Viðleitni siðferðisins
Í nýlegri grein sinni kvað Haukur Arnþórsson stjórnsýslufræðingur Wikileaks vera fyrirtæki með tvöfallt siðgæði, en eins og allir vita er tvöfallt siðgæði eitthvað sem nánast ekkert fyrirtæki hefur – flest hafa þau nú ekki einusinni einfallt siðgæði.
Ég vil frekar líta á Wikileaks sem kúbeinið í verkfærakistu þeirra sem vilja að upplýsingar séu aðgengilegar og að stjórnsýsla sé gagnsæ. Mörg önnur verkfæri eru til staðar, svo sem upplýsingalög (PDF) sem er sem bitlaus og ryðgaður vasahnífur sem þarf að fara að skipta út, og verkefni forsætisráðuneytisins um upplýsingasamfélagið, sem er mjög svo glansandi og fínt skrúfjárn sem virðist þó ekki samsvara sig við neinar af þeim lausu skrúfum sem finnast í stjórnkerfinu.
Maður notar kúbein ekki sem sitt fyrsta val. Kúbeinið sparar maður, og notar eingöngu þegar allt annað bregst. Allir óttast eyðileggingarafl kúbeinsins, og við sem fáumst við upplýsingaaktivisma af öllu tagi vitum að því á ekki helst ekki að beita. Ég vildi glaður búa í heimi þar sem við þyrftum aldrei á fyrirbærum eins og Wikileaks að halda, og ég er nokkuð sannfærður um að sú vitundarvakning sem hefur orðið á síðastu tveimur árum sé skref í átt að því að leggja kúbeinið endanlega til hliðar.
Mörg af þessum verkfærunum okkar Hauks og hinna í bransanum eru stórfín til síns brúks og er gagnrýni mín á þau ekki síst beint gagnvart okkur sem reynum að nota þau dagsdaglega í stað þess að skipta þeim út fyrir önnur og betri verkfæri. Þingsályktunartillagan sem hann vísar til, sem ég var einn höfunda að, er einmitt tilraun til að smíða betri verkfæri.
Kaupverð aukins tjáningarfrelsis
Haukur talar um í grein sinni að hætta felist í því að í framtíðinni verði gagnaver á aflandseyjum þannig að mismunandi gluggar á tölvuskjá birta gögn frá mismunandi lagaumhverfum. Þannig er það nú þegar.
Þegar þú ferð á Facebook ertu ýmist að starfa undir Breskum eða Bandarískum lögum, mögulega hvort tveggja, en það er erfitt að fá úr því skorið. Þar er jafn erfitt að fá úr því skorið hvort að Facebook megi á annað borð, samkvæmt evrópskri löggjöf, deila upplýsingum sem koma inn um breska gagnaverið sitt til hinna amerísku. Það hvaða lagaumhverfi þú ert í þegar þú skoðar vefsíður er mjög misjafnt eftir því hvar vefsíðan er geymd. Með aukinni notkun gagnavera getur sama vefsíðan verið hýst í Malasíu eina stundina, á Spáni aðra, og verið komin til Kalíforníu eftir hádegi, allt eftir því hvar raforkuverð er ódýrast í heiminum og hvernig viðrar.
Í stuttu máli er alheimsvæðingin, með aðstoð Internetsins, búin að flækja lagaumhverfin gríðarlega.
Þegar fyrirtæki ætlar nú að setja sig á koppinn verða þeir að taka tillit til þess hver lögfræðikostnaðurinn sinn verður, og hvernig upplýsingar þau munu fást við, og hvernig ríkisstjórnir hinna ýmsu landa eru að hegða sér þann daginn. Þau verða að gera ráð fyrir ótal atriðum með ærnum tilkostnaði.
