Contents

Laumulega vegið að frelsinu

Contents

Ég kom heim í gær frá Budapest, þar sem ég var á ráðstefnunni Internet at Liberty 2010. (Hér er liveblog frá Jillian C. York af umræðum sem ég tók þátt í um verndun þjóðaröryggis í samhengi við tjáningarfrelsi á netinu; hér er upptaka af því). Þar kynntist ég svo mörgu góðu fólki að ég hef ekki enn getað áttað mig almennilega á því – ég þakka Google og Central European University fyrir að hafa haldið ráðstefnuna og boðið mér að vera með.

Á ráðstefnunni var fólk frá 71 landi, og meðal annars var verulega stór hópur af fólki frá löndum eins og Azerbaijan, Túnis, Egyptalandi, Íran og Indónesíu, fólk frá stöðum þar sem það getur verið tekið af lífi fyrir að hafa skoðanir. Þar var mikið rætt um getu ríkisins til að ritskoða, getu ríkisins til að fangelsa fólk og beita því alvarlegum líkamlegum refsingum, pynta það og svelta. En allt þetta var rætt í samhengi við það að nú höfum við Internetið, ótrúlegt verkfæri sem gerir jafnvel fólki í slíkum löndum kost á að láta heyra í sér. Internetið gaf þessu fólki ekki rödd, þau höfðu rödd. Internetið gaf þeim bara gjallarhorn.

Þegar maður heyrir í svona fólki er auðvelt að fara í þann ham að við höfum ekki yfir neinu að kvarta á vesturlöndum, en staðreyndin er sú að þó svo að fólk sé ekki myrt og pyntað á vesturlöndum fyrir skoðanir sínar, nema í afar takmörkuðu mæli, þá er ritskoðun og frelsissvipting enn stunduð, bara með mun gætilegari hætti.

Nýlegt dæmi: Gallo-skýrslan var samþykkt á Evrópuþinginu í fyrradag, þrátt fyrir hávær mótmæli frá frjálsa samfélaginu. Meðan málfrelsissinnar sendu mörg bréf á þingmenn og báðu um að skýrslunni yrði hafnað með öllu, þá var hópur um hundrað kvikmyndagerðarmanna sem sendi bréf sem studdi upptöku skýrslunnar – þar voru nokkur fræg nöfn á borð við László Kovács, David Lynch, Ibolya Fekete og Attila Janisch. Það sem kom þó í ljós við nánari rýni er að László Kovács dó fyrir þremur árum, og margir aðrir sem voru nöfn á því blaði höfðu aldrei heyrt um Gallo skýrsluna, hvað þá skrifað undir hana.

Það sem gerir Gallo skýrsluna hættulega er að hún leggur til að höfundalagabrot verði gert sakhæft. Sem stendur eru hugverkalagabort nær allsstaðar tekin sem einkamál frekar en sakamál, sem þýðir að viðurlög eru sektir og aðeins í örfáum löndum fangelsisvist, en verði þetta gert að sakamálum þá þýðir þetta að ríkinu ber skylda að reka öll slík mál fyrir dómstólum, til hins ýtrasta, jafnvel í þeim klunnalegu tilfellum þar sem að, til dæmis, barn syngur popplag á bekkjarkvöldi hjá sér í skólanum án þess að greiða rétthafa, og fólk sem fundið sekt fer á sakaskrá og mun til dæmis ekki geta boðið sig fram til þingsetu eða álíka. Fangelsun verður þá staðalbúnaður í refsingum við slíkum brotum.

Þetta kann að virðast fullþungt. Það er vegna þess að þetta er það. Með þessari stefnu er verið að setja fólk sem deilir þekkingu og menningarafurðum á milli sín á sömu hillu og nauðgara, morðingja og dópsala. Einhverjir munu halda því fram að þetta verði aldrei svona slæmt, að þetta sé formsatriði og að tíu ára skólastelpur verði ekki ákærðar fyrir að láta vinkonur sínar frá USB lykla með nýjasta Justin Bieber lagið, en það er enginn grundvöllur fyrir slíkum fullyrðingum – lög um sakamál eru einkar skýr á svona atriðum; yfir alla brotlega skal réttað. Sem betur fer er þetta langt frá því að verða að lögum í Evrópu, en Gallo skýrslan leggur til að IPRED2-tilskipunin verði tekin upp sem allra fyrst til að stemma stigum við ólöglegri starfsemi sjóræningja á netinu, enda geti slíkt komið í veg fyrir mikið tekjutap hjá útgáfufyrirtækjum.

