Contents

Brennuvargarnir

Contents

Yfirleitt nenni ég ekki að tala beinlínis gegn tilteknum flokki, en nú finn ég mig knúinn til að breyta því. Mér finnst niðurstöður nýrrar könnunar frá Gallup stórfurðulegar og stórhættulegar.

Ef brennuvargar kveiktu í húsi þætti fólki væntanlega skrýtið að kenna slökkviliðinu um eldsvoðann. Það teldist væntanlega enn skrýtnara að brennuvargarnir væru kallaðir til og þeir beðnir um að slökkva eldinn.

Vissulega gæti einhver kvartað yfir því að slökkviliðið sé ekki að slökkva eldinn nógu hratt, og vissulega mætti hvetja þá til dáða eða reyna að hjálpa þeim. Jafnvel mætti íhuga hvort það ætti að reka ýmsa úr slökkviliðinu og fá hæfara fólk í staðinn. En jafnvel þótt slökkviliðið megi alveg við gagnrýni og uppstokkun, þá er samt stórfurðuleg hugmynd að ætla sér að kenna þeim um brunann, eða refsa þeim fyrir að hann hafi átt sér stað.

Þó er þetta það sem virðist vera að gerast í íslenskri pólitík.

Fólk virðist vera haldið einhverskonar pólitísku Stokkhólmsheilkenni gagnvart Sjálfstæðisflokknum. Það virðist halda að ef það styður flokkinn í nógu blindri trú þá muni allt fara vel að lokum. Og raunar er það rétt - það mun allt fara vel, fyrir einhverja örfáa. Aðrir þurfa að sætta sig við hina óhrekjanlegu lógík sem felst í “trickle-down economics”.

Eins og staðan er í dag gæti Sjálfstæðisflokkurinn komist til valda í næstu kosningum. Ef svo fer er nokkuð ljóst hvernig fer. Ég er enginn sérstakur stuðningsmaður núverandi ríkisstjórnar - né heldur hef ég neitt sérstakt á móti henni. Sumir standa sig vel, aðrir standa sig illa. Mín afstaða er fullkomnlega praktísk. Það er rosalega ópraktískt að láta valdasjúka eiginhagsmunaseggi komast til valda, sérstaklega á þeim gjörsamlega óraunverulegu forsendum að þeir séu einhverjir stuðningsmenn frjálsra markaða og persónufrelsis. Sagan sýnir annað.