Contents

Uppgjör

Contents

Ja hérna hér.

Þetta var ótrúlega skemmtilegt. Ég hefði aldrei átt von á því að það gæti verið gaman að vera í framboði, en það var ótrúlega skemmtilegt að eiga allskonar samtöl við fólk með allskonar skoðanir og allskonar drauma og væntingar. Það var ótrúlega skemmtilegt að taka þátt í samtölum á opinberum vettvangi með forystufólki hinna framboðanna, og ég vona að þeim gangi öllum mjög vel í framhaldinu. En umfram allt var gaman að vera hluti af nýju alþjóðlegu stjórnmálaafli sem kom inn í umræðuna sem, að margra mati, hálfgerður brandari, og sanna að við værum miklu meira en það.

Píratar náðu fínum árangri í þessum kosningum. Þrjú þingsæti kunna að virðast lítið, en þegar litið er á það hvað annað við gerðum í þessum kosningum er margt áhugavert.

Fyrst: hvað fór úrskeiðis? Við vorum með 6.3% nokkuð áreiðanlega í öllum skoðanakönnunum síðstu vikuna, og risum alveg upp í 9% á tímabili. Það sem klikkaði var helst tvennt, held ég. Í fyrsta lagi voru nákvæmlega tveir í okkar flokki sem höfðu reynslu af stjórnmálum, og ákveðnar náttúrulegar takmarkanir á því hversu mikið þau gátu ausið úr sínum viskubrunnum. Við þurftum því að gera nokkur byrjendamistök hér og þar, því við erum alveg óttalega mannleg. Í öðru lagi urðum við kosningahegðun að bráð: ungt fólk myndaði kjarnann okkar, og þótt margir hafi mætt og kosið þá virðist kjörsókn ungra hafa verið minni en æskilegt hefði verið. Þá er það líka þannig að fólk hefur tilhneygingu til að verða íhaldssamara þegar það kemur í kjörklefann, og velja þá frekar það sem þau völdu síðast. Allt af þessu var fyrirsjáanlegt, og ekkert af þessu er neitt til að skammast sín fyrir. Svona gerist þetta.

Þetta tvennt var þó nauðaómerkilegt í samanburði kosningakerfið. Þessar kosningar voru sem skólabókardæmi á alla helstu galla kosningakerfisins: 5% mörkin, engin forgangskosning heldur bara einföld X eins og við værum á 14. öld, engir möguleikar á persónukjöri, og svo framvegis. Svo var svo margt í ólagi með framkvæmd kosningana að það mætti skrifa um það stutta bók. Það verður reyndar gert - Píratar eru að útbúa samantekt núna.

En það er merkilegt að við keyrðum kosningabaráttu nær algjörlega án auglýsinga í hefðbundnum fjölmiðlum - aðeins nokkrar, þá aðallega í héraðsfjölmiðlum á lokametrunum. Fyrir mestan part nýttum við okkur bara víðtækt net stuðningsmanna til að magna upp náttúrulega umræðu. Þetta geta ekki allir flokkar gert. Eins og Doc Searls og David Weinberger bentu á eru markaðir samtöl, og fólk tekur ekki þátt í samtölum ef því finnst vera talað niður til sín. Hefðbundin stjórnmál þurfa að læra að tala eins og mannverur. Sumir, til dæmis Katrín Jakobsdóttir, sem er klárlega einn af mínum uppáhalds íslenskum stjórnmálamönnum, kunna það - en mér finnst agalegt hvað það eru mörg vélmenni í sumum flokkum. Í kosningabaráttunni þegar fulltrúar framboðanna hittust voru langsamlega flestir mjög vinalegir og skemmtilegir, en það voru fyrst og fremst tveir menn sem voru kaldir á manninn og óvinalegir. Þeir hafa sennilega ekki einusinni áttað sig á því sjálfir. Við eigum eftir að taka saman heildarkostnað við kosningabaráttuna, en mér skilst að hún skagi rétt upp fyrir þrjár milljónir, með starfsmannakostnaði.

Við erum líka fyrsti flokkur Pírata til að ná fólki inn á þjóðþing. Undanfarna tvo daga hafa rignt yfir okkur hamingjuóskir að utan, og það hefur verið fjallað mjög mikið um þennan sigur Pírata í alþjóðlegum fjölmiðlum. Þetta þýðir að nú eru Píratar með kjörna fulltrúa í 7 löndum, og stefna hraðbyr á fleiri sigra um alla Evrópu og víðar á komandi árum.

Píratar náðu auk þess að breyta umræðunni verulega. Á tímabili gat helst enginn opnað á sér munninn í umræðunni án þess að minnast á einhvern hátt á málefnin sem Píratar lögðu áherslu á: gagnsæi, þátttökulýðræði, og sveigjanlega smáiðju. Alveg sama hvað gerist í framhaldinu verða þessi umræðuefni inní þjóðmálaumræðunni - að minnsta kosti meðan Píratar eru á Alþingi.

