Contents

Til hvers þurfum við nýja stjórnarskrá?

Contents

Bólivíubúar vita sennilega betur en flestir hvað stjórnarskrá er. Síðan landið varð sjálfstætt hefur það tekið upp nýja stjórnarskrá að meðaltali á ellefu ára fresti. Bólivískt samfélag er miklu flóknara en Íslenskt – þar eru margir ættbálkar, margar samfélagsgerðir, og verulegur munur er milli ríkra og fátækra, svo eitthvað sé nefnt. Íslendingar eru svo til einn ættbálkur, eitt samfélag, fyrir mestan part einsleitt samanborið við flest lönd.

Helsti munurinn á núgildandi bólivísku stjórnarskránni og núgildandi íslensku stjórnarskránni er þó það að bólivíska stjórnarskráin var samin af bólivísku fólki með bólivískar aðstæður í huga. Þó svo að hún muni sennilega ekki endast nema í nokkur ár í viðbót, þá á hún þó það að hún tekur mið af bólivískum raunveruleika.

Stjórnarskrá Íslands hefur vissulega verið uppfærð nokkrum sinnum, en hún er upprunalega skrifuð af dönskum embættismönnum sem regluverk fyrir Íslendinga á tíma þar sem íslenskur raunveruleiki skipti ekki nokkru máli fyrir ráðamenn. Íslenska stjórnarskráin er fullkomin fyrir aðstæður danskra embættismanna í byrjun 20. aldar, með svo smá mannréttindamauki og kjördæmapoti skellt ofan á.

Kosningarnar 20. október snúast ekki um hvort Íslandi þurfi nýja stjórnarskrá. Það var krafa fólks eftir hrunið að ný stjórnarskrá yrði samin, og flestir stjórnmálaflokkar gengu inn í Alþingiskosningar síðast með einhverskonar fyrirætlanir um að ný stjórnarskrá yrði skrifuð. Tiltölulega fáir stjórnmálamenn trúa því að núgildandi stjórnarskrá uppfylli þarfir okkar. Það má alveg draga í efa heiðarleika þeirra sem halda því fram að þetta aldargamla plagg sé viðunandi. Viðunandi fyrir hvern?

Í rauninni er núgildandi stjórnarskrá svo ónýt að almenningur er ekki spurður álits á stjórnarskrárbreytingum. Valdið liggur hjá Alþingi, sem þarf að samþykkja breytingar og boða svo til Alþingiskosninga, en þegar nýtt Alþingi kemur saman eru breytingarnar staðfestar. Kosningarnar sem slíkar snúast ekki um stjórnarskránna, heldur bara hvaða stjórnmálamenn fá að ákveða okkar örlög næstu fjögur ár.

Þess vegna eru kosningarnar 20. október svona mikilvægar. Þetta er tækifærið okkar til að útskýra fyrir Alþingi hvaða eiginleika við viljum að ný stjórnarskrá hafi. Við fáum að segja álit okkar á tillögum stjórnlagaráðs, á persónukjöri og kjördæmafyrirkomulagi. Við fáum að leggja dóm á það hvort stjórnarskrá eigi að innihalda ákvæði um þjóðkirkju og náttúruauðlindir, og hvort það eigi að auka möguleika almennings á lýðræðislegu inngripi inn í aðgerðir Alþingis.

Í rauninni er þetta skoðanakönnun – það er það sem óbindandi þjóðaratkvæðagreiðsla er – en þetta er mjög mikilvæg skoðanakönnun sem allir ættu að taka þátt í. Það hefði auðvitað mátt gera ýmislegt öðruvísi í ferlinu, en það verður að skoða hverjar ástæðurnar eru fyrir því að ferlið hefur verið jafn ófullkomið og það í raun er.

Ég vona svo sannarlega að fólk muni það í næstu Alþingiskosningum hverjir það voru á Alþingi sem neituðu að leyfa ferlinu að eiga sér stað á eðlilegastan og lýðræðislegastan hátt, og lögðu upp í málþóf í hvert skipti sem þau fengu ekki það sem þau vildu í gegnum frekju í nefndarstörfunum.

En þrátt fyrir þennan ólíðanlega barnaskap sjálfstæðismanna verður að segjast að úr hefur orðið stórmerkilegt ferli sem við eigum að hrósa okkur fyrir. Aldrei hafa bólivíumenn verið spurðir álits á því hvað eigi að standa í þeirra stjórnarskrá – þrátt fyrir allar þessar tilraunir til að byggja réttlátara samfélag þar hefur þeim aldrei dottið í hug að halda þjóðfund, eða hafa lýðræðislega kjörið stjórnlagaráð.

Þetta ferli þarf nú stuðning okkar allra á lokametrunum til að tryggja okkur nýja stjórnarskrá sem hentar á nýrri öld, sem hentar íslenskum raunveruleika. Kjósum öll 20. október!