Til að gera þessa þróun verri þá eru ríkisstjórnir allsstaðar að takmarka tjáningarfrelsi verulega með ýmsum hætti. Í Bandaríkjunum færist það í aukanna að lén séu gerð upptæk af ýmsum sökum, yfirleitt vegna höfundalagabrota – sem er álíka og að föt innbrotsþjófa væru gerð upptæk á þeim grundvelli að þjófarnir hefðu tæplega getað brotist inn naktir. Í Evrópu hefur Cecilia Malmström, kommissar innri markaðarins, lagt til að öll aðildarlönd Evrópusambandins verði skikkuð til að koma upp leynilegum ritskoðunarlistum undir því yfirskyni að verið sé að berjast við barnaklám, en fyrir mér hljómar þetta eins og verið er að sópa vandamálið undir teppið. Nánast sama hvert litið er finnast dæmi um auknar tilraunir stjórnvalda í öllum löndum til að skammta ofan í fólk upplýsingar og stýra Internetinu.
Nú eru aðilar út um allan heim sem hafa ríka hagsmuni af því að Internetið sé frjálst og opið, að upplýsingar flæði óhindraðar, og að stjórnvöld starfi á gagnsæan og ábyrgan hátt. Þessir aðilar eru margir hverjir með djúpa vasa og dýpri sannfæringu, sterka réttlætiskennd og mikið baráttuþrek, en allir eiga þeir það sameiginlegt að eiga ekki lengur í nein hús að venda.
Tillagan um að bæta íslensk lög til að vernda þær hugsjónir sem við eigum flest sameiginleg er því ekki bara heimspekilegur hanaslagur. Fyrir liggja bein viðskiptasjónarmið sem samræmast fullkomnlega öllum þeim alþjóðasamningum sem Ísland er aðili að. Til dæmis gaf Evrópuþing út yfirlýsingu 7. júlí síðastliðinn að áðurnefnd þingsályktunartillaga “gefi bæði Íslandi og Evrópusambandinu kost á að styrkja stöðu sína með
tilliti til lagalegrar verndar tjáningarfrelsis og upplýsinga”.
Kaupverð aukins tjáningarfrelsis er nefnilega ekki hátt. Þvert á móti munum við fá borgað með því.
Löghlýðni netverja
Árið 1996 lýsti John Perry Barlow yfir sjálfstæði Internetsins. Hann reit:
“Ríkisstjórnir iðnaðarheimsins, þið þreyttu risar holds og stáls, ég kem úr netheimum, nýja heimili hugans. Fyrir hönd framtíðarinnar, bið ég ykkur úr fortíðinni um að láta okkur í friði. Þið eruð ekki velkomin á meðal oss. Þið hafið engin yfirráð á okkar söfnunarstað.”
Netverjar eru tiltölulega löghlýðnir einstaklingar upp til hópa. Þeir byggja löghlýðni sína ekki á ótta við refsingar, eins og hefð er fyrir í kjötheimum, heldur á samfélagsvitund sinni. Krafa Barlows um að ríkisvald héldi sig fyrir utan netheima kom til af réttmætum ótta hans við að ríki sem og fyrirtæki myndu sölsa undir sig völd og nota þau til að takmarka aðgengi almennings að þeim samskiptakerfum sem við þurfum að hafa og þeim upplýsingum sem við þurfum að fá til að hugmyndin um lýðræði geti þrifist.
Hugmynd Upplýsingarinnar var tvíþætt – annarsvegar lýðræði, og hinsvegar, sem oft gleymist, upplýsing. Við höfum verið að horfa upp á lýðræðið deyja mjög rólega síðan það fæddist andvana í frönsku byltingunni, enda var móttökunefndin bjúrókrati í ljósmóðursgæru. Internetið hefur gefið okkur tækifæri til að gæða lýðræðinu nýju lífi með því að tryggja öllum aðgang að upplýsingum, en það gerist ekki fyrr en við höfum tryggt okkur tjáningarfrelsi.
Vissulega eru lög stundum brotin í þágu þess tjáningarfrelsis, en um er að ræða glæpi án lögmætra fórnarlamba, þar sem siðferðiskenndin veitir náðarlausn. Netverjar eru nefnilega sæmilega gagnrýnir, og þegar þeir sjá lög sem eru í gargandi ósamræmi við eðli heimsins, við siðgæðiskennd sína eða við þá þjóðfélagsskipan sem okkur hefur verið sagt að við búum við, þá verður þeim lögum ekki undir neinum kringumstæðum hlift til þess eins að stjórnsýslufræðingar finni ekki baun undir skrifborðsstólnum sínum.