Contents

Endalok stóra samfélagsins

Contents

Báðum megin Atlantshafs eru fjármálaógöngur að aukast.

Bandaríska ríkið er eitt fárra í heiminum sem hefur þak á heildarríkisskuldum, en þakið er sem stendur um 14.4 þúsundir milljarða dollara (um 1.6 milljón milljarðar króna). Því þaki hefur verið náð, og fer bandaríska ríkið í greiðsluþrot ef ekki verður náð samningum um hækkun þaksins á næstu dögum, þar sem ekki verður hægt að standa í skilum við tugmilljarða vaxtagreiðslur. Samkvæmt könnun Russia Today búast um 17% áhorfanda við því að samningar náist ekki og að ríkið fari í þrot með alvarlegum áhrifum á hagkerfi heimsins, meðan önnur 8% eiga von á því að greiðsluþrot eigi sér stað án alvarlegra áhrifa á umheiminn.

Kínverska ríkisstjórnin, stærsti eigandi bandarískra ríkisskuldabréfa, hefur ásakað bandarísk yfirvöld um að spila hættulega leiki með hagkerfi heimsins, og hefur grípið til aðgerða til að koma í veg fyrir að Kína hljóti skaða af ef gjaldþrot á sér stað.

Það er ekki langt síðan að hugmyndin um gjaldþrot bandaríkjanna hefði verið talin hlægileg, en nú er öldin önnur. Vandinn versnaði verulega þegar kom í ljós við athugun ábyrðgarskrifstofu ríkisins að Seðlabanki Bandaríkjanna hefði lánað um sextán þúsund milljarða dollara til ýmissa banka til að forða þeim frá hruni – rúmlega 113% af vergri landsframleiðslu landsins. Þeir fjármunir skila sér líklegast aldrei til baka en auka heldur vaxtabyrði bankanna, sem svo skilar sér niður keðjuna til viðskiptamanna í hærri vöxtum og þjónustugjöldum og strangari skilyrðum fyrir lántöku.

Í Evrópu er ástandið lítið skárra. Gríska ríkið situr fast í vítahring sem veldur gjaldþroti á nokkurra mánaða fresti, en tilraunir Evrópusambandsins til að bjarga ríkinu undan gjaldþroti með lánum hafa einar og séð valdið tvöföldun á ríkisskuld Grikklands. Á sama tíma hefur Ítalska ríkið samþykkt 70 milljón evra lækkun á ríkisútgjöldum sem liggur fyrst og fremst í niðurskurði á velferðarþjónustu; ekki hefur verið hreyft við skipulagi á opinbera kerfinu né launum ráðamanna.

Á Írlandi var sömu upphæð – 70 milljónir evra – varið til að koma bönkunum til bjargar 2009, en um leið voru bankarnir þjóðnýttir. Þessi björgunarpakki, sem kom fyrst og fremst frá alþjóða gjaldeyrissjóðnum, hefur aukið skuldabyrði írska ríkisins verulega. Sem stendur eru ríkisskuldir Írlands um tíföld verg landsframleiðsla.

Það er þó ekkert miðað við smáríkið Lúxemborg, hið mikla bankaveldi. Ríkisskuldir þar eru um 30 sinnum verg landsframleiðsla landsins, sem reiknast út sem tæplega sex hundruð milljónir króna á hvert mannsbarn í landinu.

Jafnvel Bretar eru byrjaðir að bogna undan skuldabyrðinni. Þetta fyrrum heimsveldi hefur glímt við mikla niðurskurði á opinberri þjónustu undanfarið ár, og nú síðast nýtti þingið sér óreiðuna sem kom upp vegna News of the World skandalsins til að lauma í gegn löggjöf sem einkavæddi stóran hluta heilbrigðiskerfisins, meðal annars ummönnunarþjónustu fyrir eldri borgara.

Á heildina litið voru ríkisskuldir í Evrópusambandinu um 85% af heildar vergri landsframleiðslu um mitt ár 2010, en um 95% í Bandaríkjunum á sama tíma. Veruleg hækkun hefur orðið síðan þá.

Stefna Breska íhaldsflokksins, “Stóra Samfélagið”, hefur verið gagnrýnd harðlega á ýmsa vegu. Niðurskurðir á opinberri þjónustu samofnir við stórfellda einkavæðingarstefnu, nú á tímum efnahagshörmunga, leggjast illa í fólk sem sjá þetta sem aðför að sinni afkomu, en um leið er þetta líklega ein raunsæasta stefna sem hefur sést í allri þessari kös. Ekki vegna þess að hún sé rétt – nei, allt sem breska ríkið hefur gert síðan að David Cameron tók völd hefur verið eins og í stórslysamynd með Söndru Bullock; alvarlegt, vandræðalegt, dramatískt og illa leikið. En það sem er svo raunsætt við stefnu Camerons er það að “Stóra Samfélagið” er hvítur fáni. Þar er ríkið ekki að gefast upp fyrir markaðnum, því markaðurinn hefur ekki neina burði til að hlaupa undir baggann. Nánast öll sú þjónusta sem hefur verið einkavædd í Bretlandi síðasta árið hefur hreinlega hætt að vera til.

