Contents

Skattskrum

Contents

Fyrir kosningar tala forystumenn stjórnmálaflokka ýmist um að lækka skatta, eða minnast ekki einu orði á skatta. Það fellur undir fyrirsögnina “pólitískt sjálfsmorð” að ræða um að hækka skatta eða halda þeim í stað.

En það er afskaplega einfalt að tala um að lækka skatta. Það er svo einfalt að jafnvel einfeldingar geta gert það. Það sem er erfiðara er að sýna hvernig, og ræða nákvæmlega um hvaða skatta eigi að lækka, fyrir hverja.

Ástæðan fyrir því að það er erfitt að útskýra hvernig á að lækka skatta er að það krefst þess að það sé skilningur á því hvernig stofnanir ríkisins virka, og hvar er verið að sóa mestu. Það krefst þess líka að það sé einhver raunhæf stjórnmálaheimspeki sem liggur að baki aðgerðunum. Dæmi um óraunhæfa stjórnmálaheimspeki er leið SUS að núlla bara út alla liði fjárlaga sem henta ekki rentuásælni pilsfaldakapitalismans. Það er líka vinsælt að tala um að lækka tekjuskattinn því flestir sjá hann á beinan hátt, en sjaldnar er talað um að lækka virðisaukaskatt, sem flestir leiða hjá sér í daglegu amstri.

Í raunveruleikanum er betra að eiga síður við tekjuskattinn. Tekjuskattur á Íslandi er svokallaður prógressífur skattur, þar sem þeir sem eiga meira borga meira og þeir sem eiga minna borga minna. Sanngjarn skattur, sem sagt. Virðisaukaskattur afturámóti hefur sömu áhrif á alla – það eru ákveðnar grunnþarfir sem fólk þarf hreinlega að uppfylla, og því mætti með einföldum hætti gefa sér að hverjum einstaklingi fylgi lágmarksvirðisaukaskattsframlag til ríkissjóðs, án þess að þurfa að líta frekar á neyslumynstrin. Þetta mætti laga.

Svo er hitt: Það eru öll kerfi ríkisins til af ástæðu. Hvort ástæðan sé alltaf góð er gild spurning. Einnig er það gild spurning hvort þau séu vel rekin. Það er hinsvegar útséð að kerfum verður ekki kippt út í einu vettugi, þannig að þar með er hér um bil öll umræða um skattalækkanir orðin óraunhæf strax í fyrstu umferð.

Vegna þess að þetta er áhugavert vandamál lagði ég smá þraut fyrir nokkra aðra Pírata á dögunum. Ég reiknaði lauslega að lækka mætti virðisaukaskattinn á matvælum niður í 0%, og almennt niður í 18%, ef hægt væri að finna leið til að spara 46 milljarða króna á ári í ríkisrekstri. Þetta er ótrúlega háleitt markmið, en rosalega góð æfing þótt hún skili kannski engu raunhæfu af sér. Reglurnar voru einfaldar: allur niðurskurður verður að vera skynsamlegur, og það verður að vera skýring með hverjum lið.

Eftir nokkurra tíma vinnu vorum við komin með tæplega fimm milljarða niðurskurð, en megnið af því fengist eingöngu með því að einkavæða þjóðkirkjuna. Inn á milli voru nokkur lítil atriði sem gætu haft góð áhrif. Minnkun fjármagns til einkarekinna skóla, aukning á notkun á frjálsum hugbúnaði, og það að sleppa því að greiða höfundaréttargjöld vegna tónverka í messum úr ríkissjóði fyrir þjóðkirkjuna meðan önnur trúfélög þurfa að greiða sín eigin höfundaréttargjöld, voru meðal atriða. Allt gott, en ekkert líklegt til að færa okkur nær þessari VSK-lækkun.

Hvað er þá til ráða? Það er þrennt í stöðunni:

  1. Minnka kostnað og umgjörð þar sem það er hægt; einkavæða sumt, endurskipuleggja annað, og almennt gera kerfið skynsamara.

  2. Leggja áherslu á að greiða niður skuldir með það að markmiði að minnka árlegan vaxtakostnað, sem er nokkurn vegin það sem núverandi ríkisstjórn hefur verið að gera, jafn leiðinlegt og það er.

  3. Stækka skattstofninn, sem felur í sér að reyna að hafa fleiri fyrirtæki sem græða mikið og færri fyrirtæki sem komast undan skattgreiðslum með því að nýta sér holur í kerfinu.

Ef við hugsum nú út í það hvað Bjarni Benediktsson hefur í huga með sínar digurbarkalegu yfirlýsingar í Valhöll um daginn um að Sjálfstæðisflokkurinn muni lækka skatta, þá erum við að sjá fram á voðalega einfalda uppskrift: Niðurskurður í velferðarkerfinu, einkavæðing verður á þeim hlutum ríkissjóðs sem eru að skila ríkinu raunverulegar tekjur, skuldir verða hundsaðar eða þær munu aukast, og skattstofninn stækkar kannski með því að skapa meira svigrúm fyrir erlendar fjárfestingar en það verður ekki lokað á neinar af þeim holum í skattkerfinu sem helstu stuðningsmenn þeirra reiða sig á.

Það er að segja, það verður stundað þrálátt skattskrum, eins og fyrri daginn.