Kynslóðabil upplýsingarétts
Einu sinni kom það almenningi andskotanum ekkert við hvað ríkið gerði. Svo kom lýðræði.
Að lokum var ákveðið að það væri lýðræðislegt að almenningur gæti séð gögnin sem ríkið átti til. Upplýsingalög voru búin til, og samkvæmt þeim mátti almenningur óska eftir að fá að sjá gögn. Þetta var fyrsta kynslóð upplýsingalaga.
Þetta var samt mæta gagnslaust, þar sem almenningur vissi ekki hvaða skjöl voru til. Hvernig getur maður beðið um eitthvað sem maður veit ekki hvað er?
Í annari kynslóð upplýsingalaga var gert ráð fyrir því að ríki myndi búa til lista yfir öll þau gögn sem eru til og birta á netinu. Þetta er til dæmis gert í Evrópusambandinu (reglugerð 1049/2001/EC) og í Noregi. En ekki á Íslandi.
Fólk fór að átta sig fljótt á því að þetta var ergjandi. Þegar fólk vissi hvað var til af gögnum vildi fólk fá þau. Það var auðvitað margt til á tölvutæku formi, en annað bara til á prenti.
Þá ákváðu sumir, t.d. Evrópusambandið og Noregur, að birta bara þau gögn sem þau ættu til á tölvutæku formi á netinu, og leyfa fólki að óska eftir restinni með hefðbundinni aðferð.
Í kjölfarið varð til þriðja kynslóð upplýsingalaga, þar sem ákveðið var að birta öll skjöl á netinu, sjálfvirkt, nema það sem þyrfti að halda aftur af vegna friðhelgis einkalífsins, öryggis ríkisins, gagna tengt eftirlitsstarfsemi, og vinnuskjala.
Svo ríkir bara skilningur um það að það muni taka nokkur ár að koma öllu gamla draslinu í tölvutækt form.
Í 15. greininni í tillögum stjórnlagaráðs var gert ráð fyrir að hér á landi myndum við taka upp þriðju kynslóðar upplýsingarétt - að gögn í fórum ríkisins ættu að komast í hendur almennings að jafnaði án þess að það þyrfti sérstaklega að biðja um þau. Þau væru bara aðgengileg, til staðar.
Í nýrri útgáfu af frumvarpinu sem “sérfræðingahópur” lögfræðinga vann er búið að breyta 15. grein verulega. Í henni er ekki lengur gert ráð fyrir þriðju-kynslóðar upplýsingarétt, heldur annarar kynslóðar.
Það virðist sem sérfræðingahópurinn hafi haldið að öll gögn séu í rauninni bara til á pappír og ekki sé hægt að fá þau öðruvísi en að sækja um þau. En gögn eru ekki lengur pappírsbunkar í lokuðum skjalaskápum þar sem enginn á að komast með sína kámugu putta. Þau eru rafræn, fyrst og fremst. Menning okkar verður að endurspegla þann veruleika, og stjórnarskráin okkar líka.
Það væri farsælt að varpa 15. grein frumvarpsins aftur í það horf sem það var í áður en að sérfræðingahópurinn komst með sína kámugu putta í það.
(Nöldur: Sama mætti segja um 14. og 16. greinar frumvarpsins, enda henti sérfræðingahópurinn nokkrum mikilvægum eiginleikum úr þeim báðum. Orðalagið er að einhverju leyti bætt, en það var á kostnað nethlutleysis og afhjúpendaverndar. Æji.)
Það er fáranlegt að sætta sig við gamla drepleiðinlega 2G upplýsingaréttinn þegar við getum verið með 3G háhraðaupplýsingarétt. Þó svo að gamaldags kynslóð “sérfræðinga” kunni ekki á alla takkanna ætti ekki að stöðva útbreiðsluna á nýrri lýðræðistækni!