“Stóra Samfélagið” er í rauninni sameiginleg uppgjöf ríkisins og markaðarins. Þar er verið að segja samfélaginu, sem hefur verið hvatt til aðgerðaleysis og undirlægjuháttar gagnvart markaðsöflunum síðustu áratugi, að það verði að fara að sjá um sig sjálft. Dougald Hine hefur lýst þessu sem upphafið á umrótum sem munu skapa nýja samfélagsgerð. Í nýlegum fyrirlestri sagði hann að ríkið og markaðurinn geti ekki lengur séð fólki fyrir þeim þægindum sem þau hafa vanist. “Daglegt líf margra versnar stöðugt, og hvorug hliðin á tuttugustu aldar samfélagsgerðinni hefur getu til að fást við það.”

Það er mjög líklegt að hagkerfi fleiri landa eigi eftir að hrynja á næstu árum. Það sem eftir stendur þegar því er lokið fer alfarið eftir því hvaða markmið við setjum okkur núna og með hvaða hugarfari við fylgjum því eftir. Vesturlönd hafa í mörg hundruð ár veðsett framtíðina með því að níðast á nútímanum, en nú er það ekki hægt lengur.

Óþægilegur sannleikur er að koma í ljós. Okkar kynslóðir og þær næstu þurfa að læra að vera fátæk, en það þarf ekki að þýða að okkur þurfi að líða illa. Það þýðir bara að við þurfum að hætta að þykjast geta haldið áfram á sama hátt og áður. Fólk sem trúir því að sjö milljarða manna samfélag geti lifað við þau kjör sem ríkasti milljarðurinn lifir við í dag þarf alvarlega að athuga sinn gang. Flatskjáir, jeppar, einbýlishús og sólarlandaferðir eru lífsgæði sem jörðin ræður ekki við. Kanaríeyjar eru ekki nógu stórar.

Það má nálgast þessa umræðu frá náttúruverndarsjónarmiði, svona eins og menn gerðu á fimmta áratugnum. Muniði hvernig það var? Paul Kingsnorth benti á að náttúruverndarhyggja gekk eitt sinn út á að vernda náttúruna, en nútíma græningjar tala frekar um að vernda lífsstíl okkar án þess að skaða náttúruna meira en nauðsyn er. Ég læt náttúruverndarsjónarmiðið eiga sig, því ég vil frekar einbeita mér að mannkyninu – en þó veit ég það að við getum ekki leyft okkur að hundsa náttúruna og hennar þarfir. R. Buckminster Fuller talaði um jörðina sem geimskip, og sagði að við myndum ekki geta starfrækt geimskipið mikið lengur nema að við áttum okkur á því að geimskipið sé geimskip og að örlög okkar allra felist í getu okkar til að viðhalda því vel. Það verður að vera allir eða enginn.

Það má líka nálgast þessa umræðu frá hagfræðilegu sjónarmiði. Samfélög vesturheims hafa verið rekin með hagrænni tvíhyggju, mótsagnarkenndri hugmyndafræði sem segir okkur að við þurfum að halda áfram að vaxa, að hagvöxtur sé mikilvægur og að hagkerfi án hagvaxtar sé dautt hagkerfi, en um leið fylgja menn Malthúsíanskri hugmyndafræði um að allar auðlindir séu takmarkaðar í eðli sínu og að án sterkrar miðstýringar á samfélaginu, í formi stjórnmálaafla og leiðtoga, þá muni pöpullinn ganga fram af auðlindunum hugsunarlaust og tortíma samfélaginu.

Ég trúi hvorugri hugmyndinni. Ég tel að samfélag sem stendur í stað geti verið gott samfélag, og samfélag sem minnkar hafi ef til vill þörf fyrir að minnka. Hagkerfi eru ekki einhalla. Og þó svo að jörðin sé takmörkuð í eðli sínu er hugvit manna ótakmarkað, og alheimurinn sjálfur er auðugari en við getum ímyndað okkur. Við þurfum að hafa frelsi til að nýta okkur hugvit okkar til fulls, án ívilnunar yfirvalda sem vilja viðhalda ákveðinni hagvaxtarhugmyndafræði á skjön við önnur sjónarmið, og við þurfum að hætta að trúa blint á einhalla vaxandi stöðugleika, því stöðugleiki er ekki varandi.

Ef við brjótumst út úr þessari kjánalegu hugsunarvillu sem hefur haldið okkur í heljargreipum í mörg hundruð ár getum við komist af þrátt fyrir nær óumflýjanlegt hrun báðum megin við okkur.

Það er svartur fíll í herberginu. Hættum að þykjast ekki sjá hann.