Contents

Pólitísk snilligáfa

Contents

Ég hef nokkrum sinnum heyrt fólk kvarta yfir því að stefna Pírata sé of flókin fyrir almenning. Við notum víst of stór orð, eins og “gegnsæi” og “sjálfsákvörðunarréttur”. Mér finnst ekkert að því að hafa smá trú á leshæfileika almennings. Hinsvegar lenti ég sjálfur í smá lesörðugleikum í gær.

Þegar ég hafði lesið grein Heiðu Kristínar Helgadóttur í Fréttablaðinu á föstudaginn, sem bar yfirskriftina “Má bjóða þér Bjarta framtíð?” lagði ég frá mér blaðið í smá stund og reyndi að átta mig á skilaboðunum. Svo las ég hana aftur.

Svo í þriðja skiptið, og það fjórða, áður en ég komst að þeirri niðurstöðu að annaðhvort hlyti mér að hafa áskotnast bráðalesblinda á alvarlegu stigi, eða þá að þessi 665 orð hafi verið að mestu leyti merkingarlaus. Jújú, það var svo sem eitt og annað í þessu: smá æskuminning, smá sjálfshól fyrir að hafa náð að stofna tvo stjórnmálaflokka, og einhverskonar þjóðrembingsleg sjálfhverfa í lokin… en það getur varla verið að þetta hafi verið allt og sumt, er það? Greinar sem birtast í dagblöðum fjalla að jafnaði um eitthvað.

En þegar ég hugsa málið betur er þetta álíka merkingarbær grein og allt annað sem ég hef séð frá Bjartri framtíð. Heiða, sem hefur lýst sér sem “pólitísku undrabarni” virðist hafa áttað sig á því að það sé hægt að ná góðri kosningu án þess að leggja fram neinar staðfastar hugmyndir, svo lengi sem orðræðan er nægilega vel aðlöguð að sínum þörfum.

Orðræðuverkfræði er í mikilli uppsveiflu þessa dagana. Til dæmis hefur það farið í taugarnar á mér að talað er um Guðmund Steingrímsson og Róbert Marshall í flestum fjölmiðlum sem “þingmenn Bjartrar framtíðar”. Þetta er hreinlega ekki satt. Það er rétt að þeir eru báðir þingmenn, og það er rétt að þeir eru báðir meðlimir í Bjartri framtíð, en það gerir þá ekki að þingmönnum Bjartrar framtíðar neitt frekar en að það að vera meðlimur í Kiwanisklúbbi geri þingmann að þingmanni Kiwanis.

Á Alþingi eru þingflokkar sem eru búnir til samkvæmt þingskaparlögum og þingmenn sem tilheyra þingflokki eru þingmenn þess þingflokks. Guðmundur og Róbert eru þingmenn utan flokka þar til þessu kjörtímabili lýkur, nema þeir gangi til liðs við annan þingflokk eða stofni nýjan.

En þetta virkar. Þrátt fyrir að liðsmenn þessa ágæta flokks hafi ekki lagt fram neinar áþreifanlegar hugmyndir um hvernig eigi að gera hlutina eða hvað megi betur fara hafa þeir fengið til sín gríðarlegt fylgi. Stefnuskrá þeirra er álíka innantóm og grein Heiðu, þó svo að það sé mikil yfirborðsfegurð og góð stílfæring í gangi. Fjölmiðlarnir éta þetta upp gagnrýnislaust og endurvarpa eins og þeir fái borgað fyrir það - sem ég vona að sé ekki tilfellið.

Þetta er ekki bara Björt framtíð og alls ekki ætlun mín að gera bara árás á þann flokk - hann kom bara þessari hugsun af stað hjá mér. Allir flokkar hafa gerst sekir um það að reyna að smætta alla umræðu niður í einfeldingsleg slagorð og óljósar lausnir. Þetta er gert vegna þess að ráðamenn landsins hafa áratugum saman gengið út frá því að almenningur sé illa upplýstur og hegði sér helst eftir óupplýstu hjarðeðli og að það eigi barasta að vera þannig áfram.

Er þetta allt sem þarf til að ná kjöri á Íslandi? Leyfum við mælskum stjórnmálamönnum enn að slá ryki í augun á okkur með ofureinfaldaðri fortuggðri orðræðu? Er ekki kominn tími til að við kynnum okkur málið, lesum á milli línanna og afskrifum þá sem hafa ekkert fram að færa? Til að bæta samfélagið þurfum við djúpa samfélagsumræðu og fólk sem ætlar sér að gera eitthvað annað en líta vel út og segja snyrtilega hluti í pontu á Alþingi.

Við þurfum raunveruleika á mannamáli ekki pólítíska drauma um töfralausnir. Því miður er ekki hægt að koma slíkum raunveruleika að án þess að nota flóknu orðin líka.