Staðvær smáiðjustefna
Einhver gæti séð Internetið sem mestu stóriðju allra tíma. Alþjóðlegt samofið kerfi tækja sem sitja og reikna og gefa af sér hita, með fólk gjarnan púlandi fyrir framan sig, færandi punkta til á skjá eða rúllandi í gegnum einhverskonar talnarunu.
En Internetið er ekki stóriðja. Internetið er næringaræð fyrir smáiðju. Í stað þess að vera ein risavaxin verksmiðja með yfirboðurum sem segja öllum hvað skuli framleiða og hvernig, og hirða svo stærstan hluta gróðans, er Internetið staður þar sem hundruðir milljóna manna koma saman til að stunda viðskipti með sínar vörur, sem það framleiðir ýmist sjálft eða í slagtogi við aðra, hvort sem það er heima hjá sér, í sameiginlegri vinnustofu, eða í einhverri verksmiðju.
Í dag er netið talið vera um ellefu þúsund milljarða dollara hagkerfi árlega, með vöxt í kringum tuttugu prósent ár frá ári. Þetta er um það bil jafn ör vöxtur og samdrátturinn er í flestum iðnríkjum vesturheims í dag.
Af þessum ellefu þúsund milljörðum dollara eru Íslendingar áskrifendur að nánast engu. Hagkerfi Íslands er enn að miklu leyti byggt á stóriðjuhugsjónum sjöunda áratugsins og afleiðingum þess á íslenskt samfélag - tilhneyginguna til að stökkva á togaravæðingu, álvæðingu eða bankavæðingu af algjörri blindni við þann mikilvæga eiginleika náttúrunnar að hafa fjölbreytileika.
Þessi stóriðjutilhneyging varð samt ekki til í tómarúmi. Þeir stjórnmálaflokkar sem hafa farið með stjórn landsins síðan landið öðlaðist sjálfstæði hafa skipst á að hafa enga sérstaka hugmynd um hvað sé vert að gera til að byggja upp sterkt hagkerfi á Íslandi. Þá sjaldan að einhver fær góða hugmynd, eða að aðstæður bjóða upp á eitthvað nýtt, hlaupa allir til og vilja sneið af nýju gullgæsinni.
Píratar eru stjórnmálaflokkur sem varð til í fjölbreytileika Internetsins. Það er í gegnum frjálslynda alþjóðahyggju samofið við fjölbreytta staðværa smáiðjustefnu sem mestir möguleikar eru á því að Íslendingar geti notið góðs af þessu ellefu þúsund milljarða dollara hagkerfi Internetsins.
Píratar vilja því fyrst og fremst opna á möguleika einstaklinga til að stunda nýsköpun og fylgja sinum draumum, opna á viðskiptamöguleika við önnur lönd, og reyna að stuðla að góðu starfsumhverfi fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki.
70-90% af hagkerfum allra vestrænna samfélaga byggist á litlum og meðalstórum fyrirtækjum. Píratar eru eina stjórnmálaaflið á Íslandi sem hefur engan áhuga á stóriðju, en vill frekar nýta fjölbreytileika samfélagsins til betrunar fyrir alla.
(Fyrst birt í Tîmanum 31. janúar 2013)