Contents

Til hvers er persónuvernd?

Contents

Persónuvernd og friðhelgi einkalífsisns eru mikilvæg málefni, um það geta allir verið sammála, en hinsvegar eru uppi allskonar hugmyndir um nákvæmlega hvað persónuvernd er. Stjórnmálamenn og aðrir, ekki síst stofnunin Persónuvernd, fleygja hugtakinu til og frá án þess að veita neina haldbæra skýringu á því hvað nákvæmlega persónuvernd er. Vefsíða Persónuverndar er hvergi með neina skilgreiningu á hugtakinu, eftir því sem ég get best séð.

Hvernig er hægt að vernda persónulegar upplýsingar einstaklinga og friðhelgi einkalífsins ef við vitum ekki nákvæmlega hvað það er?

(Í afgangi þessarar greinar ætla ég að nota orðið “persónuvernd” í sömu merkingu og enska orðið “privacy”)

Það er mjög erfitt að skilgreina persónuvernd, að hluta til vegna þess að íslenska orðið er víðfemara í eðli sínu en merkingin á að ná til – hvort er verið að vernda persónuna sjálfa eða bara þær upplýsingar sem koma persónunni við? Einnig er erfitt að skilgreina persónuvernd vegna þess að skilgreining segir okkur ekki hvers vegna við ættum að vernda friðhelgi einkalífsins á annað borð.

Réttari spurning er því: Til hvers er persónuvernd?

Þetta er mjög pragmatísk spurning, þar sem að hún neyðir okkur til að útskýra hvaða gagn er af því að vernda persónuupplýsingar og hvers vegna við viljum nokkuð vera að því.

Ég hef undanfarna mánuði leitað að góðu svari við þessari spurningu sem samræmist mínum skoðunum, og það besta sem ég get sagt er:

Persónuvernd er tálmun á upplýsingaflæði með það markmið að vernda persónulegt öryggi eða félagslega stöðu einstaklings.

Það sem mér finnst gott við þessa skilgreiningu er að hún talar ekki um einhver háloftahugtök eins og siðferði, réttlæti eða þannig. Þetta er einfalt: Við verndum persónuupplýsingar til að koma í veg fyrir að fólk sé drepið eða á annan hátt líkamlega skaðað, og til að forða fólki frá félagslegri útskúfun.

Fyrra atriðið skiptir augljóslega meira máli, en seinna atriðið er flókið og vandmeðfarið – því óska ég eftir tillögum um betra orðalag. Vandinn við að tala um að tálma megi upplýsingar sem geti skaðað félagslega stöðu einstaklings er að stundum er félagsleg staða einstaklings sködduð af skynsamlegum ástæðum þegar þessar upplýsingar komast út. Hvort sem það er spilling hjá stjórnmálamönnum, eiturlyfjafíkn, barnahneigð, eða skipulögð fjársvik, þá er bæði réttast og best að samfélagið viti af því sem fyrst og geti brugðist við.

Hinsvegar er alveg rétt að stundum er viðeigandi að grípa til ráðstafana til að vernda félagslega stöðu einstaklinga.

Ef við ímyndum okkur að á tíma þrælahalds í Ameríku hafi svartir menn verið útlitslega óaðgreinanlegir frá hvítum, nema með því að skoða hvort viðkomandi hafi tiltekinn fæðingarblett undir hægri il. Enginn litarhaftsmunur eða munur á vaxtarlagi. Þá hefði “svartur” maður getað verndað sitt persónuöryggi með því að neita að sýna hægri il sína – og forðast þannig þrældóm, sem getur jú verið lífshættulegt, en er oftast nær bara erfitt, ósanngjarnt, lítillækkandi, og mannskemmandi. Auðvitað er erfiðara að tálma upplýsingar um litarhaft fólks, og því varð samfélagið að breytast til að jafna rétt allra einstaklinga.

Þetta dæmi er skemmtilegt vegna þess að þegar þjóðarmorðin voru í Rwanda, þá komu þau til af því að tveir ættbálkar, útlitslega óaðgreinanlegir frá hvor öðrum, ákváðu að hinn yrði að vera útrýmdur. Tutsiar og Hutuar börðust mjög grimmilega, en hvernig þekktu þeir hvorn annan í sundur?

Þannig var að í Rwanda á þessum tíma var skylda að ganga með vegabréf, og í vegabréfinu stóð frá hvaða ættbálki fólk var. Þannig gengu hópar vopnaðra manna inn í þorp, spurðu um skilríki, og skutu þá sem ekki voru með rétt svar í vegabréfinu. Einhverjir myndu segja að það væri í þágu persónuverndar að hafa ekki upplýsingar um ættbálk í vegabréfinu. En hvað ef stríðið hefði gengið út á aldur, eða heimabæ?

Mögulega mætti umorða þetta svona:

Persónuvernd er tálmun á upplýsingaflæði sem snýr eingöngu að málefnum einstaklingsins, með það markmið að vernda persónulegt öryggi eða félagslega stöðu einstaklings.

Þetta er strax betra, því þetta gefur til kynna að um leið og upplýsingarnar byrja að hafa áhrif á aðra í umhverfinu, þá séu þær ekki lengur persónuupplýsingar. Þannig náum við að vernda upplýsingar um ættbálk, dvalarstað og þessháttar án þess þó að samþykkja það að spilling sé utan við það svið sem samfélagið ætti að mega kanna.

Þetta er tiltölulega flókið mál, eins og sést, en áður en hægt er að tala á skynsaman hátt um tjáningarfrelsi verðum við að afgreiða persónuverndarmálefnið á þannig hátt að við vitum öll nákvæmlega um hvað við erum að tala, og það sé á einfaldan hátt hægt að sannreyna hvort að tilteknar upplýsingar séu persónuupplýsingar eða ekki.