Contents

Ný stjórnarskrá í Kenya

Contents

Ný stjórnarskrá hefur verið samþykkt í Kenya með 67% stuðningi landsmanna (mbl, Kenyan Broadcasting Corporation). Þetta er ágætis stjórnarskrá að ýmsu leyti, og ég hef óskað vinum mínum í Kenya til hamingju með hana, en þó eftir að hafa kynnt mér hana fyrir nokkrum vikum verð ég að viðurkenna að ég er pínu hræddur við eina þróun sem er í henni.

Þannig er að þetta er fyrsta stjórnarskráin í heiminum sem gerir hugverkarétti sérstaklega hátt undir höfði. Margar ef ekki allar gildandi stjórnarskrár heims hafa ákvæði um eignarrétt, en þetta er sú fyrsta sem gefur hugverkarétt gildi umfram hefðbundinn eignarrétt.

Þannig á ríkið skv. grein 11.2c að “promote the intellectual property rights of the people of Kenya”, og grein 40.5 segir að “the state shall support, promote and protect the intellectual property rights of the people of Kenya”

Ellefta greinin þar fellur undir málaliðnum “menning”, en stór þáttur í þessari útfærslu er sameignarréttur á menningararfleið – það er að segja, hugverk sem telja til menningararfleiðar landsins eru ekki í almenningi, heldur varin sérstaklega með sameignarrétti. Röksemdafærsla höfunda virðist vera að undanfarin ár hafi verið gefin út einkaleyfi í vesturlöndum á Kenyískum hönnunum á borð við kiondo, sem er tegund af ofinni leðurtösku (einkaleyfi veitt til japansks fyrirtækis). Einnig
reyndi breskt fyrirtæki að skrásetja vörumerkið “kikoi”, sem er tegund af Kenyískum hefðbundnum klæðum. En þar sem þessi leyfi eru veitt alþjóðlega þá er ekki að sjá að nokkur stjórnarskráarvarin hugverkaréttindi geti haft nokkuð um þau að segja – tilgangurinn hlýtur hreinlega að vera einhver annar.

Nú skal ég leyfa mér að fara út í smávægilegar getgátur. Bandarísku- og Evrópsku fyrirtækin og samtökin sem beita fyrir sér hugverkarétti fremur en nýsköpunargáfu eða gæði (héreftir: hugverkamafían) hafa séð sér hag í því að hvetja til þess með einhverjum hætti að Afrisk lönd, sem hafa verið að verulegu leyti laus undan vestrænum hugverkarétti (ekki alfarið þó), taki up slíkar varnir til að hægt sé að takmarka dreifingu hugverka í þeim löndum, sem skapar þeim ný markaðssvæði fyrir hugverkamafíuna, annars vegar, og hinsvegar gefur það þeim færi á að
hvetja til aukinnar hörku í meðferð hugverkamála á vesturlöndum á grundvelli nýrrar tölfræði um hugverkastuld á heimsvísu, sem myndi eflaust margfaldast ef að Afrísk lönd færu allt í einu að taka upp slíkar reglur.

Það að koma þessu inn í stjórnarskrá Kenya, ýmist með því að sannfæra Kenyíska embættismenn sem sömdu tillöguna, múta þeim, eða á annan hátt koma þeim í skilning um ágæti þess að taka inn slíkar ráðstafanir, er þá fótfestuaðgerð fyrir hugverkamafíuna, en um leið og þetta hefur tekið í gildi í Kenya verður hægt að þrýsta á önnur Austur- og Mið-Afrísk lönd á að fara sömu leið.

Ég veit ekki að hve miklu leyti þessar getgátur geta verið sannar, en meðal þeirra sem ég hef rætt um þetta við virðist þetta ekki vera talið allt of ólíklegt.

Er einhver ástæða til að halda að hugverkamafían muni ekki beita samskonar aðferðum hér á Íslandi þegar að til stjórnlagaþings kemur? Hafandi átt í illdeilum við fólk í þeirra röðum lengi veit ég hversu siðlausir þeir eru oft – ég man sérstaklega vel eftir því að fulltrúi sænskra rétthafasamtaka sagði eitt sinn að “barnaklám er frábært, því stjórnmálamenn skilja það, og við getum notað það til að fá þá til að ritskoða hvað sem er.”

Þetta er alvarlegt vandamál, en við munum sennilega ekki vita almennilega hvernig fer fyrr en að fleiri austur-Afrísk lönd keyra út sínar stjórnarskrár – enda er það til umræðu í nokkrum þeirra.

Amelia vinkona mín skrifaði góða grein um þetta málefni í TechDirt fyrir nokkru (enda vakti hún fyrst athygli mína á þessu vandamáli).