Contents

Tómir kofar

Contents

Ég á þann vafasama heiður að vera ríkisborgari í tveimur löndum þar sem hagkerfið hefur hrunið. Síðustu helgi var ég með fjölskyldunni minni á Írlandi, en keyrði svo yfir á vesturhlutann til að eiga fund með fólki úr írska píratapartýinu.

Það var sama hvort ég var í norðri eða suðri, austri eða vestri, það blasti það sama við allsstaðar: tómir húsgrunnar, fokheld hús, tóm hús, fullbyggð hús í óuppgerðum hverfum, og heilu fullbúnu hverfin af tómum húsum. Vinur minn, Arthur, fór með mig í smá bíltúr um smábæ í Leitrim þar sem aðeins um 60% húsanna höfðu verið seld, þar af um helmingur til efnafólks sem hugðist nota þau sem sumarhús.

Fólk sem ég hitti sagði mér að hús eru að seljast fyrir um 15% af upplögðu verði, en bankarnir eru að gera allt sem þeir geta til að neita að fjármagna slík kaup, því þeir óttast að hrun í fasteignaverði geti keyrt bankana í þrot á ný. Því eru hús til sölu á fimm til sexfalt því verði sem fólk væri reiðubúið til að kaupa, þrátt fyrir að þau hafi mörg hver verið lækkuð um helming nú þegar.

Það sem gerir þetta allt voðalega skrýtið er að byggingafyrirtækin eru þrátt fyrir allt að setja talsverða vinnu og peninga í að klára að byggja - ekki bara að klára fokheld hús, heldur að ganga frá hverfum, og jafnvel setja teppi, parket og eldhúsinnréttingar inn í heilu hverfin. Það væri svosem vit í því að klára að gera upp eitt eða tvö hús í hverfi til að sýna þau, en hér er bara verið að bulla.

Um milljón ónotuð svefnherbergi eru á Írlandi sem stendur, þegar talin eru fullbyggðu húsin. Það er alveg sama hvernig maður snýr þessu dæmi, þetta gengur bara ekki upp. Hvernig tókst fólki að byggja óvart milljón fleiri svefnherbergi en er þörf á? Er fólk svona rosalega staurblindað af trausti sínu til ósýnilegu handarinnar að það gerir bara ráð fyrir endalausum vexti?

Eftir að ég hafði heyrt allar þessar sögur fór ég í innkaupaferð með vini mínum. Það þurfti eina evru til að losa innkaupakerru úr lest, en við vorum hvorugir með slíkt á okkur. Ég prófaði að troða íslenskum tíkalli í raufina, og það gekk. Þegar vinur minn ætlaði svo að skila tíkallinum afþakkaði ég. Ég sagði í gríni að honum veitti ekki af alvöru gjaldmiðli.

Nú er ég hvorki fylgjandi krónu né á móti henni, og sama má segja um evruna. Það er barnalegt að stilla þeim upp á móti hvor annarri, því þær eru bara ætlaðar til mjög ólíkra hluta. Evran er hugsuð sem stór viðskiptagjaldmiðill fyrir heila heimsálfu, en krónan sem innanríkisgjaldmiðill fyrir lítið land. Evran var aldrei ætluð sem einn gjaldmiðill til að gnæfa yfir þeim öllum - hönnuðir hennar vildu alltaf hafa fjölbreytta flóru gjaldmiðla með evruna sem bakbein. Það voru pólitíkusar sem eyðilögðu þá hugmynd.

Írland er í rauninni alveg ótrúlega gott dæmi um það hvað hefði getað komið fyrir á Íslandi, hefðum við haft aðeins minna sjálfstæði. Á leiðinni út hafði ég með mér Fréttablaðið frá því fyrir rúmri viku, þar sem grein Oddnýjar Harðardóttir hafði graf sem sýndi halla ríkissjóðs árin 2009-2013 (síðasta sem áætlun). Sýnandi Írum grafið sögðust þeir margir hverjir fullir öfundar.

Eðlilega.