Í Ungverjalandi voru margir æfir yfir þessu – ég horfði á einn vin minn bókstaflega snúast í hringi öskrandi af reiði þegar hann frétti að þetta hafði verið samþykkt. Sá hinn sami er Ungverskur málfrelsisbaráttumaður sem á við ögn stærra vandamál að etja þessa daganna.

Þannig er að um tuttugu ár síðan að Ungverjaland varð að því lýðræðissamfélagi sem það er í dag, en fall kommúnismans leiddi til þess að mikil uppsveifla var í hægri-pólitík, með meðfylgjandi kynþáttahatri, íhaldssemi og þjóðernishyggju. Hægri öfgaflokkurinn sem nú ræður ríkjum í Ungverjalandi er með um 67% sæta á þjóðþinginu, og hefur því getu til að breyta lögum eftir hentisemi, en hefur auk þess getu til að breyta stjórnarskránni eftir hentisemi, þar sem þar í landi þarf ekki að slíta þingi til að henni sé breytt, heldur eingöngu að aukinn meirihluti (tveir þriðju) samþykki breytingar.

Nú er verið að skrifa nýja stjórnarskrá fyrir landið bak við luktar dyr, og verður hún tekin upp í mars 2011 að öllu óbreyttu. Stjórnarskráin mun að öllum líkindum fara án vandræða í gegnum þingið nema verulegar sviptingar verði á næstu mánuðum, og svo mun forsetinn, sem er einnig gæðingur sama flokks, samþykkja hana, og stjórnarskrárdómstóllinn sem mun sinna kærum vegna breytinganna er einnig fullskipaður vinum ríkisstjórnarinnar.

Þegar maður hittir Ungverja á næstu mánuðum er viðeigandi að segja við þá: “ők szar” (borið fram “yk sar”).

Það er erfitt að gera sér í hugarlund hvað muni standa í nýju stjórnarskrá Ungverja, en það er ljóst að það verður ekki allt fallegt og gott. Sumir eru vongóðir, enda verið að skipta úr stjórnarskrá frá kommúnistatímabilinu sem er varla mikið betri, en eins og einn Ungverji komst að orði við mig, þá er það eina sem hefur bjargað landinu frá því að steypast í glötun það að ríkisstjórnin getur ekki gert upp við sig hverja þeir hata mest, gyðinga, sígauna eða homma. Krafa evrópuþingmanna frá þessum flokk um að Trianon sáttmálinn yrði felldur úr gildi og Ungverjaland fengi sín gömlu landamæri aftur var að sjálfsögðu hundsuð, en hún lýsir vandamálinu ágætlega.

Hér er á ferðinni svolítið undarlegt vandamál. Meðan að stríðsástand var í Evrópu og allt það slæma sem var að gerast var uppi á yfirborðinu, þá gat fólk gert sér grein fyrir vandamálunum án mikils erfiðis. Nú er stöðugleiki og lífsgæðin há, og því horfa Evrópubúar og Amríkanar á miðausturlönd, mið- og suðaustur-Asíu og Afríku til að sjá hvar allt er slæmt. Fyrir vikið er samfélagið okkar mjög veikt fyrir því að fólk vegi laumulega að frelsi okkar.

Það versta við þetta er að þegar skerðingar eiga sér stað hér vestra, skorið smátt og smátt á réttindi okkar, þá magnast áhrifin annarsstaðar. Þegar menn eins og Kadafi, Kadyrov og Ahmadinedjad eru gagnrýndir fyrir allt það sem þeir gera illt, þá geta þeir í auknum mæli sagt, “hah, þið sakið okkur um mannréttindabrot og hlúið svo að ríka fólkinu ykkar meðan þið fangelsið þá fátæku…”

Þetta er snúið. Auðvitað er þetta snúið. En við verðum að vera vakandi og meðvituð, og berjast til síðasta manns.