Contents

Af trompun tjáningarfrelsis

Contents

Í dag eru fjölmargir vefir lokaðir í mótmælaskyni gegn SOPA og PIPA frumvörpunum, þar á meðal ensk útgáfa Wikipedia og WordPress. Google er með á ensku forsíðu sinni ákall um að mótmæla SOPA og PIPA. Ég skrifaði grein í síðustu viku um hugmyndir STEF um að innleiða svipaðar ritskoðunarreglur á Íslandi, og hafði ekki séð nein skrifleg mótmæli við henni fyrr en í dag, þegar mér var bent á athugasemd frá Ólafi Arnalds sem segir:

Nú er ég sjálfur ekki hlynntur ritskoðun á internetinu en mikið einstaklega er þetta illa upplýst grein… YouTube er nú þegar með svona kerfi í gangi sem er keyrt af tölvuforritum, ekki 1154 starfsmönnum, auk þess sem STEF hefur bara ekkert með Wikipedia að gera…

Er í alvörunni enginn sem fer yfir svona greinar áður en þær eru birtar á einum vinsælasta miðli landsins til þess eins að grafa undan starfsemi samtaka sem eru að reyna að gera sitt besta við að vernda hagsmuni heillar starfstéttar sem á undir högg að sækja?

Það er rétt að STEF hefur ekkert með Wikipedia að gera, enda eru tóndæmin á Wikimedia Commons bara í þúsundavís… og það að STEF myndi fá leyfi til að ritskoða Internetið myndi auðvitað ekki leiða af sér sambærileg áköll frá öllum öðrum höfundarétthöfum til að fá að gera það sama, neinei. Það er ekkert vopnakapphlaup í gangi. Kvikmyndaiðnaðurinn myndi aldrei fara fram á það að fá að ritskoða Internetið, né heldur bókaútgefendur. Eða hvað? Ég stend við það sem ég sagði: Sjálfhverfa höfundarréttarsamtaka hefur náð nýjum hæðum.

Það er rétt að YouTube er með “gervigreind” sem skannar yfir myndbönd smávegis og leitar að ákveðnum settum af þekktum, fyrirfram merktum ummerkjum um höfundavarið efni. En það sér sérhver heilvita maður að þær aðferðir hafa ekki verið að virka – þær eru í besta falli aum viðleitni. Það er hreinlega ómögulegt að smíða gervigreind, né nokkuð annað, sem finnur höfundaréttarbrot með 100% nákvæmni, og það er ekki neitt sem mun breyta því. Ég get útskýrt hvers vegna á fræðilegan hátt ef þess er óskað; það verður að fyrirgefast að í 3000 stafa plásstakmörkun Fréttablaðsins gafst ekki ráðrúm til að útskýra hvernig Turing vélar og Shannon-Nyquist sampling theorem virka, hvað þá það að samkvæmt TRIPS sáttmálanum (sem er undirstaða alþjóðlegra höfundaréttarskuldbindinga) er engin skráningarskylda á höfundaréttarvörðu efni og því enginn gagnagrunnur til að miða við.

Vandamálið við þessar hugmyndir um lög eru að það þarf ekki nema einn ósáttan höfundarrétthafa sem féll á milli í gervigreindinni til að binda endi á YouTube. Og skítt með YouTube: Wikipedia er ekki með svona gervigreind, né heldur WordPress, né meginþorri allra vefsíðna í heiminum.

Þetta er ekki hægt. Svo einfallt er það.

Hvað varðar það að þau séu að reyna að vernda hagsmuni heillar starfsstéttar sem á undir högg að sækja, þá langar mig til að benda á að það er algjört bull. Hugverkaiðnaðurinn telur nú rúmlega $2 milljónir milljarða dollara árlega og vex ár frá ári. Það er rétt að dregist hefur saman í plötusölum, sem dæmi, en það er vegna þess að fleiri kaupa stök lög en áður, og heildarupphæðin hefur hækkað. Svo er rétt að benda á að höfundaréttarsamtök hafa verið gríðarlega dugleg við að borga höfundarrétthöfum verulega illa, og mismuna þeim eftir því hvaða afbrigði af list þau stunda. Það er undarlegt brot á félagafrelsi að tónlistarmenn á Íslandi verða að vera í STEF til að fá greitt fyrir spilun á sinni tónlist í útvarpi, og að enginn tónlistarmaður megi gefa vefsíðum og útvarpsstöðvum leyfi til að borga ekki STEF-skattinn.

Það er búið að sýna margoft fram á það – til dæmis hjá fyrirtækjum eins og Gogoyoko og Spotify – að rétta leiðin til að vernda hagsmuni fólks í skapandi greinum er ekki að skerða mannréttindi eða takmarka tjáningarfrelsi, né heldur að kæra fólk í spað. Rétta leiðin er að bjóða upp á eitthvað *betra* – láta það vera jafn auðvelt eða auðveldara að fara löglegu leiðina. Það myndu velflestir borga ef að það kostaði ekki miklu meira vesen.

Svo er hitt: Það er meginregla í lýðræðislegum samfélögum að við leyfum ekki einokunarstarfsemi. Við höfum meiraðsegja stofnanir eins og samkeppnisstofnun til að koma í veg fyrir það. En einhverra hluta vegna höfum við samþykkt lög sem veita einokunarrétt á menningararfleið mannkyns. Ég er auðvitað sammála því að fólk eigi að fá borgað fyrir vinnuna sína, en það er bara allt allt annar hlutur en að fólk fái einokunarrétt á vinnunni sinni fram að 70 árum eftir sinn dauðadag.