Contents

Forvirkar rannsóknir á Framsóknarflokknum

(Þessi grein birtist sem kjallaragrein í DV 9. nóvember 2011, en hefur ekki verið sett á vefsíðuna hjá þeim. Ég endurbirti hana hér í gamni.)

Helstu rök framsóknarmanna fyrir því að gefa lögreglumönnum forvirkar rannsóknarheimildir felast í óljósum handaveifingum um aukna tíðni mannsals og hryðjuverka, og svo er kallaður fram hræðsluáróður um vonda kalla frá útlandinu. Þeir vísa svo í skýrslu sem unnin var af ekki minni hagsmunaaðila í málinu en ríkislögreglustjóra, þar sem hann leggur fram, auk mats á óumflýjanlegri yfirvofandi hættu á hryðjuverkum og dópsölu, alveg dásamlega vel útpælda skilgreiningu frá Europol á því hvað geti talist sem skipulögð glæpastarfsemi.

Skilyrði Europol

Til að eitthvað geti talist skipulögð glæpastarfsemi þurfa eftirfarandi að eiga við: Til þarf að koma samvinna fleiri en tveggja einstaklinga, starfsemin þarf að standa yfir í langan eða óskilgreindan tíma, grunur þarf að liggja fyrir um alvarlegt afbrot, og markmið viðkomandi þurfa að vera auðgun og/eða völd.

Að auki er gerð krafa um að í það minnsta tvennt eftirtalinna atriða gildi:

  1. Hver þátttakandi þarf að hafa fyrirfram ákveðið verkefni
  2. Starfsemin lúti einhverskonar skipulagi og stjórnun
  3. Starfsemin þarf að vera alþjóðleg
  4. Þátttakendur þurfa að beita ofbeldi eða öðrum aðferðum sem henta þykja til ógnunar
  5. Skipulag starfseminar þarf að vera svipað því sem þekkist í viðskiptum og rekstri
  6. Viðkomandi þurfa að stunda peningaþvætti
  7. Viðkomandi leitist við að hafa áhrif á stjórnmál, fjölmiðla, opinbera stjórnsýslu, réttarkerfið eða hagkerfið.

Skipulögð glæpastarfsemi?

Nú ætla ég að sýna fram á annað af tvennu, en þó er ég ekki viss hvort. Annað hvort er Framsóknarflokkurinn skipulagður glæpahópur eða þá skilgreining ríkislögreglustjóra er það almenns eðlis að hún gæti með tiltölulega lítilli fyrirhöfn átt við um hvern sem er. Það er ef til vill ósmekklegt að taka framsóknarflokkinn fyrir, vitandi það að þeir hafa aðallega verið vitorðsmenn og fylgifiskar í gegnum tíðina, en þeir buðu svolítið upp á þetta sjálfir með nýlegri þingsályktunartillögu, þó svo að Samfylkingin eigi mögulega jafnan sök.

Ef við tökum hið augljósa fyrir, þá eru fleiri en tveir meðlimir í framsóknarflokknum og starfsemin hefur staðið yfir í langan tíma, auk þess sér ekki fyrir endann á henni. Það er auðséð að framsóknarmenn hafa áhuga á því að komast til valda og þeir virðast ekki í gegnum tíðina hafa slegið hendinni upp á móti smá auðgun, til dæmis í formi styrkja.

Að auki hefur hver þátttakandi ákveðna stöðu innan flokksins og sem slíkt bæði ákveðið verkefni (atriði 1), og stöðurnar gefa til kynna að það sé skipulag og flokknum sé stjórnað (atriði 2), og það er klárt mál að framsóknarflokkurinn leitist við að hafa áhrif á stjórnmál, fjölmiðla, opinbera stjórnsýslu, réttarkerfið og hagkerfið (atriði 7). Ég ætla svosem ekki að reyna að sýna fram á peningaþvætti eða ofbeldi, enda er slíkt óþarfi samkvæmt skilgreiningu ríkislögreglustjóra, og það ætti jú líka að vera efni forvirku rannsóknarinnar – þrátt fyrir að það sé ekki rökstuddur grunur.

Óþarfi að rökstyðja nokkuð

Þótt ekki sé til rökstuddur grunur er þó til grunur, og í honum felst jú síðasta atriðið sem nauðsynlegt er að uppfylla til að þessi greining sé rétt: grunur þarf að liggja fyrir um alvarlegt afbrot. Það mætti til að mynda rannsaka hvort það hafi verið brot gegn ráðherraábyrgð þegar Valgerður Sverrisdóttir birti ekki, sem iðnaðarráðherra, upplýsingar um brotasvæði á Kárahnjúkum eða þegar Siv Friðleifsdóttir ógilti úrskurð Skipulagsstofnunar sem lagðist gegn Kárahnúkavirkjun. Eða jú hvort eitthvað pólitískt hafi verið í pokahorninu þegar fjölskyldufyrirtæki Halldórs Ásgrímssonar fékk 2.6 milljarða afskrifaða um árið. Mig grunar allaveganna að það megi rannsaka þetta.

Vandamálið við forvirkar rannsóknarheimildir eru að lögmæti þeirra og umfang eru í lok dags háðar mati manna sem hafa mikla hagsmuni af því að finna upp jafn gjörsamlega gagnslausar skilgreiningar eins og raun ber vitni hér, og þótt ég telji í raun ólíklegt að Framsóknarflokkurinn sé einhver mafía, enda þekki ég bæði gott og heiðarlegt fólk í þeim flokki, þá er það merki um glæpsamlega fávísi að leggja það til að lögregla fái að rannsaka hvern þann sem þeim sýnist, þegar hægt væri með mun betri árangri að aðlaga þær rannsóknarheimildir sem þeir nú hafa betur að vandamálunum sem eru raunverulega til staðar – þegar frá eru taldir allir ímynduðu útilegumennirnir.