Merkingarbærni
Þegar kosningar fara fram eru tveir valkostir í boði: að taka þátt, eða að taka ekki þátt. Þátttaka felst í því að mæta á kjörstað og gefa upp afstöðu sína, en þátttökuleysi felur í sér að sitja heima eða að mæta á kjörstað og skila auðu. Nú eru stjórnarflokkarnir og andstæðingar nýrrar stjórnarskrár að ræða um að svipta almenningi rétt til þátttökuleysis í þjóðaratkvæðagreiðslum um stjórnarskrárbreytingar.
Þetta er gert með því að láta það að taka ekki þátt öðlast sömu merkingu og að hafa tekið þátt og sagt nei. Afleiðingin af því er að ógreidd atkvæði munu standa gegn greiddum já-atkvæðum með sama mætti og önnur nei-atkvæði.
Það verður nánast ómögulegt að ná fram breytingum undir þessu fyrirkomulagi. Það er það sem sumir vilja, þrátt fyrir skýra afstöðu þeirra 70% kosningabærra manna sem nýttu sér sinn þátttökurétt í þjóðaratkvæðagreiðslunni núna í haust.
Svona fyrirkomulag er ekkert annað en árás á lýðræðið. Þetta eru frekar stór orð, en það hlýtur hver að sjá að það er ekkert lýðræðislegt við það að það sé mun erfiðara að segja “já” en “nei”.
Ímyndum okkur að þetta væru forsetakosningar með tveimur frambjóðendum, og búið væri að setja lög um það að það þyrfti 40% kosningabærra manna að styðja annan þeirra til að hann gæti orðið forseti, en annars myndi hinn vinna. Það væri nóg fyrir nei-gaurinn að skapa aðstæður þannig að fólk viti ekki almennt af því að það sé kjördagur (t.d. með því að minnka fjölmiðlaathygli á málinu) eða sannfæra fólk um að vera heima út af einhverju öðru (kannski heimsmeistaramót í einhverri íþrótt?) til að hinn gæti ekki unnið.
Þótt við séu ekki að tala um val milli fólks erum við að tala um val milli valkosta. Það að gera mismunandi kröfur fyrir samþykki mismunandi valkosta er ekki lýðræðislegt.
En þetta vilja formennirnir á Alþingi núna. Svei.