, og hreinir hagsmunir spila sennilega sinn þátt líka.

Bak við rökleysuna má þó sjá glitta í það sem Brynjar er að reyna að halda fram. Hann er, eins og margir íhaldsmenn þessa daganna, búinn að kynna sér svokallaða Laffer kúrvu, sem sýnir að það er einhver punktur þar sem skattar eru orðnir það háir að þeir letja fólk frá þátttöku í hagkerfinu. Tilvist þessarar kúrvu er ekki mjög umdeild, en lögun hennar og hátindur eru bæði umdeild og óþekkt. Það er líka algengt að fólk haldi lögunina vera óháða öllu öðru, en flest bendir til þess að ýmsir aðrir eiginleikar hagkerfisins, samfélagsins, og stjórnkerfisins hafi heilmargt með lögunina að gera - það er ekki bara til ein Laffer kúrva, heldur ógrynni af kúrvum sem falla að kenningu Laffers, sem hver um sig getur komið upp eftir því sem aðstæður breytast.

Það sem Brynjar virðist ekki átta sig á er að röksemdafærslan hans - jafnvel að öllum augljósum rökvillum slepptum - er röng. Hann er að leggja það til að eigendur útgerðanna muni hreinlega hætta að nenna þessu ef þeir geta ekki fengið margra milljarða króna hagnað á hverju ári út úr nýtingu auðlindanna úr hafinu umhverfis Ísland, því enginn vilji starfa án hagnaðar. Þetta er rangt því það er ekki verið að tala um að uppræta hagnað, heldur að uppræta rentur: það er ákveðinn hluti hagnaðarins sem er ekki talinn til “hreins hagnaðar” fyrirtækisins sem deilist niður á starfsmennina í útgerðinni - þú veist, þessa sem vinna raunverulegu vinnuna. Það er ekki verið að tala um að taka af þeim hagnaði. Sá hagnaður sem er verið að tala um að taka af er það sem fer umfram það. Sá hagnaður verður til að hluta til vegna skorts á auðlindinni, og að hluta til vegna þeirrar einokunarstöðu sem eigendur kvóta hafa á markaðnum. Það er hreinlega ekki hægt að kaupa fisk úti í búð eða á fiskmarkaði öðruvísi en að fá hann frá handhafa kvóta. Það eru einmitt þeir sem ráða verðlagi fisksins. Þeir geta pumpað verðið upp töluvert mikið - en rétt eins og með Laffer kúrvuna kemur vissulega punktur þar sem verðið er orðið svo hátt að fólk hættir að vilja kaupa.

Í raunveruleikanum, þessum sem við búum í, munu aðstæður vissulega breytast eftir því sem hinar ýmsu Laffer kúrvur breytast í lögun sinni. Hvort sem það er okurkúrva útgerðarinnar eða skattkúrva stjórnvalda þá er það þannig að meðan ofurgróði er til staðar mun einhver hirða hann. Brynjar vill að útgerðarmennirnir fái tugir milljarða á ári í verðlaun fyrir það eitt að eiga kvóta, og færir þau rök að án tugmilljarða krónu verðlaun muni útgerðarmenn ekki sjá sér neinn hag í rekstrinum. Þeir sem eru hlynntir veiðigjaldinu vilja að útgerðarmenn fái ágætis hagnað, en að meginþorri þeirrar upphæðar sem ávinnst hreinlega vegna einokunarstöðu útgerðanna sé greiddur til samfélagsins sem ákvað að leyfa útgerðarmönnunum að fá þessa einokunarstöðu til að byrja með.

Orðað öðruvísi: þetta snýst ekki um skatt eða ekki skatt, heldur bara hvort útgerðirnar einar fái að njóta góðs af því að útgerðirnar skattleggi neytendur.

Þetta er einmitt ekki þannig að ríkið er að heimta eitthvað fyrir ekkert. Ef einokunarrétturinn sem felst í kvótanum væri einskis virði værum við ekki að eiga þetta samtal.

Mögulega þjáist Brynjar Nielsson af hreinu rökvillublæti, en ég held að það sé af þessu öllu hægt að draga þá ályktun að hann sé ekki svo rosalega vitlaus. Hann vill bara ekki horfast í augu við raunveruleikann.