Taut og fruss
Mér finnst alltaf skemmtilegt þegar fólk frábiður sér að skilja hluti. Þegar fólk frussar og tautar, hristir hausinn og ályktar að þetta sé bara alltsaman fáranlegt.
Styrmir Gunnarsson er maður sem frussar ekki oft, og tautar sjaldan, en þegar hann gerir það gerir hann það af miklum eldmóði. Hann skrifaði á Evrópuvaktina: “Sjálfsagt hafa ekki margir haft mikla trú á þeim stjórnmálaflokki, sem nefnist Píratar enda erfitt að festa hendur á því hvers konar flokkur það er. Þess vegna vekur athygli sú staðreynd að um 11% kjósenda undir þrítugu ætli að kjósa þann flokk skv. greiningu RÚV á síðustu Gallup-könnun.” Síðar talar hann um “óskilgreinda áherslu” okkar á netið.
Nema hvað hann ritar með z.
Á bloggsíðu.
Sko.
Áhersla okkar á netið er ekki illa skilgreind. Píratar átta sig á því að framtíðarmöguleikar Íslands á velferð munu byggjast að miklu leyti á tækniþekkingu og þátttöku okkar í alþjóðlegum mörkuðum. Netið er í dag 11 trilljón dollara hagkerfi á heimsvísu, og vex á c.a. þeim hraða sem sum vestræn hagkerfi eru að dragast saman. Næsta kjörtímabil Alþingis snýst um að ákveða hversu stóra hlutdeild í því hagkerfi Ísland vill eiga.
Netið er líka mikilvægasta fjarskiptatól allra tíma. Það brýtur einokun, það eyðileggur alræðisvald, það upprætir spillingu. Netið hefur sínar dimmar hliðar, leysir ekki öll vandamál og skapar jafnvel ný, en það ætti ekki neinn að vanmeta þær breytingar sem munu eiga sér stað á samfélaginu okkar á næstu árum vegna netsins.
Þegar Styrmir segir að erfitt sé að festa hendur á því hvers konar flokkur Píratar er, þá grunar mig að það sé vegna þess að hann - eins og margir aðrir, sé að velta því fyrir sér hvort Píratar séu hægri- eða vinstriflokkur. Það er auðvitað frekar skiljanlegt að fólk eigi pínu erfitt með að átta sig á því að við erum að ganga gegn hægri-vinstri hugmyndafræðinni bæði í orði og verki.
Við höfum hreinlega engan áhuga á úreldum iðnbyltingarhugmyndum um vald og baráttunna milli einstaklinga og hópa. Það er gamalt og leiðinlegt. Netið hefur kennt okkur að án einstaklinga er ekkert samfélag, og án samfélags er einstaklingurinn merkingarlaus. Einstaklingshyggja og félagshyggja eru ekki andstæður - þessar stefnur eru órjúfanlegur hluti hvor af annari.
Spurningin sem við spyrjum er einfaldari: Hvort viltu að valdið yfir samfélaginu og einstaklingunum sé í höndum einstaklingana og samfélagsins, eða að allt vald sé í höndum lítils elítukjarna? Verður framtíðin miðstýrð eða dreifstýrð? Verður Ísland framtíðarinnar eins og Kína, eða eins og Internetið?
Er erfitt að festa hendur á þetta? Það held ég ekki.