Heimsendir varð áðan, en það gleymdist að tilkynna það
Margir virðast vera haldnir þeim alvarlega misskilningi að heimurinn hafi ekki tekið enda áðan. Ég vil hér með leiðrétta þennan misskilning, svo við sem samfélag gerum ekki þau grafalvarlegu mistök að halda að við getum haldið áfram eins og ekkert hafi gerst.
Einhverra hluta vegna höfða dómsdagsspádómar til fólks. Annars ágætlega vel gefið fólk nær að sannfæra sig um að vegna einhverrar óskilgreindrar eða illskilgreinanlegrar ógnar, samanofið við einhverskonar lesningu einhverra sjálfskipaðra talsmanna einhverra snargalinna hugmyndakerfa, muni heimurinn farast að hluta eða í heild á einhverjum skuggalega nákvæmum tíma. Þetta gerist aftur og aftur, og að því virðist sífellt örar. Eftir því sem ég best man hafa vesturlandabúar æst sig upp í heimsendaham þrisvar núna á síðastliðnum tveimur árum, allt án þess að endalokin hafi átt sér stað. Þið vitið jafn vel og ég að nú mun einhver fábjáni stíga fram og segja að því miður hafa ógurleg mistök verið gerð og raunverulegur heimsendir kemur ekki fyrr en 2014.
En viti menn! Heimsendir varð fyrr í dag. Ekki endir þess raunverulega áþreifanlega heims sem við erum vön því að lifa í, heldur endir annars heims sem býr í undirmeðvitund okkar allra – sá heimur sem gerir okkur kleift að taka svona vitleysu alvarlega.
Sá heimur þar sem jólasveinar eru hafðir upp yfir aðra þrátt fyrir að fara í manngreinarálit við börn eftir því hversu auðugir foreldrar þeirra eru.
Sá heimur þar sem við sjáum engar þversagnir í því að halda upp á heiðna hátíð með því að setja gyðingaljós út í glugga, eyða um efni fram, og vísa af krafti í einhverskonar ímyndaðan vin og strákling sem á að hafa fæðst úti í hlöðu því það var uppbókað á öllum hótelunum – strákling sem síðar bölvaði þeim sem rugluðu saman mismunandi trúarkenningum og þeim sem hófu kapitalisma fram yfir samfélagið sitt.
Sá heimur þar sem við ginkaupum einfaldar og fáranlegar skýringar og hundsum raunveruleikann.
En hafið ekki áhyggjur. Vegna þess að það gleymdist að segja ykkur frá því að þessi heimsendir hafi átt sér stað mun, eins og spádómurinn sagði, annar heimur verða til í hans stað, og þeir verða óaðgreinanlegir hver frá öðrum. Þannig að þegar næsti dómsdagsspámaður stígur fram munu fjölmiðlar éta það upp og allt verður vitlaust á Facebook. Álpappírshúfur verða á útsölu.
Það hvernig við tölum um heimsendi skiptir máli, en við ættum að íhuga alvarlega hvaða heimsendi við viljum undirbúa okkur fyrir. Þær hugmyndir sem við kjósum að taka þátt í að miðla áfram móta upplifun okkar af heiminum. Ég vil ekki sóa tíma fólks í fáranlegar dómsdagsspár þegar raunverulegt fólk er að upplifa raunverulegan dómsdag af raunverulegum ástæðum. Tölum um raunveruleikann, og endurskoðum umræðuhefðina okkar.
Að lokum: Allir ættu að lesa þetta ágæta manifestó sem vinir mínir Dougald Hine og Paul Kingsnorth skrifuðu um heimsendi: Uncivilization: The Dark Mountain Manifesto.