· About 3 minutes read

Jólamatur

Á vef Viðskiptablaðsins í gær var nafnlaus bloggfærsla sem sagði að “Pírötum er þröngur stakkur sniðinn í vali á jólamat,” með tilvísan til könnunar MMR sem sýndi að stuðningsmenn Pírata eru öðrum líklegari til að vera frumlegir í matarvali sínu um hátiðarnar. Hélt bloggfærslan áfram og fullyrti að úrvalið á jólamat takmarkaðist “örugglega við það sem hægt er að panta á netinu,” því Píratar séu svo rafrænir, og að það þurfi þá að vera “Fair Trade” vottað og hægt að greiða með Bitcoin.

Verandi frekar húmorslaus þá skildi ég ekki alveg hvað var átt við með greininni. Ég fór því á stúfana í leit að hamborgarhryggjum á netinu. Þeir sem þekkja mig vel vita að það er fátt sem mér finnst jafn gott og hamborgarhryggur, en ég veit einmitt um frábæran stað í Hamborg til að fá slíkan hrygg ódýran og góðan.

Í fljótheitum fann ég fín tilboð frá Miðskersbúinu á 1760 kr/kg, og vistvænt svínakjöt frá Bjarteyjarsandi á 2400 kr/kg. Einnig rakst ég á þessa grein í Mogganum sem segir að það hafi aldrei verið jafn mikil eftirspurn í vörur beint frá býli. Það er gleðiefni! Stytting boðleiða milli framleiðenda og neytenda þýðir betri gæði, betra verð, og að framleiðandinn fær meiri tekjur. Milligöngumennirnir þurfa að vísu kannski að herða beltið.

Hvað “Fair Trade” varðar veit ég frekar lítið. En til að reyna að finna eitthvað sem uppfyllir þær kröfur skoðaði ég vefsíðuna nattura.is þar sem ég fann tvö bú sem eru með svinakjöt í heimaslátrun, Miðskersbúið og Holtselsbuið. Það eru örugglega einhverjar aðrar kröfur til “Fair Trade” svínakjöts, en ég veit ekki hverjar þær eru. Snýst “Fair Trade” ekki annars bara um sanngjörn viðskipti þar sem bændurnir fá vel borgað fyrir sína vöru?

Verandi sjálfur í Serbíu núna um jólin þá lá ljóst fyrir, áður en ég lagði í þennan leiðangur um hið skrýtna Internet sem Viðskiptablaðsmenn virðast svo hræddir við, að ég yrði að sætta mig við eitthvað annað en hamborgarhrygg, þannig að ég mun fá mér pečenica ásamt brúnuðum kartöflum, sósu og með því í kvöld með nokkrum vinum. Pečenica er einmitt reyktur hryggur af svíni sem er svo soðinn… svakalega útlenskt og framandi eitthvað!

http://www.kotlenik-promet.com/media/products/big/2011_09_02_85005_DSC_6620.jpg

Ég sá ekki neitt býli sem tók við Bitcoins, en það er fínt, þar sem ég er að spara, enda fjölmargir barir og veitingarstaðir í Berlín, þar sem ég verð um áramótin, sem taka við greiðslum í Bitcoins. Hver veit nema maður fái sér einn áramótaöl á Room 77 (ætti að kosta c.a. 0.004 Bitcoin á núgengi!).

Það eru margar fjölskyldur á Íslandi sem kjósa kannski að borða eitthvað annað en það hefðbundna á jólunum, eða fara í villibráðina svo sem gæsir, rjúpur, endur eða hreindýr. En það eru líka aðrar fjölskyldur sem hreinlega hafa ekki efni á því að leggja út fyrir hamborgarhrygg - sé fjölskyldan stór getur kjötið eitt og sér farið upp fyrir fimm þúsund krónur áður en farið er að kaupa meðlæti eða nokkuð annað. Hvort stuðningsmenn Pírata séu í meiri fjárhagserfiðleikum en aðrir veit ég ekki, enda lá meira á hjá MMR að gera könnun um jólamat en efnahagsaðstæður fólks. Vonandi er stakkurinn ekki allt of þröngt sniðinn hjá fólki!

Fólk með jafn mikinn skilning á viðskiptum og Viðskiptablaðsmenn ætti að vita að fólk velur hvað það kaupir út frá þeim forsendum sem það hefur, og það er fátt jafn slæmt og einsleitur markaður. Fátækt er alvarlegt vandamál á Íslandi og víðar í heiminum, og það verður varla upprætt með því að beita fólki félagslegum þrýstingi til að borða tiltekna tegund matar á tilteknum degi ársins - né neinum öðrum af þeim aðgerðum sem virðast falla í kramið hjá Framsóknarmönnum.

En að öllu gríni slepptu, þá vona ég að allir fái gott að borða núna á jólunum, sem og alla aðra daga! Gleðileg jól!