Ég læt það ógert að lýsa minni skoðun á niðurstöðum kosninganna að öðru leyti þar til búið er að mynda ríkisstjórn, nema hvað ég skal segja þetta: Þetta valdi fólk, þetta var lýðræðisleg niðurstaða, óháð kostum og göllum kosningakerfisins. Ef einhver verður á einhverjum tímapunkti á komandi kjörtímabili ósátt við niðurstöðu kosninganna er nákvæmlega tvennt í boði: að kvarta og kveina eins og vanalega yfir því hvað stjórnvöld eru hrikaleg og láta eins og þetta sé eitthvað sem kom fyrir án þess að þau hafi haft neitt um það að segja, eða að taka þetta til sín og hugsa sinn gang.

Nú smá persónulegt:

Á undanförnum dögum hafa rosalega margir, úr öllum flokkum, sagt við mig að þeir vildu gjarnan að ég hefði komist inn á þing, og margir hafa spurt mig hvað ég mun gera næst.

Meðan ég þakka það traust sem mér er sýnt, þá er ég alveg sáttur við niðurstöðuna fyrir mitt leyti. Ég hef ekki mikla þörf fyrir að fara á Alþingi persónulega, og var framboð mitt ekkert annað en tilraun til að láta gott af mér leiða á þessum innlenda vettvangi. Það að vera ekki fastur á Alþingi næstu fjögur ár þýðir bara að ég hef meiri sveigjanleika og frelsi til að halda áfram að gera áhugaverða hluti á alþjóðlegum vettvangi - þar sem ég uni mér best.

Ég er með fulla dagskrá næstu vikur. Strax á morgun fer ég til London og verð með erindi í Royal Society um framtíð tækniþróunar og valds. Næsta dag fer ég til Kostaríka á World Press Freedom Day hátíðarhöldin sem UNESCO standa fyrir, en þar mun ég kenna rannsóknarblaðamönnum að verja öryggi sitt. Því næst til Ungverjalands, þar sem ég mun vera með fyrirlestra um þátttökulýðræði og reyna að hjálpa aðeins til varðandi þeirra ógurlega lýðræðishalla. Þegar því öllu er lokið verður væntanlega komin mynd á hvernig hlutirnir verða heima á Íslandi og ég get tekið frekari ákvarðanir um framhaldið.

Ljóst er að stofnunin sem ég hef rekið undanfarin ár - IMMI - er farin að sakna þess að hafa framkvæmdarstjórann sinn í vinnu. Nú eru vonandi nýjir styrkir að koma þar inn og mikil uppbyggingarvinna framundan. IMMI hefur veitt ýmsum ríkisstjórnum aðhald, haft áhrif á þróun mála á Íslandi og í Evrópusambandinu, og verið virkur þátttakandi í ýmsum mikilvægum umræðum sem hafa verið að eiga sér stað á heimsvísu. Okkur vantar nú að tryggja stofnuninni aukið fjármagn, fjölga starfsfólki, og spýta í lófana, því upplýsinga- og tjáningarfrelsi á undir högg að sækja sem aldrei fyrr. En IMMI er ekki pólitískt háð stofnun, og ég þarf að gera ýmislegt til að tryggja að þátttaka mín í Pírötum hafi ekki neikvæð áhrif á stofnunina.

Ég hef líka áhuga á að sinna skrifum betur á næstunni: nú er ég kominn í ráðgjafarráð tímaritsins Arc, sem ég hef verið að skrifa fyrir, en þar er ég í hópi með helstu vísindaskáldsögurithöfundum okkar tíma - bókstaflega fólkið sem mótaði mína hugsun á uppvaxtarárunum. Það verður gaman að skrifa meira þar, og líka fyrir önnur tímarit. Það er líka ágætis slatti af fræðigreinum sem mig langar að klára á næstu mánuðum, meðal annars um öryggisskilyrði fyrir rafrænt lýðræði, um þróun fjarskiptalöggjafar, og um valddreifingu. Þetta verður helskemmtilegt!

Þátttaka mín í Pírötum mun samt halda áfram, en hugsanlega með aðeins breyttu sniði. Það eru flokkar Pírata um allan heim sem eru að skipuleggja sig og reyna að koma sér á framfæri. Samhliða því að vinna í innra starfi íslenskra Pírata og aðstoða þingflokk Pírata eins mikið og ég get hér á Íslandi gæti verið að ég leggi svolitla vinnu í að styðja og styrkja flokka Pírata víðsvegar í Evrópu, sem ætla sér í sameiginlegt framboð til Evrópuþings á næsta ári. Ekkert er svosem ákveðið í þessu ennþá, en það eru ýmsir möguleikar í boði.

Hvað annað gerist veit ég ekki. Það er af nógu að taka. Mér leiðist aldrei.