Hlerunaráráttan heldur áfram
Í fjölmiðlum í síðustu viku mátti greina sterkan stuðning blaðamanna við þá kröfu lögreglunnar að þeir fái heimild til að fá lista yfir alla þá einstaklinga sem voru að nota síma í Herjólfsdal á tilteknu tímabili. Fjölmiðlarnir gerðu enga tilraun til að vera gagnrýnir í umfjöllun sinni, og veltu til dæmis ekki fyrir sér að hugsanlega voru mörg hundruð manns að nota síma á tímanum sem um ræðir, og að einhverjir þeirra kunna að hafa verið að nota óskráð frelsiskort.
Þá er gengið er út frá því að afhending slíkra gagna yrði gagnlegt rannsókninni. Þó er líklegra að gögnin geri meira ógagn en gagn. Hópur grunaðra minnkar ekki, heldur stækkar hann verulega. Sá sem sást á umræddu myndbandi kann að hafa verið að nota síma einhvers annars, eða hafi verið að þykjast tala í símann, eða hafi reynt að hringja en ekki náð í gegn.
Svo kemur fram lögregla og spyr að því hvort öðruvísi væri farið að ef um væri að ræða Anders Breivik. Hér er greinilega verið að reyna að afvegaleiða umræðuna. Í stað þess að halda sig innan ramma raunveruleikans er brugið á það ráð að vísa í óljósa hryðjuverkaógn.
Hér er lögregla að reyna að réttlæta stórfellt brot á friðhelgi einkalífsins. Hér er ekki verið að tala um að brjóta mannréttindi eins manns, heldur allra sem voru í Herjólfsdal á þessum tiltekna tíma sem voru einhverra hluta vegna að nota síma. Þetta er algjörlega óásættanlegt.
Ákvörðun hæstaréttar í þessu máli var með þeim skynsamari sem ég hef séð frá þeim um nokkra hríð, og það sannast best á því að lögreglan hafi ákveðið að reyna að réttlæta þetta með tilvísun í Anders Breivik. Reglurnar eru til staðar einmitt til að koma í veg fyrir misnotkun af því tagi sem um ræðir.
Það má gagnrýna marga í þessu máli. Fjölmiðlar ættu að hafa gripið þetta endæmis bull á lofti og tætt það í sig, en ekki herma ógagnrýnið eftir lögreglunni og mála fjarskiptafyrirtækin, sem hér voru að verja mannréttindi, sem þrjóta. Sömuleiðis ætti Lögreglan ekki undir nokkrum kringumstæðum að láta sér detta til hugar að brjóta á mannréttindum, hvort sem það er vegna Breiviks eða nokkurs annars - nauðsyn brýtur ekki lög.
Raunar mætti jafnframt spyrja: Hvers vegna í ósköpunum hafa símafyrirtækin upplýsingar til reiðu um hvaða farsímanotendur voru að nota tiltekinn farsímaturn á tilteknum tíma? Það er ekki eins og þær upplýsingar skipti máli upp á bókhald - eina sem skiptir máli er hversu lengi hringt var, ekki hvaðan. Nei, staðreyndin hér er sú að þessi gögn eru geymd í sex mánuði samkvæmt lögum sem sett voru með hraði í valdatíð Sturlu Böðvarssonar, að beiðni ríkislögreglustjóra. Sambærileg lög eru til í fjölmörgum Evrópulöndum, þrátt fyrir að það hafi verið margsannað að þessi geymsla á gögnum gagnast ekki hið minnsta og gangi algjörlega gegn alþjóðlegum viðmiðum um meðalhóf. Þessi lög ætti að afnema, hið snarasta.