· About 3 minutes read

Fjölmiðlar og Ríkisstjórnin

Maímánuð 2010 var ég í Ungverjalandi. Þar vann ég með fulltrúum Sameinuðu þjóðanna, Evrópusambandsins, Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu, háskólum, fjölmiðlum, frjálsum félagasamtökum og öðrum stofnunum að því að þrýsta á ungversk stjórnvöld að falla frá hugmyndum sínum um nýja fjölmiðlalöggjöf. Löggjöfin myndi gefa hinni nýju ríkisstjórn Viktors Orbán gríðarlegt vald til að beita fjölmiðla sektum og krefja þá um ákveðnar tegundir umfjöllunar, sem við óttuðumst að myndu verða notaðar til ritskoðunar og takmörkunar á tjáningarfrelsi almennt. Eftir marga langa fundi og endalausar viðræður var það auðséð að ríkisstjórnin ætlaði ekki að falla frá þessum fyrirætlunum.

Nú fjórum árum síðar - á kosningaári þar í landi - er orðið ljóst hversu alvarlegur ósigur okkar var. Fjölmiðlafrelsi í Ungverjalandi hefur minnkað allverulega. Samkvæmt Freedom House var Ungverjaland í 40. sæti (“free”) yfir þau lönd heims sem höfðu mest fjölmiðlafrelsi árið 2010, en árið 2013 var það komið niður í 74. sæti (“partly free”). Á kaffihúsi í Brussel stuttu síðar heyrðist hlakka í nokkuð þekktum pólskum íhaldsmanni, sem sá fyrir sér “Orbáníseringu Evrópu”. Með því átti hann væntanlega við takmarkanir á fjölmiðlafrelsi, hagræðingar á stjórnskipan, og innmúrun sinna áhrifa.

Á Íslandi myndi aldrei neitt slíkt gerast, er það?

Það lá fyrir nánast frá fyrsta degi að núverandi ríkisstjórn Íslands yrði ríkisstjórn eiginhagsmuna, hagsmuna vina sinna, og engum öðrum yrði greiði gerður. Ég á enn eftir að sjá nokkra einustu ákvörðun tekna sem gagnast almenningi, að nokkurt einasta loforð hafi staðist, að nokkur einasta fullyrðing væri annað en lauf í vindi. Ég hef eingöngu séð hegðun siðlausra lygara og valdníðinga.

Undir stjórn þessa fólks hefur Ísland byrjað að undirgangast “Orbáníseringu”. Endurskipan í stjórn RÚV í gær var ekki fyrsta merki þess, en það var sterkasta merkið hingað til: ríkisfjölmiðillinn skyldi vera undir ægiafli stjórnvalda. RÚV verður þar með hallt undir þá fjölmiðlun sem ríkisstjórninni þóknast. En RÚV er ekki eini fjölmiðill Íslands. Einnig er til Morgunblaðið, sem sjálfritskoðaði sig á dögunum eftir að hafa birt “fyrir mistök” grein sem hentaði ríkisstjórninni illa, og Vísir/Fréttablaðið, sem breyttu fyrirsögn í sannleikshagræðingarskyni. Það dylst engum sem skoðar hegðun Árvakurs og 365 Miðla hvar þeirra hollusta liggur.

Hvað er þá eftir? Það er einna helst “slúðursnepillinn” DV, sem þrátt fyrir arfaslakan orðstír hefur verið eini fjölmiðillinn á Íslandi í nokkur ár sem stundar rannsóknarblaðamennsku af einhverju viti - ef RÚV er stöku sinnum frátalið. Nýtt á vígvellinum er Kjarninn, sem er að gera nokkuð góða hluti með nýstarlegum hætti. Grapevine er yfirleitt nokkuð beitt, en útgefið á ensku, með litla dreifingu utan 101 og dulbúið sem túristatímarit, nær það lítið að hafa áhrif á umræðuna á landsvísu. Svo eru ýmsir aðrir smámiðlar sem tekur varla að telja til.

En þessum fjölmiðlum er öllum ákveðin hætta búin. Þegar ný fjölmiðlalög voru að ganga í gegn á Íslandi 2011, varaði ég við því að ýmislegt í lögunum gæti hugsanlega verið hættulegt ef fasistastjórn kæmist til valda á Íslandi. Lítið var gefið fyrir slíkar dómsdagsspár, enda Ísland gjörólíkt Ungverjalandi. Er það ekki?

Til að lýðræði virki þarf almenningur að hafa tvennt: Greiðan aðgang að réttum og nákvæmum upplýsingum, og getu til að hafa áhrif á ákvarðatöku. Ríkisstjórn Íslands er langt komin með að koma í veg fyrir lýðræði.