Contents

Sannfærið mig, ekki ljúga að mér

Contents

Ég hef alltaf reynt að leiða Icesave umræðuna hjá mér; það er hreinlega of margt annað sem ég myndi frekar vilja gera en að pæla í því með hvaða móti samfélagsvæðing skulda eigi að fara fram. Í grunninn er ég andvígur slíku. Kapitalismi fyrir hina fátæku og kommúnismi fyrir hina ríku er hentistefna sem hentar mér ekki, enda tilheyri ég sennilega fyrri hópnum.

En í Icesave umræðunni sem nú er í gangi finnst mér vera furðulegar umræður í gangi. Fólk sem barðist hatræmt gegn fyrri Icesave samningnum og sló niður öll rökin fyrir því að það ætti að samþykkja hann er nú að nota nákvæmlega sömu rök til að hvetja fólk til að samþykkja nýja samninginn.

Fyrir þann sem hefur óljósa sýn á málinu þá virðist sem ákvörðun hafi verið tekin, fyrir fyrri þjóðaratkvæðagreiðsluna, að allir skyldu segja “nei”. Nú er eins og ákvörðun hafi verið tekin um að allir skuli segja “já”, og það þrátt fyrir að forsendubreytingin sé ekki skýr og engin tilraun hafi verið gerð hjá valdhöfum til að skýra í hverju munurinn liggur.

Það að ákvörðun hafi verið tekin um að fólk skuli segja já kemur til dæmis skýrt fram í því að RÚV flutti fréttir af því að 60% hafi sagst ætla að samþykkja Icesave samninginn í könnun sem Capacent gerði. Fréttin þar var ekki þetta háa hlutfall, heldur það að 58% aðspurðra neituðu að taka afstöðu – þessu var sleppt út úr fréttinni. Svona atriði er ekki sleppt nema í pólitískum tilgangi. Maður hefði í það minnsta haldið að á sínu 81 tilvistarári hafi RÚV lært eitthvað um framsetningu skoðannakannana (þótt enn sé ekki komið staðlað framsetningarform á því á vef RÚV, merkilegt nokk!). Svonalagað er fyrir neðan virðingu allra fjölmiðla.

Oftast hef ég verið talsmaður þess að fólk kynni sér málin áður en gengið er til kosninga, en að þessu sinni þykir mér ljóst að allir sem sögðu “nei” í fyrri atkvæðagreiðslunni eigi að halda sig við það val, nema að þeir sem eru að ýta á eftir jáinu geti skýrt með sannfærandi hætti í hverju munurinn felst, og án þess að beita fyrir sig óljósum handaveifingum, hvers vegna dómstólaleiðin sé óraunhæf.