Contents

Gengið á reiki

Contents

Uppfærslur neðstFyrir fólk sem ferðast er farsíminn orðinn algjör lífsnauðsyn. Bæði til að halda sambandi við fólkið heima og samstilla hittinga með fólki á staðnum, svo ekki sé talað um að flétta upp landakortum og gera netleitir að stöðum þar sem er hægt að nálgast nauðsynjavörur, góða díla eða skemmtileg partý.

Á undanförnum mánuði er ég búinn að vera á ráðstefnuferðalagi um allar tryssur, með mislöngum dvölum í mörgum löndum. Í sumum löndum hef ég útvegað mér SIM korti til að lækka kostnaðinn, en oft og sérstaklega undanfarið þá hefði ég þurft að vera með tvo síma til að geta gert slíkt (eða jú síma sem tekur tvö SIM kort), þar sem að það er til fólk sem þekkir númerið mitt og þarf oft að geta náð í mig og veit ekki endilega um þá staði þar sem ég tilkynni um ný símanúmer.

Þannig að ég er á reiki.

Það er að segja, ég er stórnotandi á reikisamningum símfyrirtækisins sem ég versla við, Vodafone – ef ekki samkvæmt þeirra stöðlum þá í það minnsta mínum eigin. Í týpískum ferðalagsmánuði er ég að fá heildarsímreikninga upp á 15-25 þúsund, sem er aðeins of mikið fyrir minn smekk.

Í hvert skipti sem ég kem inn í nýtt land (nema Belgíu virðist vera) fæ ég SMS: “Almennt minutuverd fyrir simtol innanlands og heim til islands er 77,09 kr. Minutuverd fyrir mottekid simtal er 29,65 kr. Fardu varlega i nidurhal gagna”.

Þessi tala, 77,09 kr/mínútu, hefur verið að elta mig sem draugur um alla Evrópu, og að sjálfsögðu hef ég farið varlega í niðurhal gagna, enda er ekkert gefið til kynna um hvað það kostar mig. En verandi svona eins og ég er, og sérstaklega eftir að hafa heyrt hryllingssögu um 10 evru inneign sem gufaði upp á nokkrum mínútum frá vinkonu minni í Berlín, ákvað ég að grafast aðeins fyrir í því hvers vegna þessi tala var valin.

Þannig er að í kringum 2004 fór framkvæmdastjórn Evrópusambandsins að fetta fingur út í hinn himinháa kostnað við reikiþjónustu. Þrátt fyrir hvatningu bæði fyrir luktum dyrum og svo neytendaverndarvefsíðu sem framkvæmdastjórnin setti upp í 2005 þá gerðu símafyrirtækin í Evrópu enga tilraun til að lækka hjá sér verðin. Dæmi voru um allt að 2000 krónu kostnað fyrir 4 mínúta löng símtöl. Viviane Reding útbjó þá reglugerð sem almennt er kölluð Eurotariff, en heitir formlega reglugerð 717/2007/EC, eða “Regulation (EC) No 717/2007 of the European Parliament and of the Council of 27 June 2007 on roaming on public mobile telephone networks within the Community and amending Directive 2002/21/EC”.

Þessi reglugerð gildir á öllu EES svæðinu, en það var viðbót sem var ákveðin í Október 2007, og hefur reglugerðin gilt á Íslandi síðan 1. janúar 2008.

Sîðan að reglugerðin tók gildi hafa verið síauknar þrengingar á hámarkskostnaði á mótteknum símtölum, símtölum innan EES svæðisins, á sendingu SMSa, á gagnaflutningsgjöldum vegna netnotkunar og fleira í þeim dúr. Á tímabilinu 1. júlí 2010 til 30. júní 2011 er almennt hámarksgjald fyrir símtöl ekki bara innanlands heldur innan alls EES svæðisins, þar með talið heim til Íslands, €0,39 á mínútu. 1. júlí 2011 mun þetta svo lækka í €0,35/mínútu.

Jafnframt gildir sú regla að fyrstu 30 sekúndurnar eru alltaf taldar, en frá og með 31. sekúndunni er hver sekúnda talin. Þannig verður hámarks-lágmarkskostnaður tæplega 20 evrusent fyrir hvert símtal – þ.e., hámarkskostnaður sem má láta fólk greiða að lágmarki fyrir símtalið.

Ég fór að reikna. Miðað við 77,09 kr mínútugjald og €0,39 hámarksgjald, þá mætti ætla að gengið á krónunni væri reiknað sem 197.66 kr á hverja evru (ISK/EUR). Í ljós kemur að ef miðað er við hærra gengi, til dæmis gengi seðlabanka Evrópu frá október 2008, sem var um 290 ISK/EUR, þá væru Vodafone langt undir hámarkinu samkvæmt reglugerðinni og væru að standa sig vel.

