Contents

NASA

Contents

Þegar ég var ungur var NASA geimferðastofnun sem stundaði mikilsverðar rannsóknir. Þar langaði mig að vinna, því þau gerðu snilldarlega hluti. Þau fóru í mannaðar geimferðir og fundu upp vísindi sem bættu lífskjör allra á jörðinni, og veittu heiminum von. Það er löngu búið. Nú eru Rússland og Kína einu löndin í heiminum sem hafa tök á mönnuðum geimferðum, og tæplega það. Tíðni geimfara sem hrapa hefur aukist verulega. Frekar vandræðalegt… og ef maður ætlar að gerast geimfari þá er líklegara að maður verði skotinn upp frá Baikonur í Kazakhstan en frá Cape Canaveral. Ameríski draumurinn.

Það er rosalega auðvelt að hrapa út af rugli. Flestir sem tala um NASA á Íslandi pæla ekkert í geimflaugum. Þau pæla í forljótu húsi við Austurvöll þaðan sem það hefur margar af sínum bestu minningum. Salurinn þar fyrir innan er stórmerkilegur, og ólíkt húsinu sjálfu, rosalega fallegur.

Hugmyndirnar um að byggja hótel þar sem NASA stendur eru auðvitað frekar fráleitar. Þeir sem hafa komið til borga þar sem miðborgin samanstendur af hótelum og engu öðru vita að slíkar borgir eru frekar ógeðslegar og leiðinlegar. Svæðið í kringum Austurvöll og Ingólfstorg er að breytast í frekar mikið hótelarunk, og allt sem er gott í miðborginni er að færast upp Skólavörðuholtið. Það er í rauninni ekkert að því samt að það séu fullt af hótelum í miðbænum, svo lengi sem það er annað stöff þar líka.

Ókei. Fínt. Sumir vilja stoppa NASA niðurrifin, aðrir vilja byggja hótel. Hví ekki bæði?

Það er í rauninni afskaplega lítið því til fyrirstöðu verkfræðilega, að rífa megnið af NASA húsinu, búa vel um skelina þar sem gamli salurinn er, og byggja svo fallegt hús utan um það. Það gæti verið hótelinngangur sem snýr að Ingólfstorgi og veitingastaður sem snýr að Austurvelli, og svo hótelið sjálft byggt fyrir ofan NASA salinn. Það þyrfti að hljóðeinangra vel, en það sem úr yrði væri menningarmiðstöð sem væri vit í. Góð hótel eru yfirleitt með stóra og flotta sali þar sem er hægt að halda ráðstefnur, tónleika og fleira, hvort eð er, og ekki verra að gamli NASA salurinn fái þá að halda sínum sjarma innan um nýja starfsemi.

Ég skil ekki fyrir mitt litla líf hvers vegna, í öllu þessu þrasi um NASA húsið, hafi enginn borið þessa hugmynd upp. Það er eins og allir séu í kapphlaupi til að hrapa fyrstur. Annaðhvort á að steypa íslensku menningarlífi í Hörpuknúna óvissu, eða þá að frjálslyndasta og mest skapandi fólk landsins tekur upp nostalgíska íhaldssemi sem lætur hólafólkið í suðurríkjunum – þið vitið, þarna rétt hjá Houston – líta út eins og þrælgáfaða frumkvöðla.

Nú lofaði ég mér að skrifa þetta ekki, en here goes: Houston, hér er vandamál. Fólk er ekki að hugsa út fyrir kassann. Fólk er ekki að gera neitt skapandi. Fólk er í besta falli að reyna að verja sína hagsmuni án þess að skoða heildarmyndina. Slíkt fólk hrapar.

Þegar ég var sautján ára fékk ég þann heiður að halda stuttan fyrirlestur – um jarðeyðingu, af öllu mögulegu – fyrir hóp vísindamanna frá NASA. Ári síðar fór ég á skemmtistaðinn NASA í fyrsta skiptið. Þó svo að ég beri í rauninni ekki sterkar tilfinningar til NASA, eða til NASA, þá þætti mér eftirsjá af þeim. Það ætti auðvitað að dæla meiri peningum í geimiðnaðinn, svo mannaðar könnunarferðir um himingeiminn geti haldið áfram og mögulega getum við yfirstigið ýmis vandamál sem steðja að mannkyninu, og auðvitað ætti að gera eitthvað til að viðhalda tónlistarlífinu á Íslandi samhliða því sem við aukum þjónustu við erlenda ferðamenn sem innlenda og búum betur um miðborgina, og ekki verra ef salurinn góði í NASA húsinu fengi að koma þar að.