En nú kemur upp vandamál. Reglugerðin segir (mín feitletrun):

The charge limits set out in this Regulation are expressed in Euro. Where charges governed by Articles 3 and 4 are denominated in other currencies, the initial limits pursuant to those Articles shall be determined in those currencies by applying the reference exchange rates prevailing on 30 June 2007, as published by the European Central Bank in the Official Journal of the European Union. For the purposes of the subsequent reductions in those limits provided for in Article 3(2) and Article 4(2), the revised values shall be determined by applying the reference exchange rates so published one month preceding the date from which the revised values apply.

Hér er sem sagt verið að vísa í viðmiðunargengi seðlabanka Evrópu. En eftir hrunið á Íslandi hætti seðlabanki Evrópu að gefa út viðmiðunargengi fyrir íslensku krónuna – það hefur hún ekki gert síðan 3. Desember 2008. Þá var gengið um 290 ISK/EUR eins og áður sagði, en viðmiðunargengi Íslandsbanka nú fyrir helgi var 168.26 ISK/EUR, og gengi Seðlabanka Íslands í dag var  162.90 ISK/EUR. Þannig að við hvaða gengi á að miða?

Ég sendi bæði Vodafone og Símanum póst til að spyrja. Bréfið hljómaði þannig:

Komiði sæl,

Ég óska eftir upplýsingum um gengið sem Vodafone notar við útreikninga
á reikigjöldum innan EES svæðisins í samræmi við reglugerð 717/2007/EC.
Einnig óska ég eftir upplýsingum um hvernig það gengi var ákveðið.

Kveðja,
Smári McCarthy

Ég gaf þeim að vísu bara einn virkan dag til að svara áður en ég gafst upp og hringdi í Vodafone – ég vona samt að ég fái svör, og ég skal bæta þeim við þegar þau koma. [Maður verður mjög hratt óþolinmóður og skapstirrður á því að vera inní Evrópuþingi - ég er búinn að hertaka skrifstofu vinar míns þar út þessa viku… meira um það síðar.]

Konan sem svaraði hjá Vodafone var hjálplegari en ég átti von á, enda spurningin hvorki augljós né get ég trúað því að hún sé algeng. Hún sagði mér að það væri samkvæmt þjónustusamningi (sem ég fann hvergi á vefsíðunni þeirra) miðað við gengi Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (IMF) og uppfært 23. hvers mánaðar, en þó væri ekki gerð gjaldskrárbreyting nema að gengisbreytingin væri meira en 5% frá því gengi sem hafði verið miðað við í síðustu gjaldskrárgerð. Það hljómar fullkomnlega ásættanlega, en hvað er þá gengið?

Á vefsíðu IMF eru öll gengi gefin upp miðað við SDR (sérstök dráttarréttindi). Gengið 23. mars sl. á EUR og ISK voru 1.123600 EUR/SDR og 180.941000 ISK/SDR. Þá fær maður gengi ISK/EUR sem c.a. 161.036.

Hvað eru þá 77.09 krónur margar evrur? Jú, €0.4787, sem er 22.7% hærra en hámarkið samkvæmt reglugerðinni. Hvernig liggur það fyrir móttekin símtöl? 29.65 ISK eru €0.1841, sem er einmitt nákvæmlega 22.7% hærra en hámarkið samkvæmt reglugerðinni.

Þá vakna tvær aðrar spurningar: 1. Hefur verið meira en 5% flökt síðan að síðasta gengi var ákveðið, og 2. Er heimild fyrir slíkri flöktsreglu í reglugerðinni?

Svarið við fyrri spurningunni er svolítið áhugavert. Hámarksgengið sem við reiknuðum áðan, þ.e., ef að rukkað væri í botni og 77.09 kr/mínútu væri rétt, var 197.66 ISK/EUR. Það er nákvæmlega 22.7% hærra en gengið 23. mars sl., en þá er klárlega meira en 5% flökt síðan að verðskránni var síðast breytt.

Ég fann hvergi tilvísun í neinar prósentureglur í reglugerðinni. Eina ákvæðið þar sem minnst er á gengi er 4. efnisgrein 1. greinar reglugerðarinnar. Ég fór að skoða stjórnartíðindi til að sjá hvort að þetta væri eitthvað sérstakt í íslensku útfærslunni á þessari reglugerð, sem á Íslandi heitir Nr. 1046/2008 – Reglugerð um alþjóðlegt reiki á almennum farsímanetum innan EES-svæðisins og er frá 28. október 2008, en þar er heldur ekkert sérstakt, bara bein tenging við reglugerð 717/2007/EC.

Er Vodafone þá að ofrukka mig fyrir reikikostnað um tæplega 23%?  Sennilega, já. Það er eflaust hægt að þræta um það samt. Vandamálið hérna er ekki Vodafone, og það er ekki ætlunin að varpa neikvæðum skugga á þá – þeir eru alveg fjári nógu duglegir að gera það sjálfir. Vandamálið er að Vodafone og Síminn, sem er með nákvæmlega sömu verðskrá fyrir reikisamband, eru að nýta sér það til fulls að það ríkir fullkomin óvissa um hvað sé rétt. [Ég hef ekki skoðað verðskrár Nova eða Tal. Símafélagið birtir ekki reikigjöld á síðunni sinni.]

Hér setur Evrópusambandið reglugerð sem vísar á tiltölulega skýran hátt í gengistöflu hjá banka sem ákvað svo að hætta að birta gengi krónunnar. Í heimi þar sem væri hægt að treysta á Póst- og fjarskiptastofnun til að sinna sínu hlutverki (eða, tja, jafnvel einhverju hlutverki) mætti ætla að þeir hefðu gripið inn í, lagt mönnum línurnar og framfylgt reglugerðinni með sterku eftirliti, en það virðist heldur ekki hafa gerst.

Hvernig er þetta vandamál þá leyst? Það þarf nokkra hluti, að mínu mati:

  • Vodafone og Síminn þurfa að athuga mjög vel hvort að þeir séu að ofrukka um 22.7%. Sé það reyndin eiga þeir að lækka reikningana bakvirkt til 28. október 2008, þegar reglugerðin tók gildi á Íslandi. Sé það ekki rétt þá ættu þeir að gera grein fyrir sínum reiknireglum með tilvísanir í viðmiðunartöflu fyrir gengi á vefsíðum sínum, en jafnframt birta alltaf í gjaldskrám sínum fyrir reiki EES svæðisins gengið á evrunni sem þau miða við.
  • Póst- og fjarskiptastofnun ætti að athuga hvernig eftirliti þeirra er háttað og reyna að gera betur grein fyrir því. Það væri jafnvel eðlilegt að gerð væri krafa um að gjaldskrár sem falla undir reglugerð 717/2007/EC séu birtar ásamt gengisupplýsingum á einhverjum miðlægum stað.
  • Fjármálaráðuneytið ætti að beita sér fyrir því að seðlabanki Evrópu fari að birta gengi á krónunni aftur, enda örugglega á fleiri stöðum sem reglugerðir gera slíka tilvísun á vafasaman hátt.

En nú er annað, fyrst ég er byrjaður. Vodafone fór nýlega að auglýsa að það væri €50 þak á gagnasamskiptum í gemsum – þ.e., að eftir €50 væri sjálfvirkt lokað fyrir samskipti og hægt að opna það aftur (eða stilla það öðruvísi) eftir smekk notanda. Þeir hafa talað um það sem einhverskonar frábæra nýjung sem taki gildi 1. apríl (sl.). En viti menn! Í þessari sömu reglugerð, 717/2007/EC er skýrt kveðið á um að nákvæmlega þetta verðþak taki gildi 1. júlí 2010, og gildi um öll símafyrirtæki innan EES svæðisins fyrir reikisamninga út um allan heim. Noh! Þetta þýðir að:

  • Vodafone eru búnir að græða á því að vera í trassi við þetta ákvæði frá júlí 2010 til apríl 2011. Úbbs!
  • Síminn hefur ýmist nákvæmlega sama þak, eða þá þau eru ekki ennþá búin að útfæra það. Úbbs?

Ég hlakka rosalega til að sjá hvað gerist. Kannski er allt með feldu og ég að missa af einhverjum mikilvægum upplýsingum. Fullkomnlega mögulegt. Líklegt? Ég held ekki.

Ef að fulltrúar Vodafone, Símans, Póst- og fjarskiptastofnunar eða annarra sem eru hlutaðeigandi vilja skrifa svar við þessu skal ég glaður birta það hérna (en áskil mér rétt til að bæta við athugasemdum frá sjálfum mér líka), enda er markmiðið ekki að valda vandræðum heldur bara að tryggja neytendum þá vernd sem þau eiga skilið og leysa þetta klunnalega vandamál.

**Uppfærsla: **eftir að ég birti þetta í gær höfðu nokkrir samband við mig og bentu mér á ýmislegt. Eitt atriðið er að €50 gagnakostnaðarþakið var útfært á réttum tíma af Símanum. Mjög gott. Sá sem sagði mér það sagði líklegt að þetta hafi líka verið gert af Vodafone en nýja herferðin þeirra snúist fyrst og um að nú geti fólk stillt það. Annar sagði mér að hann hafði traustar heimildir fyrir því að genginu gagnvart öllum fjarskiptafyrirtækjum væri stýrt af Póst- og fjarskiptastofnun. Nú vil ég gjarnan vita hvort að þetta sé satt, því það væri verulega skrýtið. Hvers vegna í ósköpunum ætti póst og fjar að vera að potast í gengi? Það væri svosem alveg eftir þeim…